Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Sveini bónda

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Bóndi er Sveinn nefndur og bjó í Skagafirði á þeim bæ sem liggur við heiði þá sem farið er af á Kjöl. Það er sagt að Sveinn bóndi væri mesti stillingarmaður og svo sterkur að enginn vissi um afl hans. Það var eitt haust sem oftar að lestir þar að norðan fóru að fara suður á land. Einn dag var það að margar lestir fóru hjá bæ Sveins bónda að prestur nokkur úr einhverri sveitinni þar í kring kom til hans og bað hann að fylgja sér þangað til að hann næði einhverri lestinni. Sveinn er tregur til þess, en gjörir það þó fyrir bón prests. Þeir fara svo á stað og ríða á eftir lestunum þangað til kvöld er komið. Það hafði verið þykkmikið um daginn og mari í lofti. Prestur segir við Svein þegar kvöld var komið að þeir skyldu tjalda. Sveinn segir að þeim muni vera bezt að halda áfram; það sé ekki svo dimmt að ekki sé vegljóst, en tungl hafði vaðið í skýjum svo af því lýsti. Prestur vildi ekki annað en tjalda svo það verður úr á endanum, en Sveini þó nauðugt.

Þegar Sveinn vaknaði um morguninn og lítur út er snjór kominn upp á mitt tjald og er koldimmt svo hvergi sá fyrir snjódrífu. Sveinn vekur prest og segir honum hvernig veðrið var og segir við hann að nú muni vera bezt að halda áfram; nú sé það betra en í gærkvöld. Þeir fara svo að leita hestanna og þegar þeir voru búnir að finna þá fara þeir á stað þegar þeir eru tilbúnir. Þeir ríða svo þann dag allan, en ekkert vissi Sveinn hvað þeir fóru. En ekki hindraði það mikið ferð þeirra þó snjór væri kominn mikill og ákaft drifi, því snjórinn var laus svo hestarnir óðu fram úr. Þegar þeir eru búnir að ríða, að þeir halda næstum í tvo daga, finna þeir að fer að halla undan fæti og það alltaf meir og meir þangað til að þeir sjá ofan í dal og þá er snjórinn farinn að verða blautur. Þeir fóru svo ofan brattar brekkur ofan í dalinn og var þá farið að dimma og snjórinn svo blautur að ekki festi. Þeir ríða svo eftir dalnum; verða þá fyrir þeim fen og foræði svo þeir urðu að ganga af hestunum og skilja þá þar eftir, taka svo sína tjaldsúluna hvor og ganga við. Þegar þeir eru búnir að ganga æðispöl koma þeir á götustig. Þeir ganga eftir honum nokkuð lengi þangað til þeir sjá stóran bæ; var þá komið kolníðamyrkur. Þeir ganga heim að bænum og rekur Sveinn þá báðar tjaldsúlurnar niður við það bæjarhornið sem þeir komu að; en það gjörði hann til þess að hann vissi hvert þeir ætti að snúa sér ef þeir þyrftu að komast í burtu um nóttina. Svo berja þeir á dyrum; en áður en þeir börðu fór prestur að lofa guð fyrir það að þeir skyldu vera komnir til mannabyggða. Sveinn sagði að þeir skyldu hafa hægt við það að lofa guð þangað til á morgun. Þegar þeir eru búnir að berja kemur nokkuð roskinn maður til dyra. Þeir heilsa honum og biðja hann að lofa sér að vera; hann segir að þeir séu velkomnir. Hann leiðir þá svo inn í stofu. Þeir eru þar svo nokkra stund og þessi aldraði maður er oftast hjá þeim; eru þeir prestur og hann [að] tala saman þegar hann er hjá þeim, en Sveinn situr þegjandi. Þar kemur líka inn öldruð kona og heilsar þeim. Hún fer svo út aftur og þegar æði langt er frá liðið kemur hún inn með heitan graut í tréfati og biður þá gjöra svo vel og fá sér að borða, fer svo út aftur. Prestur tekur undireins til matar, en Sveinn ekki. Þegar prestur er búinn að borða nokkuð kemur mannskjúka upp í spæninum og verður þá prestur lafhræddur. Þá segir Sveinn: „Nú er yður bezt að lofa guð því nú eru þér komnir til mannabyggða,“ en prestur gefur undireins tapt að borða. Þau karl og kerling koma svo inn rétt á eftir þetta og fer kerling að fást um það að þeir hafi ekki getað borðað. „Nei,“ segir Sveinn; hann segir að þeir séu óvanir við að éta mannasoðsgraut. Þau segja hvaða dauðans vitleysa sé í þeim, það hafi ekki verið svo þau hafi vitað til, og eyða því með öllu. Sveinn spyr að hvort þeir geti ekki fengið að fara að leggjast fyrir. Þau segja að þeir geti fengið það. Svo fylgja þau þeim upp á loft og vísuðu þeim þar til rúms. Þegar þeir eru lagztir fyrir fara þau í burtu, en skilja ljós eftir hjá þeim á bita sem tók yfir mitt loftið svo bjart var í rjæfrinu, en dimmt fyrir neðan. Þegar þau eru fyrir skömmu farin tekur Sveinn föt sín og klæðir sig og segir presti að gjöra það líka. Svo taka þeir höfuðföt sín og gyrða þau undir belti sér og leggjast svo út af aftur. Sveini þykir það undarlegt að það hangir svo mikið af karlmannsfötum þar upp í rjæfrinu og segir við prest að það sé líkast til að þau séu af mönnunum sem hefðu farið suður Kjöl í sumar og ekki hefðu sézt síðan. Sveini þykir það líka undarlegt að honum finnst svo vondur daunn vera þar í loftinu; fer á flakk og leit um allt loftið að vita hvert hann finni ekkert. Hann finnur þá á endanum einhvern afkima og í honum fjóra mannsskrokka og af þeim lagði ódauninn. Hann kallar til prests og segir að hann skuli koma og sjá það sem hérna væri. Prestur kemur, en ætlar með öllu að líða niður af hræðslu þegar hann sá í krubbuna. Sveinn segir að það sé heldur snemmt að fara að hræðast undireins; nú sé bezt fyrir hann að fara að lofa guð. Sveinn segir að svona séu prestar ævinlega; hann hefði ekki viljað halda áfram um nóttina á eftir lestunum; þeir vilji aldrei fara að annara ráðum, heldur gjöra mönnum allt til ills sem þeir geta; þar segir hann að þeim sé rétt lýst; ekki hefði hann getað komið með lestunum um daginn, heldur hefði hann orðið að vera að slæpast á eftir. – Þeir fara svo aftur upp í rúmið.

