Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sigríður Eyjafjarðarsól (2)

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigríður Eyjafjarðarsól

Á Grund í Eyjafirði bjó einu sinni sýslumaður. Hann átti tvö börn, pilt og stúlku; hún hét Sigríður, en hans nafns er ekki getið. Sýslumaður var vanur að fara suður í kaupstaði á hvörju vori og hafði son sinn með sér. Einhvörn vetrinn segir Sigríður við móður sína að sig langi mikið til að fara suður í sumar með föður sínum og bróður og biður hana leggja til með sér. Nú líður til vorsins og þar til sá tími kemur að þeir ætla suður og þá hefur Sigríður upp bæn sína og var það mjög á móti vilja föður hennar að hún færi. En bæði fyrir það hvað hún bar sig hörmulega og fyrir tillögur móður hennar og bróðir lét faðir hennar eftir henni að hún færi og riðu þau þrjú á stað og fleiri ekki að þess sé getið. Þau áttu leið yfir miklar eyður og ósléttur bæði hóla og dali. Það vildi so til einu sinni að bilaði í ístaði sýslumanns so hann og sonur hans urðu að bíða við og fara af baki, en sögðu Sigríði að ríða á eftir lausu hestunum á meðan og sögðust þeir aftur ná henni áður langt um liði. Þetta var um hádegisbil. Sigríður fylgir hestunum langan tíma og koma þeir ekki og er komið hér um bil nón. Þá verður henni litið við og sér hún þá hvar tólf menn koma ríðandi á eftir henni og lízt henni illa á þá, en bezt þó á einn og hafði hann verið minnstur vexti. Þeir ráku allt áfram í flýtir og Sigríðar hest með. Hún spyr þá að hvört þeir hafi ekki orðið varir við föður sinn og bróður því þeir hafi átt að vera á eftir sér. Þeir sögðu að hana mundi lítið varða um það. Hún fór þá að gráta, en þeir sögðu henni að henni dygði það ekki því hún yrði með þeim að vera. En þessi maður sem henni leizt bezt á heyrði hún að þeir nefndu Jón. Þeir ráku nú áfram til þess dimma tók; þá var komið ofan í einn dal og var þar stór bær með mikilli byggingu. Spretta þeir þar af hestunum og bera inn af hestinum og láta Sigríði fara inn líka sem er alltaf grátandi. Þar voru inni þrjú rúm fyrir hvorri hlið og eitt fyrir gaflhlaðinu og sváfu þeir tveir í hvörju rúmi, en þeir segja henni að hátta í gaflaðsrúminu. Hún háttaði þar, breiddi upp yfir höfuð, en gat ekki farið að sofa fyrir gráti og ekka. Þegar nokkur tími er liðinn er lyft upp brekaninu ofan af henni. Er þá Jón kominn og spyr hana hvört hún ekki geti sofið; hún segir hann varði ekki um það. Hann segir: „Hvað sem um það er, þá taktu við þessu bréfi og láttu það liggja ofan á brjóstinu á þér þangað til seinna að ég get talað við þig og vittu um hvört þú ekki getur sofið.“ Hann fer so burt frá henni og leggur [hún] bréfið ofan á brjóstið á sér og sofnar hún strax. Nú líður tíðin að hún er þarna hjá þeim og þjónar þeim og þvær föt þeirra og líða sex ár. Þeir voru góðir við hana og kann hún heldur betur við sig.

