Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sagan af Sveini og Helgu

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni ríkur bóndi og átti eina dóttir sem hét Helga, efnileg og væn; hún ólst upp hjá foreldrum sínum. Einu sinni sem oftar fór hún að þvo með vinnukonunni so vinnukonan fór heim með þvott, en það var mikill hiti so að hún lagði sig framan í hól sem skyggði á bæinn. Stúlkan var lengi af því vegurinn var langur heim, en þegar hún kemur aftur þá er þvotturinn kyr, en stúlkan hvorfin. So fer hún að leita í kringum hólinn því hann var mjög stór, og finnur hana hvurgi; so hún bregður við skjótt, segir heimafólkinu þetta, að hún finni hana hvurgi.

Það er uppeldissonur hjónanna á bænum sem hét Sveinn sem ætlaði sér Helgu og verður nú heldur illt við, og fer múgur og margmenni að leita. Fyrst er leitað í öllum húsum og með læknum og so um fjöll og heiðar, og hún finnst hvurgi og er farið heim við svo búið.

Nú víkur sögunni til Helgu að hún veit ekki fyr til en hún er komin á hestbak og er riðið hart með hana og hún kemur engu orði fyrir sig. Og hann ríður alltaf á þangað til seint um kvöldið að þau koma í einn dal; hún sér þar átta bæi. So ríður hann heim að stærsta bænum og það er kirkjustaður. Þar stendur kona úti; hún heyrir á heilsuninni að það er móður hans. Hann skipar henni að taka við stúlkunni; hún fer með hana inn í fallegt hús og er allt farfað innan; þar er matur og vín á borði sem henni er boðið og þar er eitt rúm sem hún á að sofa í. Það liggur so illa á henni að hún hvorki borðaði né sofnaði. Á borðinu liggur bók og hún er alltaf að lesa í henni, og það er í henni guðsorð. Það er alltaf að koma til hennar stúlka og segir henni sé bezt að gera sig rólega og vera hér af því hún komist ekki í burtu hvort sem sé, en það verði ekkert farið illa með hana hér ef hún sé almennileg. So þessi stúlka er hjá henni til skemmtunar á næturnar.

So líða fram stundir og kemur að því að það á að fara að messa. Nú kemur margt fólk úr dalnum. Hún sér þá að það er prestur sem sótti hana. Það fer allt vel fram í kirkjunni og þar eru höfðingjar. So fer sumt inn í bæ og fær góðgerðir og so fer hvur heim til síns bæjar. Er stúlkan kölluð inn í eitt hús; þar er presturinn að ganga um gólf; þar er móður hans líka. So hann spyr hana að hvurnin henni hafi líkað að vera í kirkjunni; hún segir vel. Hann segir að hann hafi séð hana í kaupstað með hönum föður sínum og hafi sér vel litizt á hana og hafi sig langað að ná henni til sín, en hafi aldrei fengið tækifæri á því fyr en nú. Hún megi velja um tvo kosti, sé nú það fyrra að eiga sig, en annar sé það að hún verði annaðhvort drifin í burt eða drepin. Hún segist vilja ganga að því að eiga hann. So er slegið upp veizlu og er boðið mörgum og er stofubrullaup.

Nú líða fram stundir að það deyr gamla konan; nú eru komin tólf ár síðan hún kom í dalinn og líkar þar mjög vel.

