Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Skúla bónda

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Sagan af Skúla bónda

Í fyrndinni bjó bóndi sá á Glúmsstöðum í Fljótsdal er Skúli hét; hann var vel sjálfum sér bjargandi. Hann bjó nokkur ár ógiftur. Eitt vor fór til hans kvenmaður úr Fljótsdalshéraði sem Sigríður hét og var talin með þeim vænstu í öllu Fljótsdalshéraði. Svo var hún bústýra hjá honum um sumarið, en um haustið giftust þau. En þegar tvær vikur voru liðnar frá því þau giftust bar svo við eitt kvöld þegar allir voru komnir inn að Sigríður gekk út til að taka inn þvott er hún átti úti. Svo leið nokkur tími að hún kom ekki inn. Fóru menn þá að lengja eftir henni og fóru út og leituðu allt í kringum bæinn og í húsunum á túninu, því lengra var ekki hægt að leita vegna náttmyrkurs og menn kölluðu hver sem betur gat. En allt kom fyrir ekkert, hún fannst ekki. Svo sváfu menn af um nóttina. Daginn eftir þegar lýsa tók var safnað saman mönnum og leitað fyrst inn í Múla. En þegar hún fannst þar ekki þá var leitað um allar Fljótsdalsafréttir hreint inn undir Snæfellsjökul. En allt kom fyrir ekkert; hún fannst hvurgi og þókti mönnum kynlegt hvarf á henni. Svo hélt hver heim til sín og Skúli settist að búi sínu og tók sér aðra bústýru.

Svo leið þessi veturinn og sumarið á eftir að ekkert bar til tíðinda. En um haustið þegar búið var að ganga fyrstu gönguna kom ekkert af geldfé Skúla bónda nema fáeinir sauðir til skurðar. Svo voru gengnar tvær síðari göngurnar, en allt fyrir það kom ekkert af geldfé bónda og þókti honum það undarlegt. En skömmu þar á eftir hvurfu allar ær Skúla bónda og allir hestarnir og þókti honum sem öðrum það kynlegt hvarf. Svo býr bóndi sig til að leita að gripunum og lætur einn vinnumann sinn fara með sér sem hann trúði bezt. Síðan halda þeir á stað og ganga inn allan Múla hreint inn undir jökul. Svo halda þeir vestur með honum þangað til þeir eru komnir inn á bak við Snæfell. Þá dettur á þá glórulaust snjóveður svo þeir villtust og vissu ekkert hvað þeir fóru, og komu á þriðja degi frá því þeir fóru að heiman ofan í dal og var hann snjólaus allt upp í miðjar hlíðar. Bæ sáu þeir í dalnum nokkuð stóran svo þeir réðu það af að fara heim að bænum. Þegar þeir komu heim þá börðu þeir á dyrum. Þar kom út stúlka; þeir heilsa henni. Hún tekur vel kveðju þeirra. Skúli biður hana um að skila til þess sem fyrirráðandi sé að lofa þeim að vera. Hún gengur inn; og að vörmu spori kemur hún út aftur og segir að þeir séu sagðir velkomnir. Síðan leiðir hún þá inn í baðstofu og vísar þeim til sætis í annan enda baðstofunnar, en í hinum enda baðstofunnar sat kvenfólk. Síðan dregur stúlkan af þeim vosklæðin og fær þeim þur föt til að fara í. Svo bar hún vín og vistir á borð fyrir þá. En þegar þeir voru nýstaðnir upp frá borðum þá komu þrír karlmenn inn, en rétt í því lýkst upp hurð rétt hjá hliðinni á Skúla og þar gengur út maður og er í rauðum frakka. Byggðamenn stóðu upp og heilsuðu honum; hann tekur vel kveðju þeirra. Hann segir svo til karlmanna: „Sælir verið þið, piltar mínir.“ Svo segir hann við þá: „Gat búaféð fengið skjól og búahestarnir?“ Þeir kváðu já við. „En féð mitt; gátu þið komið því í skýli?“ Þeir sögðu að svo hefði verið. „Það er mikið gott,“ segir hann. Svo var hann að skrafa við pilta sína. En þegar háttatími var kominn þá tekur stúlkan í hendina á Skúla og segir þeim að koma með sér. Hún leiðir þá svo fram í skála og vísar þeim þar í gott rúm, býður þeim svo góða nótt, en þeir sofnuðu strax og vöknuðu ekki fyrri en stúlkan sem þjónaði þeim til sængur bauð þeim góðan dag. Þeir spyrja hana hvurnin veður sé. Hún segir að það sé snjóveður. Síðan klæða þeir sig. Að því búnu fylgir hún þeim inn í baðstofu og vísar þeim í þau sæti er þeir höfðu setið í kvöldinu áður.

