Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sauðamaðurinn á Grímsstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
Sauðamaðurinn á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum hinum eystri bjó ríkur bóndi; hann átti fjölda sauða. Hélt hann sauðamann sem gætti alls fjárins um vetur. Einu sinni var það á hausti þegar sauðamaður var genginn til beitarhúsa og hafði rekið fénað til beitar í haga að kom á kafald mikið og kom ekki sauðamaður heim um kveldið. Daginn eftir var hríð dimm og svo hinn þriðja dag. Á fjórða degi birti upp og var hafin leit eftir sauðamanni og fénaði bónda. Gekk svo í hálfan mánuð og fannst ekki og var leitinni hætt við svo búið.

Á Þorláksdagskveld um veturinn þegar myrkt var orðið kom sauðamaður heim og var sem hann hefði ekkert hent, en þó fár. Ekki vildi hann neinum segja hvar hann hefði dvalið um veturinn þangað til, en fénað bónda kvað hann allan vera vísan og hafast vel við. Var sauðamaður heima um jólin, en á þriðjadagskveld hvarf hann og vissi enginn hvert hann fór. Leið veturinn og vorið til fardaga að ekki kom sauðamaður og spurðist ekki til hans. Þá var það einn dag að hann rak heim að túni allt fé bónda, sauði, gemlinga og ær, allar með lömbum. Hafði fénaður bónda aldrei fyrr verið eins vel fram genginn. Um sumarið var sauðamaður heima og gekk að vinnu eins og venja var til. Þegar á haustið leið tók hann við öllum fénaði bónda sem á vetur skyldi setja og fór þá sem hið fyrra haust áður langt um leið að hann hvarf og allir sauðirnir, en engin var leit gjör. Kom hann á Þorláksdagskveld eins og hinn fyrra vetur og var um kyrrt jólin, en ekkert vildi hann segja af högum sínum. Hugði nú bóndi að vakta ferðir hans og var honum mjög fylgjusamur; gekk svo þangað til á fjórða í jólum er myrkt var orðið að sauðamaður hvarf, og vissi bóndi ekki heldur en fyrr hvað af honum varð. Leið nú þessi vetur og fram á vor. Við fardaga kom sauðamaður aftur eins og í fyrra skipti og rak heim allt fé bónda; var það þriflegt vel og lamb undir hverri á. Gekk hann til vinnu um sumarið eins og að undanförnu. Um haustið er á leið fór allt eins og á hinum fyrri haustum, sauðamaður hvarf og allir sauðir bónda. Á Þorláksdag eftir dagsetur kom sauðamaður enn heim og gisti heima um jólin eins og fyrr. Bóndi, sem fyrir hvern mun vildi vita hvar sauðamaður dveldi í fjarveru sinni, fylgdi honum svo fast um jólin að sauðamaður gat eigi leynzt á burtu, og gekk svo um hríð. Annan viðbúnað hafði bóndi líka. Hann átti gæðing sem hann ól á heyi þennan vetur og hafði skaflajárnað.

Það var á þrettándadagskveld að sauðamaður tók á rás frá heimilinu og vissi bóndi í hverja átt hann fór. Þá var bóndi ekki seinn á sér; greip hann beizl sitt og söðul og fór til hesthúss síns. Þegar hann hafði tygjað reiðhest sinn hleypti hann eftir sauðamanni unz hann sá hvar hann fór. Fóru þeir þannig þá nótt alla og daginn eftir og svo næstu nótt að hverki dró sundur né saman. En að morgni annars dags voru þeir komnir undir fjall nokkurt allhátt. Þar nam sauðamaður staðar og beið bónda og bað hann nú hverfa heim aftur og hætta ekki lífi sínu, en bóndi kvað þess engan kost. Sauðamaður segir honum þá að handan við fjall það er þeir voru komnir undir sé dalur einn fagur og víðlendur; séu hlíðar allar grasi vaxnar og festi aldrei snjó lengra niður en til miðs, en í dalnum niðri séu vellir sléttir og þar allmikil byggð; í þessum dal gangi sauðir hans gjaflausir allan vetur, en líf hans liggi við ef hann verði sén af dalbúum. Lét hann það og eftir bónda að hann fylgdi sér upp á fjallseggina og leiddi augum dalinn fagra; kvað hann stein einn standa efst á fjallsriðinu, en það var mjótt, og gæti hann dulizt þar undir og séð þaðan um allan dalinn, en hestinn skyldi hann láta eftir þar við fjallið.

Þegar þeir komu á fjallið sáu þeir fjölda fénaðar hvívetna um dalinn, og á völlunum voru margir menn saman komnir og glímdu. Bóndi hvarf undir stein þann sem hinn vísaði honum til og sást um þaðan, en sauðamaður fór leiðar sinnar niður í dalinn og er hann kom til félaga sinna tók hann til glímunnar með þeim. Var bónda þetta mesta unun á að horfa og gætti sín ekki og gekk aftur og fram þarna á fjallinu um hríð og horfði á. Þegar minnst varði hljóp einn þeirra er í glímunni voru rakleiðis á stað og stefndi þangað til fjalls þar sem bóndi var, og jafnsnemma tók bóndi á rás niður af fjallinu til hests síns. Reið hann þá allt sem hann mátti heimleiðis og vissi þegar að sér var eftirför gjörð. Gekk þetta alla leið til Grímsstaða og dró alltaf saman. Undir bæ á Grímsstöðum er gil nokkurt og er íbratt upp að fara og heim. En er bóndi reið upp á gilsbarminn var það jafnsnemma að sá sem eftirförina gjörði kom á barminn handan á baki til; greip hann þá upp snjó og hnauð og kastaði eftir bónda. Kom kekkurinn milli herða honum og varð hann laus við hest sinn. Útilegumaðurinn mælti: „Hafðu þetta fyrir forvitnina,“ og hvarf til baka, en bóndi náði bæ sínum, lagðist í rekkju, sagði frá hvað hann henti og dó eftir þrjár nætur.

Á næsta vori kom vinnumaðurinn með allt fé aftur og afhenti það ekkju bóndans, en hvarf síðan og spurðist aldrei til hans framar.