Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sjö útilegumenn og vinnukona

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Sjö útilegumenn og vinnukona

Það var einu sinni ríkur bóndi og hélt margt vinnufólk meðal hvurs var ein vinnukona sem var mjög dugleg. Sá ágalli var þar að enginn mátti vera heima á jólanóttina, það var allt drepið. Eina jólanótt sem oftar verður einhvur að vera so þessi vinnukona býðst til þess. Þau hjónin verða fegin, en vilja samt sízt missa hana; so fer allt fólkið. Það er so varið bænum að það er innangengt úr bænum í skemmuna. Hún læsir so rammbyggilega bænum. So fer hún upp á skemmuloft með ljós og hefur stóra öxi í hendinni. So heyrir hún undirgang og heyrir menn vera að tala úti og eru að tala um að bezt muni vera að rífa gat á þekjuna til þess að geta komizt inn. Veit hún þá ekki fyr til en rifið er gat á þekjuna og kemur þar inn mannshöfuð; hún heggur það af og dregur so búkinn inn. Hún lætur þetta ganga í sex reisur og þá kemur sá sjöundi inn. Er hún þá so óð orðin að hún rífur í hárið á hönum, en hann kippir í og út þegar og veit hún ekki hvort fleiri eru úti; situr þar so þangað til bjart er orðið, fer so út þegar bjart er orðið, og kemur þá kirkjufólkið. Hjónin heilsa henni og spurja hvort ekkert hafi fyrir hana borið. Hún segir að lítið hafi það nú verið, en biður hann koma með sér út í skemmu. Hann gerir það og sýnir hún hönum þá alla búkana. Þá segir bóndi að sig hafi grunað það alténd að mikið væri í hana varið. Hún segir að einn hafi sloppið hjá sér, en ekki hafi hún vitað hvort fleiri hafi verið og lét bóndinn hana aldrei fara eina.

Líða so fram stundir. Einu sinni kemur þar ókenndur maður og biður að lofa sér að vera. Hann fær það; er hann so leiddur í baðstofu. Þegar hann er búinn að heilsa segir hann við bónda að mikið eigi hann af vinnukonunum og ætli hann að biðja hann að láta sig fá eina af þeim. Lítur hann framan í allar og segist helzt [vilja] fá þessa duglegu vinnukonu. Bóndi segir það verði so að vera þó sér þyki mest fyrir að láta hana. Bóndi segir við vinnukonu sína so þessi maður heyrði ekki, að hann ætlaði að gefa henni hann Grána sinn og ef hún sæi að hann viki út af götunni skyldi hún snúa hönum við og keyra hann eitt högg. Þau fóru so á stað. Þegar þau voru búin að ríða nokkra [stund] þá víkur hann út af götunni, en þá snýr hún hestinum við og slær hann, en hann tekur til ferða og heim að bænum sem hún var á og maðurinn á eftir heim undir túngarð, en hann snýr þá aftur. Þegar hún kemur í hlaðið tekur bóndi henni mjög vel.

Líða so nokkur ár þangað til margir ferðamenn koma og biðja að lofa sér að vera. Þeir fá það, en um morguninn þegar komið er á fætur eru allir gestirnir hvorfnir, en hnífur stendur í gegnum vinnukonuna. Bóndi tekur hnífinn og þykir hann undarlega búinn til og lætur hann undir bita í húsinu hjá sér. Hann biður vinnumennina sína að passa að vera fyrir utan húsdyrnar hvur sem komi í húsið. Allir sem koma þangað skoða hnífinn og þykja hann skrýtilega smíðaður, meðal hvurra einu sinni að koma þar menn og fara að skoða hnífinn, en sá seinasti sem æ er að skoða hann, ætlar hann að reka bónda í gegn með hönum, en hann orgar upp og kallar á vinnumennina. Koma þeir þá og taka hann, en hinir stökka út og forða sér. Er þessi þá krafinn til sagna. Hann segir að hann sé útilegumaður úr fjöllum og þeir sem með sér hefði verið. Þeir hefðu komið margar jólanætur fyr, drepið þar og rænt. Er hann so drepinn og ber þá aldrei á að nokkur komi þar jólanótt framar. Bóndanum líður vel til ellidaga.

Endar so þessi saga.