Nú kemur að því að þeir ætla að fara kaupstaðarferð því þeir fóru í kaupstað þriðja hvört ár. Þeir hugsuðu samt til að tveir skyldu vera heima að gæta Sigríðar; en nokkru áður en fara átti á stað lagðist Jón veikur so hann gat ekki ferðazt. Þeir álitu hann mestan manninn af þeim og þótti ekki gott að hann varð að vera eftir heima og þó skilja annan eftir að passa hana Siggu – því þeir nefndu hana alltaf so. Jón segir það muni vera hægt fyrir einn að passa hana Siggu því hún muni ekki hafa so mikinn hug á að strjúka – „og ef ég get nokkuð verið á skriði treysti ég mér til að passa hana“. Þeir taka þessu vel og segja hann sé í öllu eins duglegur. Lind var fyrir vestan bæinn sem hún átti að þvo úr, en staur fyrir austan bæinn sem þeir sögðu henni að þurrka fötin á meðan þeir væru burtu. So fara þeir á stað; en þegar þeir eru á stað komnir fer Jóni að batna so hann getur gengið um. Um daginn þegar þeir voru farnir fer hún að þvo föt þeirra. Kemur þá Jón til hennar og vill fara að tala eitthvað við hana, en hún tekur því þurlega. Hann segist skuli segja henni ævisögu sína: „Ég er ættaður frá Grund, frá sama bæ og þú ert frá. Faðir minn bjó þar og var sýslumaður. En þegar ég var tíu ára fór ég á stað suður með föður mínum, en hjá þeim sama hól og þeir yfirféllu föður þinn og bróðir og drápu þá báða og dysjuðu drápu þeir líka föður minn og er ég nú átján vetra.“ Hann spyr hana hvört hún muni ekki vilja eiga þann mann sem gæti frelsað hana héðan, en hún sagðist það vilja. „Þeir eru vanir að vera í burtu í ferðinni í þrjá daga og líkast til þeir brúki galdra til að þurfa ekki að vera lengur. Nú munu þeir koma heim annað kvöld og skaltu hafa tilbúin föt þeirra og skaltu snúa um annari buxnaskálminni og annari skyrtuerminni á öllum nærfötum þeirra. Þú hefur þau á staurnum austan undir bænum þau sem heima eru þegar þeir koma. Eins skaltu gera mínum fötum. En í vindauga vestan í bænum er kýrhaus með gandreiðarbeizli. Þú skalt setjast upp á hann þegar þeir eru komnir til náða og skulum við standa sitt við hvorn bæjarkamp þegar þeir koma.“ Sigríður gerir eins og Jón hafði sagt þegar þeir voru komnir. Þeir segja við Jón: „Tarna hefur þú getað passað hana Siggu.“ „Ég held það sé hægt að passa hana,“ segir Jón. Um kvöldið hátta þeir og tekur Sigríður nærföt þeirra. Og þegar þeir eru háttaðir sjá þeir einhvörjir út um glugga sem var vestan á móti að Sigríður gekk fyrir hann og segir einn þeirra: „Ekki átti Sigríður að fara vestur fyrir. Það skyldi ekki búa í henni að strjúka?“ Þá gegnir Jón og segir það sé líkast til. Nú ætla allir að fara í nærfötin og voru þau þá að hálfu leyti ranghverf og tefur það fyrir þeim að komast á fætur og segja hvör öðrum frá og Jón segir að eins sé hjá sér. Þeir klæða sig samt og þegar þeir koma út er Sigríður komin á stað og út fyrir tún og sýnist þeim hún alltaf hlaupa hart. Þeir taka til fótanna að elta hana, en geta ekki náð henni, en Jón er samt fremstur þangað til hún var komin norður undir byggð. Yfirgefa þeir að elta hana lengur og snúa aftur heim til sín og segja sín á milli: „Fari hún í rass! Hún gerði allt illa sem hún gerði hvört sem var – við höfum lengst af verið kvenmannslausir.