Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sigríður frá Dal og systkini hennar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sigríður frá Dal og systkini hennar

Á bæ þeim er Dalur heitir í Norðurlandi bjó bóndi einn; um nafn hans er ekki getið. Hann átti þrjú börn; tvær dætur og einn son. Sonur hans hét Björn, en þær systur hans Sigríður og Rósa; hún var yngri. Þar hjá bónda var oftliga í kaupavinnu maður sá er Gísli hét sunnan af Álftanesi. Þau Gísli og Sigríður felldu hugi saman. Svo kom að hann beiddi hennar. Játaði faðir hennar honum stúlkunni, því maðurinn var honum að góðu kunnur og laglegheitamaður. Brullup þeirra var haldið í Dal. Eftir brullupið fóru þau Gísli og Sigríður suður á vegi þá er þaðan liggja. En er þau komu fram á heiðar hrasaði hesturinn Sigríðar svo hún hraut af baki – hún var seinust í lestinni. Fór hún svo aftur á bak, en er hún var á bak komin var því líkast sem hún væri í þoku; heldur samt áfram. Kemur þá að henni ríðandi maður og heilsar henni með nafni og spyr hvort hún vili ekki hann fylgi henni til lestarinnar; hún játaði því. Þau ríða svo um stund og þar kom að henni fer að lengja eftir hvað seint hún nær lestinni; skrafar samt ekki né hefir orð á því. Þau ríða lengi og var veður svo muggusamt með þoku svo að hún sá ekki hverja leið hann fór. Loksins komu þau að dal einum og reið maðurinn ofan í dalinn; byrjuðu þar götur og lágu heim að einum bænum. Þau voru þegjandi frá því þau fundust og þar til nú. Hann ríður heim og að bæjardyrum; þar stígur hann af baki og tekur Sigríði ofan. Kemur þá stúlka fram úr bænum og gengur að Sigríði og fagnar henni vel, leiðir hana í bæinn og í stofu. Setur hún mat á borð fyri hana, en hún neytir ekki og hvernig sem stúlkan leitar máls við hana anzar hún engu. Þá kemur Þórður – sá sem sótti hana – og talar við hana; en hvernig sem þau leitast við að fá orð af henni þýðir það ekkert. Tjá þau henni að henni sé það ekki nema böl eitt að eta hvorki né tala; það sé komið sem komið sé, hún komist ekki aftur. Þar í húsinu var fagurt rúm; þar segja þau henni hún skuli leggja sig. Gengur svo dagurinn til kvölds að hún anzar þeim ekki og ekki smakkar hún á matnum. Þau fara burt um kvöldið; leggur hún sig þá upp í rúmið og ætlar að sofna; en er fyrst fór að renna í brjóstið á henni gat hún ekki sofnað fyri hristingi á húsinu. Fannst henni sem hún mundi þá og þegar kastast fram úr rúminu. Þetta gekk alla nóttina; en er komið var að birtingu linnti þessu. Sofnaði hún í sjálfa birtinguna.

En strax um morguninn kemur sama stúlka til hennar – hún hét Ástríður – og talar enn við hana og tjáir henni hvílík heimska það sé að brúka þetta þverviði, hún komist ekki aftur hvort sem sé; en hún braut ekki þag[n]arheitið að heldur. Komu þau Ástríður og Þórður bæði samt og hvort í sínu lagi til hennar um daginn, en hann leið þannig í algerðri þögn og nautnarleysi. Um kvöldið ganga þau enn í burtu. Hallar hún sér þá í rúmið og sofnar lítið eitt, en vaknar við það að maður í rauðum kjól liggur í rúminu fyri framan hana. Hún grípur þá hníf sinn úr vasa sínum og ætlar að leggja á honum; stekkur hann þá í burtu. En er hann var farinn sýnist henni gólfið tútna upp og því næst springa í sundur. Fellur þar úr sjór kolblár svo að húsið varð fullt allt á sængurstokkinn. Þar innan um syntu alls kyns skrímsl og ókindur sem ætluðu upp í rúmið til hennar, leggjandi hrammana upp á sængurstokkinn, en hún varði rúmið eftir megni. Þetta gekk allt til dags; smáfjaraði það þá og hvarf loks algjörliga. Sofnaði hún þá í sjálfa birtinguna.