Nú víkur sögunni til foreldra hennar, í sveitina þar sem þau áttu heima, og vantaði hjá sveitabændum mikið fé á heimtir um haustið so Sveinn uppeldissonur þeirra bauðst til að fara með því móti að hann fengi eina kind hjá hvurjum. Hann býr sig út með nesti og nýja skó og nú gengur hann á stað og gengur vel og lengi og er búinn að ganga marga daga og finnur önga kind, þangað til seint um kvöld finnur hann reykjarlykt, fer eftir reykjarlyktinni og þykir undarlegt að vera kominn svo nærri bæjum, þangað til að hann kemur í einn dal, kemur þar að túngarð og að einu hlið[i]. Hann gengur inn um hliðið; so fer hann heim og sér þar ljós á gluggum, klappar upp á dyr. Þar kemur stúlka til dyranna með kertaljós í hendinni. Hann heilsar upp á hana; hann spyr hana að hvað bærinn heiti sem hann sé kominn að; hún segir að það héti Dalur. Hann biður hana að skila í bæinn að lofa sér að vera. Hún fer inn og hún segir hann muni fá það; fylgjast þau nú inn í bæinn. Verður þá fyrir honum hár stigi; fara þau hann upp og sér hann margt fólk fyrir á loftinu, og karlmennirnir vóru að taka ofan af, tæja og kemba, en kvenfólkið að spinna. Hann sér þar karlmann og kvenmann í gapastokk nyrzt í baðstofunni. Hönum er skipað að tylla sér niður og er dregin af hönum vosklæði og fengið þurrt að fara í; hann fékk so að borða. So sér hann hurð í hálfri gátt og þar sér hann kjólmann að ganga um gólf. Fólkið er þægilegt við hann og það spyr hvað hann sé að fara; hann kvað hann væri að leita að sauðum og hafi villzt. So kemur stúlka til hans og segir hann eigi að fara að hátta og fer með hann niður í eitt hús; hann sér þar borð og bekki og uppbúið fallegt rúm. So togar hún í hann, en áður en hann fór að hátta sagði hann sér hefði staðið stuggur af mönnunum í gapastokknum, hvað þeir hafi til saka. Hún segir þeir hafi átt barn og sé það straff á þau af því það sé so þröngt pláts. So fer hún frá honum og nú heyrir hann er farið að lesa. Þegar var farið að syngja þykir hönum líkt söngnum helga. So þegar búið var að lesa virtist hönum vera farið í fjósið. So kemur stúlkan sem togaði í hann, með fulla leirskál fulla af kakkþykku súru skyri og út á og sagði hann ætti að borða það, og so bauð hún honum góðar nætur og fer svo í burtu frá honum. So virðist honum vera farið ofan að hátta; so sefur hann af um nóttina.

Nú þegar er farið að birta þá heyrði hann rokkaskrölt og so er lokið upp húsinu hjá hönum og kemur inn kona og heldur á morgunverði í annari hendinni, en kertaljósi í hinni, og býður honum góðan dag og fær honum kaffi, sezt so niður í bekkinn og segir: „Hvað segirðu í fréttum, Sveinn minn? Nú er nokkuð síðan við höfum sézt“ – og spyr hvort hjónin í Hól lifi. So þekkjast þau og verður hjá þeim fagnaðarfundur. Hún spyr hann frétta; hann segir henni svo allar fréttir. So fer hún og segir hann verði að taka öllum málum vel við manninn sinn; hann sé prestur hér í dalnum. Þegar hún er farin kemur presturinn inn til hans reykjandi og býður honum góðan dag og fer so að skrafa við hann og segir að honum muni ekki um sig, að hann hafi ekki getað að því gert, hann hafi ekki vitað að þau ætluðu að eigast, en segist samt skuli bæta úr því ef hann vilji, að láta hann fá elztu dóttur sína. En ef hann vilji það ekki þá skipti hann sér ekki meira af hönum. Hann þiggur hana; presturinn segir hún sé átján ára. Hann segir hann megi gera hvort hann vilji vera hér eða fara með hana heim til sín. Hann segir að hann hafi komizt hingað af sínum völdum af því konuna sína hafi langað til að vita hvurnin foreldrum sínum hafi liðið. – Og er hann þar nokkurar nætur í góðu yfirlæti; so fór hann með nesti og nýja skó og rak mikið fé og segir hann megi vænta sín í vor. So fer hann með féð. So kemur hann heim til fósturforeldra sinna og þar verður fagnaðarfundur; so segir hann þeim allar fréttirnar. Og so líður veturinn; so fer hann aftur í dalinn þar sem hann kom að og flutti með sér vín. So giftast þau og mörgu er boðið. Dótt[ir] prestsins var gerð vel úr garði; so fara þau og fylgja foreldrar hennar þeim á leið; so kom hann heim til sín. Þau taka so við búinu ungu hjónin, en gömlu hjónin gáfu frá sér, og sendist so allt á hvurt öðru. Hann var sterkríkur og þeir borguðu honum sem áttu féð. – Endar so sagan af þessum hjónum og þessum dalbúum.