“ Nú er Sigríður komin heim að Grund og fannst henni það ekki langur vegur. Þetta var um sumar og var opinn bærinn um nóttina. Hún gekk inn og í kamesið sem foreldrar hennar höfðu í verið. Móðir hennar var þar þá ein og sat uppi að prjóna. Hún þekkti að sönnu dóttur sína, en trúði því þó ekki að hún gæti verið það, en varð þó loksins að trúa því. Sigríður segir henni upp alla sögu og spyr hvörnin þar standi á. Móðir hennar segir henni að þar sé farinn að búa enn nú sýslumaður og segist hún vera hjá honum og líki sér vel. Um morguninn þá fólk kemur á fætur og sýslumaður berast þessar fréttir um bæinn og þykir öllum ótrúlegt, en trúa því þó. Jón hafði gert ráð fyrir við Sigríði að hún skyldi sjá um að fólk væri útbúið að yfirvinna þessa menn sem hann var hjá og skyldi verða komið þangað um nótt og yrði hún sem kunnug að vera með og yrði hún að leggja undir við þá að drepa þá alla nema þann sem hún stæði hjá höfðalaginu, og vissi hún hvar rúmið hans væri. Hún færir nú í tal við sýslumann að ráðlegast muni vera að eyðileggja þessa illvirkja og þurfi til þess ærinn mannfjölda og er því vel tekið og fengnir til þess tuttugu og fjórir menn. En Sigríður fer með þeim og ræður ferðinni á gandreiðinni og gat hún samt gjört að því að hún færi ekki harðara en þeir er með hestana fóru. Hún fer nú inn á undan og biður um að sá sé ekki drepinn sem hún er hjá höfðalaginu. Þeir drepa so alla nema þann sem hún stóð hjá og það var Jón. Þeir leita so um húsin og finna mikið fémætt í dauðum munum. Þeir brenna so bæinn og snúa so þaðan heim norður og er Jón með, en Sigríður ræður ferðinni á gandreiðinni. Jón var yfirheyrður og dæmdur til lífláts fyrir galdur þar hann hefði búið til gandreiðina og er hann þó ekki drepinn, heldur látinn sigla. Hann er nú kominn í fangelsi utanlands. Og nokkrum vikum áður en hann skyldi líflátast beiddi hann um að mega ganga fyrir kóng og var honum leyft það. Jón spyr kónginn hvört sá maður eigi dæmast líflaus sem frelsar annan. Kóngur segir að það sé munur með hvörju móti hann hafi getað það. Jón segir honum nú upp alla sögu og uppáleggur kóngurinn honum að hann skuli ganga þá út í þrjár þrautir og ef hann gæti leyst þær vel af hendi [yrði hann náðaður] . Fyrsta var að reyna sig á sundi við hund; önnur var að reyna sig á tafli við einn ráðgjafa kóngsins; þriðja að smíða sigurverk sem enginn hafði getað smíðað. Hann getur leyst vel af hendi þessar þrautir og er hann so þar á eftir hjá kónginum í tvö ár og mannaðist þar og lærði allra handa listir og íþróttir sem þar urðu kenndar. Og eftir það siglir hann heim til Íslands. Finnur hann fyrst prestinn og eftir nokkur viðmæli mælir Jón til við prest að ef hann gæti vísað sér einhvörstaðar á kvonfang. Prestur segir að hann viti helzt af Sigríði á Grund, en það hafi margir beðið hennar, en hún engum tekið. Jóni þykir það ekki frágangssök og segir að ef hann geti með einhvörju móti náð henni þá muni lagast á milli þeirra og biður prest vígja þau saman og biður prest koma með sér heim að Grund. Þeir ríða báðir heim að Grund, gjöra boð fyrir móðir Sigríðar og tala um þetta málefni við hana og tekur hún því ekki fjærri, en heldur það muni samt ekki duga. Hún býður þeim í stofu og er Sigríður beðin að koma þangað. Þetta er svo nefnt við Sigríði og er ekki nærri því komandi, en Jón nær henni samt og setur hana í kné sér og biður prestinn strax að gefa þau saman og var það henni nauðugt. Prestur les þarna samt yfir þeim hjónavígsluna. Jón biður móðir hennar búa upp rúm handa þeim afsíðis einhvörstaðar. Hún gjörir það í einhvörju kamesi. Þegar þau hátta verður hann að færa hana úr fötunum. Kamesinu er læst og sofa þau af nóttina. Um morguninn kemur inn móðir hennar og segist ekki vita nema hún drepi manninn sinn þegar henni var so nauðugt að eiga hann. Þau sváfu þá bæði eins og hjón. En Jón hafði sagt Sigríði frá öllu eins og til hafði gengið og kannaðist hún þá við hvör hann var, en þekkti hann ekki fyrri. Daginn eftir býður Jón til veizlu að Grund og er nú betur útkljáð giftingin og fara þau so að búa þar nálægt á jörð í sveitinni og bjuggu þar lengi vel og unntust vel. Og lýkur þessari sögu.