Snemma um morguninn kemur Ástríður til hennar og býður henni góðan dag að vanda; tekur hún því ekki. Tjáir hún henni þá enn með mörgum orðum hvílíkan harmkvælaauka hún baki sér með þvervíðinu; þessari sinni þögn geti hún ekki haldið og nautnarleysið auki henni megnra harmkvæla. Sigríður anzaði þessu lítið eitt. Rætist þá svo úr henni að hún svarar fáu einu; borðar hún nú. Þá kemur Þórður til hennar, sá sem hana sótti, og var hann prestur. Ræðir hann við hana á marga vegu og svarar hún honum nú nokkru, þó öllu heldur stuttliga. Ekki komu fleiri til hennar um daginn. Um kvöld[ið] ganga þau í burtu, en hún leggur sig upp í rúmið. Sofnar hún nú og vaknar við það að maðurinn í rauða kjólnum lá fyri framan hana. Leggur hún þá hendina ofan á hann aftur fyri sig og sofnar aftur. Vaknar hún ekki fyrr en um morguninn að albjart er orðið. Er maðurinn þá í burtu, en fagur gullhringur á hendi hennar. Hún vaknaði ekki fyrr en stúlkan vakti hana. Þá kom og síra Þórður og rauðklæddi maðurinn. Sagði hann henni hefði sofnazt vel í nótt; hún játaði. Það var fríður maður og vörpuligur, nokkuð roskinn að sjá. Upp frá þessu veitti hún öllum viðtal og voru þar margir menn í heimilinu þótt hér sé ekki á nafn nefndir. Þau sögðu henni þar væri byggð í dalnum og sagðist Þórður vera þar prestur, en hitt væri bróðir sinn og sýslumaður þeirra; væri hann nokkuð eldri en hann og nýorðinn ekkjumaður; Ástríður væri dóttir hans. Sagðist hann hafa sótt hana handa honum því hann hefði misst konuna í vor. Þar var hún og giftist hún sýslumanni. Þau buggu saman nokkur ár og áttu eitt barn. Aldrei var hún kát eður sýndi nokkra gleði, heldur var ávallt fáskiptin.

Eitt sinn spurði sýslumaður hana hvert henni væri ekki fýsn að sjá hann Gísla, en hún lét lítið yfir því. Hann sagði það væri skrýtið hún skyldi ekki spurja sig að neinu – þetta var eitt kvöld um vetrinn. Sagði hann að Gísli hefði farið að leita hennar, en er hún hafi ekki fundizt sendi hann þá mann til föður hennar og skyldi sá segja honum um hvarfið, en sjálfur fór hann suður á Álftanes. Aftur fór hann í kaupavinnu og eignaðist svo Rósu systur hennar – „eður viltu nú ekki ég sýni þér hver þinn hlutur mundi orðið hafa hefðir þú eignazt Gísla?“ Hún lét það svo vera. Sýndi hann henni þá í spegil. Sá hún þá hvar Gísli var að hrekja hana og berja. Lagði Sigríður þá höndur um háls manni sínum og beiddi hann grátandi að hafa einhver ráð að losa systir sína úr klóm hans. Þessu anzaði hann lítt. Þetta var í fyrsta sinni að hún sýndi honum nokkra blíðu, en hélt því ávallt síðan og var honum einn dag öðrum þægiligri.

Eigi löngu síðar eitt kvöld var barið á dyr og það heldur ómáttliga. Sagði hann henni þá að fara til dyranna og ljúka upp. Hún lét undrun sína í ljósi að hann segði sér að fara til dyra, því það væri ekki vandi hans. Hann sagði hún skyldi samt fara. En er hún lauk upp varð henni heldur en ekki bilt við. Stóð systir hennar þá fyri dyrum úti lítt klædd. En er hún áttaði sig bað hún systur sína vera velkomna, en hún var svo að þrotum komin af kulda og þreytu að hún var mállaus. Leiddi hún hana þá inn til bónda síns full af undrun, lagði enn á ný hendur um háls honum. En er hún hafði leitað systir sinnar þeirrar hressingar er hún kunni og henni bráði spurði hún hana að ferðum hennar. Sagði hún að sér hefði af óvilja á orðið að skilja eftir þvottinn úti hið fyrra kvöld. Hefði hann þá að vana hrakið sig og barið; sagðist svo hafa farið eftir þvottinum og ekki vitað hvað um sig leið fyrr en hún var þarna komin. Liðu nú svo nokkrir tímar að ekki bar til frétta.