Þegar þeir höfðu legið nokkra stund vakandi sjá þeir að karl og kelling koma upp á loftið og tveir krakkar á eftir; hefur karl öxi í hendi en kelling ljósskar. Sveinn hafði eins og siður var til í þá daga hárið bundið í skúf í hnakkanum og náði hann ofan á herðar. Þau ganga svo inn að rúminu, en þeir látast sofa. Karl gengur að Sveini því hann lá fyrir framan, vefur hárskúfnum um hendi sér og kippir höfðinu á honum fram á stokkinn; en í því sprettur Sveinn upp og undir karl og verða með þeim sviptingar miklar, en karl sleppir ekki takinu á skúfnum og heldur í hann þangað til hann kippir honum upp. En svo lauk að Sveinn hafði karl undir, þrífur til axarinnar sem karl hafði í hendinni og drepur hann þegar með henni. Þegar kelling sá það segir hún til krakkanna: „Hlaupið inn og segið að faðir ykkar sé drepinn.“ Þeir hlaupa á stað, Sveinn á eftir og gat rotað þann sem á undan fór með spýtu sem hann fann á gólfinu áður en hann komst ofan af loftinu, hinn svo undireins og kellingu þar á eftir. Síðan fer hann að rúminu til prests sem hvorki þorði að ymta né skrimta, þrífur hann undir hendi sér og brýzt út um glugga sem var á loftinu og ofan fyrir og kom á hlaðið. Hann fer þangað sem tjaldsúlurnar standa, tekur þær og heldur svo á stað í sömu átt og þeir komu úr, með prest undir hendinni. Þegar þeir eru komnir langt í burtu frá bænum lítur Sveinn aftur og sér þá ljósi bregða fyrir hvað eftir annað heima á bænum. Þeir halda svo áfram þangað til að hestar þeirra verða fyrir þeim. Þeir taka þá og halda svo áfram, en þegar dagur ljómaði voru þeir komnir upp á dalsbrúnina. Þeir halda svo stöðugt áfram án þess að vita hvað þeir fara, en á endanum komu þeir ofan að Hörgslandi á Síðu. Þar lagðist Sveinn, en prestur hélt ferð sinni áfram þangað sem hann ætlaði í fyrstunni.

Þegar Sveinn hafði legið hálfan mánuð var svo farið að svella að sárinu að hann var kominn á fætur og orðinn ferðafær. Hann fer þá að safna að sér mönnum og velur hina vöskustu sem vóru að fá þar í næstu sveitum þangað til þrjátíu voru komnir og voru þeir allir vopnaðir. Þeir halda svo á stað og er ekki getið um ferðir þeirra fyrr en þeir koma í dalinn. Þegar þeir koma til bæjarins sjá þeir að sextán menn standa á hlaði. Þegar þeir finnast verður lítið um kveðjur með þeim, heldur slær undireins í bardaga og verður Sveinn dalbúum heldur skeinuhættur og svo lýkur með þeim að þeir drepa alla dalbúana.

Það er sagt að dalurinn klyfi sig þegar inn í hann kom og tunga legið þar fram í hann. Þegar þeir voru nýbúnir að drepa þessa sem á bænum voru sjá þeir tólf menn koma á tunguna og stefna til bæjarins og bera brátt að. Þegar þeir koma slær þegar í bardaga, en svo lauk að Sveinn og hans félagar drepa þá alla, en ekki er getið um hvað margir féllu af Sveini. Þeir rannsaka svo bæinn, en finna lítið fémætt í honum. Þeir fara svo að leita kofa þeirra sem komu úr afdalnum. Þegar þeir komu í hann sjá þeir í honum þrjá bæi; þeir rannsökuðu svo tvo þá sem utar voru í dalnum og fundu á þeim engan mann og mjög lítið af fjármunum. Sveinn hafði, að sagan segir, gengið hvervetna fyrstur inn og svo gjörði hann einnig á þessum bæ sem fremstur var, en þegar hann var kominn inn fyrir dyrnar var gripið um hálsinn á honum og það heldur sterklega. Hann fer þá að þreifa fyrir sér og finnur þá karlskrokk liggjandi í kör. Félagar Sveins hlaupa þá til og drepa karl, en Sveinn fór að reyna að losa krumlur á karli af hálsi sér og hafði nóg með; og svo kreisti karl að hálsi á Sveini að hann var aldrei jafngóður síðan. Þeir héldu að því búnu á stað úr dalnum með þá lifandi gripi sem þeir fundu, en lögðu eld í býlin áður en þeir fóru. Þegar þeir komu til byggða skiptu þeir gripunum með sér og hver fór til síns heimilis. Sveinn fór einnig norður til bús síns og lýkur hér af honum að segja.