En að lítilli stundu liðinni var lokið upp sömu húsdyrunum og kvöldinu áður og þar gekk út sami maðurinn á rauða frakkanum og fer fram úr baðstofunni, en skildi húsdyrnar eftir opnar svo Skúli sá inn í húsið og í húsinu sá hann konu sitja undir ungabarni. Þeir ganga svo inn til hennar og heilsa henni. Hún tekur vel kveðju þeirra og vísar Skúla til sætis, en segir vinnumanni hans að fara til þess sætis sem hann áður sat í. Síðan tekur hún til máls og segir við Skúla: „Þekkir þú mig ekki?“ Hann segir: „Það finnst mér að ég þekki þig; mér sýnist að það vera sama konan sem hvarf frá mér í fyrrasumar.“ „Það er sem þér sýnist,“ segir hún; „ég er sú hin sama. Þegar ég ætlaði að fara að taka inn þvottinn þá vissi ég ekki fyrri til en maður kom og tók mig, setti mig á söðlaðan hest og batt mig ofan á hann. Ég reyndi til að kalla mér til hjálpar, en það dugði ekki því hann batt fyrir munninn á mér svo ég kom ekki upp neinu hljóði. Svo hélt hann með mig í þenna dal og giftist mér. Það er sami maðurinn og þú sást ganga út úr húsinu. Hann er sýslumaður yfir þessum landshluta er Landahringur heitir.“ Rétt í þessu kemur sýslumaður inn og býður þeim góðan dag. Síðan tekur hann til máls og segir: „Þú munt vera reiður við mig, Skúli, og er það ekki að furða þar eð ég stal frá þér konunni og skal ég segja þér hvað til þess kom. Ég var víða kunnugur í Fljótsdalshéraði og leizt mér engin stúlka jafnvæn sem Sigríður þessi, en ég gat aldrei náð henni fyrr en hún kom til þín. Svo lét ég sækja geldfé þitt, ær og hesta. Gjörði ég það af því að það mun verða mesti víkingsvetur í Fljótsdal í vetur og munu flestir fella fé sitt. En fyrst svona er komið að gripir þínir eru flestir komnir hingað þá finnst mér bezt að þú farir hingað í vor. En þú þarft ekki að hafa fyrir því að flytja neitt af búi þínu hingað; þú mátt gjöra við það hvað þú vilt. Skúli þakkar honum fyrir gott boð og segist skuli þiggja það. Svo voru þeir þarna þangað til daginn á eftir. Þá var veður bjart svo Skúli kemur að máli við sýslumann og segist vilja fara að halda heim til sín. Svo lét sýslumaður fylgja þeim yfir jökulinn. En á leiðinni segir Skúli við vinnumann sinn: „Ég bið þig að segja öngum manni neitt um ferðir okkar því ég vil ekki að neinn byggðamanna viti að við höfum fundið þenna dal.“ Svo sagði Skúli honum frá viðtali þeirra sýslumanns og bað hann að leyna því. Svo segir ekkert af ferðum þeirra fyrr en þeir komu heim. Leið svo af veturinn að ekkert bar til tíðinda. En á sumardaginn fyrsta skipti hann öllum lausafjármununum sínum meðal vinnufólksins og þeim fátækustu í sveitinni; en jörðina, bæinn og öll útihús gaf hann vinnumanni sínum er fór með honum í dalinn. Síðan lét hann sækja reiðhest sinn, lagði síðan á hann og hélt svo á stað; og vita menn svo ekki um hann meira. En mörgum þókti undarlegt hvarf á Skúla.

Svo settist vinnumaður Skúla (sem var) að búi á Glúmsstöðum og bjó þar tíð sína. En þegar baðstofan var rifin þá fundust blöð undir rúminu sem bóndi hafði sofið í – og var þessi saga skrifuð á þau.