Að einu sumri bar það til tíðinda hjá bóndanum föður Sigríðar að smalinn týndi öllum ánum, leitaði þeirra í þrjá daga og gaf sig síðan upp. Þetta kynjaði menn mjög, en Björn undi því svo illa að hann bjóst til að leita að ánum. Það vildi faðir hans ekki; sagðist nógan harm hafa að bera af hvarfi dætra sinna þótt ekki færi hann líka. Mikill orðasveimur var um byggðina af þessum tíðindum. Stungu menn saman nefjum að hér mundi ekki allt að felldu fara. Það var og faðir Bjarnar hræddur um; lét hann hann það á sér merkja, en hann lét ekki letjast; fór hann og leitaði þar sem honum þóttu líkindi á vera. Sló þá yfir þoku mikilli svo hann villtist. Er það fljótt yfir að fara að hann bar að sama brunni sem systur hans. Barði hann þar að dyrum. Fór bróðir Þórðar til dyra og bauð honum gisting. Fylgdi hann honum til baðstofu og upp á loft og vísaði honum í rúm það er var fyri gaflaðinu. Ástríður dóttir bónda færði honum mat og þjónaði honum til rekkju; var hann þar í góðum beinleika. Þar voru mörg rúm hvorumegin og margt fólk; var það einka þægiligt við hann. Í hinum enda baðstofunnar var hús þiljað frá og hurð fyri. Þar var hann svo í þrjár nætur að hann sá það aldrei opið. En hið fjórða kvöld sá hann það snöggsinnis opið. Sá hann þá kvenmann bregða fyri dyrnar og sýndist honum svipuð Sigríði systur sinni. Leið svo nóttin. Um morguninn færir hún honum ný föt að rúmi hans. Verður þar meiri fagnaðarfundur en frá verður sagt. Spjalla þau þar saman um daginn og segir hún honum allt hvernig um sig hafi farið og hve vel sér líði. Einnig segir hún honum af systir sinni. Fagnaði hann yfir því, því hann hafði allt frétt af raunabasli hennar. Margs spurði hún hann úr sveitinni og varð þeim heldur en ekki hjaldrjúgt.

Rauðkjólingur kemur að máli við Björn og segist hafa sótt fé þeirra feðga til þess hann gæti náð fundi hans. Þóttist hann víst vita að hann mundi leita eftir fénu. Sagðist hann ekki með öðru móti hafa getað sagt honum hvað systrum hans leið. Bað hann nú Björn að gifta síra Þórði Rósu systur sína, en Björn sagði það yrði ekki með öðru móti en að hann gifti sér Ástríði dóttur sína. Gengu nú þessi mál saman. Gerðu þeir svo ráð fyri að Björn skyldi koma um vorið og halda saman brúðkaupin. Bað hann nú Björn að hraða sér, því faðir hans væri nú lagztur í harmi.

Lét hann nú pilta sína fylgja Birni heimleiðis með féð og gekk þeim allt hið greiðasta. Varð faðir hans honum næsta feginn. Sagði hann föður sínum alla sögu af þeim systrum. Lét hann sér fátt um finnast, en talaði þó fátt. Um vorið fór Björn aftur til þeirra mága sinna. Voru brúðkaupin haldin með sóma miklum og öllum vanaligum tilföngum eins og í sveitum tíðkaðist. Að liðinni veizlunni fór Björn aftur til föður síns. Stöku sinnum fundust þeir mágar. Björn bjó í Dal eftir föður sinn og varð nýtur bóndi.

Ath. – Þann sem mér sagði sögu þessa minnti að Dalur, bær Bjarnar, hefði verið nefndur Kattardalur.