Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Seytján útilegumenn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Seytján útilegumenn

Maður nokkur bjó með ráðskonu á bæ einum fyrir austan. Ráðskonan hafði ástarhug til hans, en hann vildi ekki eiga hana. Einhverju sinni fór bóndinn eitthvað burtu og var þá enginn heima nema ráðskonan. En sama dag og bóndinn fór burtu sá hún sautján menn ríða að bænum og sá hún af öllu útliti þeirra að þeir voru útilegumenn. Hún býr þá svo um allar dyr á bænum að hvergi varð komizt inn. Dettur henni þá í hug að þeir muni geta smogið inn um eldhússræsið; tekur hún þá skógaröxi bóndans og fer til eldaskála; sér hún þá að einn er því nær kominn inn í ræsið og ætlar að skríða inn. Hún höggur af honum höfuðið og dregur inn búkinn og þannig fór hún með sextán ræningjana. En er hinn sautjándi kom inn í ræsið gat hún ekki unnið honum annað tjón en skeint hann í höfuðið. Síðan gengur hún inn í baðstofu og leggur öxina blóðuga í rúm bóndans, en felur sig undir rúminu. Um kvöldið kom fólkið heim og sá vegsummerki þau er þar höfðu orðið, en ráðskonuna sá það hvergi; var hennar leitað um allan bæinn og fannst að lokum undir bóndarúminu í öngviti; var þá dreypt á hana svo hún lifnaði við. Spurði hún þá bónda hvert hann væri sér eins frásnúinn og hann hefði verið. Hann kvað það vera, en sagðist mundi sjá henni fyrir góðum ráðahag og gjöra hana svo úr garði sem faðir gjörir barn sitt. Hún lét það svo vera og að nokkrum tíma liðnum kom þangað gjörvulegur maður og beiddi hennar. Húsbóndi hennar ráðlagði henni að gefast honum því að ekki þyrfti hún að hugsa upp á sig. Hún sagði bónda að hann skyldi ábyrgjast, og festi sig komumanni. Og á ákveðnum tíma kom biðillinn og hélt bóndinn veizlu þeirra á heimili sínu. En um kvöldið er hjónin fóru í eina sæng lét bóndi þau sofa í sinni rekkju upp á lofti, en sjálfur svaf hann í herbergi undir loftinu. Kona komumanns gjörði sér stiga úr hampi svo hún gæti gengið ofan ef hún vildi. En er leið að miðnætti fór maður hennar á kreik og gekk að ofni er var þar í loftinu, og fór að hita sautján járnnagla. Hún fer þá út úr rúminu, gengur ofan stiga þann er hún hafði gjört sér og að glugga bóndans og segir hann muni efna heit sitt og ábyrgjast; fer hún síðan aftur upp stigann og leggst í rúmið. Að lítilli stundu liðinni kemur bóndi hennar með naglana glóandi, og í því hann fletti af henni rekkjuklæðum er skálanum hrundið upp og er bóndi þar kominn og spyr komumann hvar til naglar þessir skulu honum. Hann segir að sextán af nöglum þessum hafi hann ætlað að reka í brjóst konunnar og hinn sautjánda er stærstur sé, í hjartastað til hefndar fyrir bræður sína. Bóndi kallar þá á menn sína og lét pynta illvirkjann á sama hátt og hann hafði viljað pína konuna. Síðan gekk hann að eiga ráðskonu sína og tókust með þeim ástir góðar. Lýkur þar sögunni.