Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Skálabúar og biskupsfrúin

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Skálabúar og biskupsfrúin

Það var einu sinni biskup á Hólum. Hann var ungur og ógiftur, mesti gáfumaður og vinsæll. Skammt frá staðnum var bær einn og þar bjuggu hjón; þau áttu eina dóttir. Hún var mikið fríð og vel að sér um allar kvenlistir. Margir báðu hennar, en hún vildi öngvan þeirra.

Nú liðu stundir fram þar til eitt haust mjög seint að eitt kvöld að barið var að dyrum á bæ bónda. Vinnukona kom til dyra. Sá hún að það var kominn úti maður og þekkti hún hann ekki. Komumaður heilsar henni og biður hana að skila inn að hann biðji að lofa sér að vera. Stúlkan skilar þessu og er henni sagt að hann fái það og svo fylgja honum inn. Nú fer stúlkan til komumanns og leiðir hann inn í baðstofu. Komumaður heilsar og svo er hann settur á rúm. Nú spyr bóndi hann að heiti og hvaðan hann sé, en komumaður er sagnafár yfir því. Bónda þykir það undarlegt og virðir hann fyrir sér og lízt illa á hann. Komumaður var mjög orðfár og þó bóndi spyrði hann frétta sagði hann bónda lítið; en það sáu menn að hann leit hýrlega til bóndadóttir. Hún sá það og vildi ekki sofa ein um nóttina og lét vinnukonuna vera hjá sér. Um morguninn kallar komumaður bónda á eintal og biður hann um dóttir hans, en bóndi tekur því fjærri og segist ekki gefa þeim manni dóttir sína sem ekki vilji segja til nafns síns eða hvaðan hann sé. Svo lætur bóndi kalla á dóttir sína og segir henni frá, en hún aftekur að eiga hann. Þegar komumaður heyrir það og veit að hann fær ekki bóndadóttir reiðist hann og segir við bónda: „Hér skal ég koma svo aftur í annað sinn að við skulum ekki skilja eins og nú“ – og með það fer hann af stað. Nú gjörði bóndi og dóttir hans mikið gys að þessu.

Nú ber svo til að litlu eftir þetta biður biskup bóndadóttir og fær hana. Heldur hann mikið brúðkaup og þótti öllum bóndadóttir hafa upp hafizt mjög og einna helzt foreldrum hennar. Mikið unni biskup konu sinni og hún honum ekki minna. Eina nótt ber svo við að biskup lætur illa í svefni. Þegar hann vaknar spyr kona hans að hvað hann hafi dreymt. Biskup segir: „Mig dreymdi það að ég þóttist úti staddur og sá ég að tólf vargar komu og stefndu heim að bæ foreldra þinna og voru þeir allir mjög grimmlegir, en verstur sá sem á undan fór.“ Þá segir hún: „Þetta eru fylgjur illra manna.“ Og nú segir hún biskupi frá manninum sem bað hennar og hvörju hann hafði heitið föður sínum – „og nú ætli ég að biðja þig,“ segir frúin við biskup, „að strax í fyrramálið að láta sækja foreldra mína og vinnukonuna og vera hér svo það verði ekki drepið, því valla mun líða langt um þar til þetta rætist“. Biskup lofar þessu; og strax um morguninn lætur biskup sækja það í kotið og flytja heim á staðinn. Biskup hélt marga vinnumenn, en einn af þeim var ungur og skarpur og mesti kraftamaður. Hann fer til biskups og biður hann að lofa sér að vera í kotinu og vita hvors hann verði var. Biskup vill það ekki því hann kannski verði drepinn. „Ekki er ég hræddur um það,“ segir vinnumaður. Nú lét biskup það eftir honum; en áður en vinnumaður fór biður hann biskup að ljá sér sterkan og langan ólarvað. Biskup spyr vinnumann að hvað hann ætli að gjöra með hann. Vinnumaður segir: „Ég ætli að hafa hann hjá mér ef mér liggur á.“ Nú gjörir biskup það að hann fær vinnumanni ólarvaðinn og svo hleypur hann að kotinu og fer þar inn og ber svo mikið grjót á bæjarhurðina að innanverðu að ómögulegt var að komast inn. En sjálfur fer hann upp í hjónarúmið og liggur þar sem eftir var dags.

En um kvöldið eftir dagsetur heyrir hann að það er riðið að bænum og stigið af baki og á að fara inn í bæinn, en það gátu þeir ekki fyrir grjótinu sem var á hurðinni. Þá fara þeir að baðstofustafninum og rífa hann í sundur í mesta jötunmóð þar til að þeir eru búnir að setja gat á hann. Þá heyrir vinnumaður að þeir eru ekki nema tveir. Þá rekur annar þeirra spjót inn um gatið á stafninum og segir við þann sem hjá honum var: „Ég held að hér sé enginn inni; það mun vera komið heim á staðinn.“ Þá segir hann við lagsmann sinn: „Farðu nú heim og sæktu biskupsfrúna og vertu nú vel fljótur. Bær mun vera opinn, en enginn á flakki, en biskupsfrúin mun verða í búri með ljós að skammta og enginn hjá henni. Þú skalt fara hljóðlega inn göngin og inn í búrið og grípa hana í fang þér og haltu hendinni fyrir munn henni svo hún geti ekki hljóðað og færðu mér hana, en ég ætli á meðan að fara hér inn um gatið og í baðstofu og leggja mig út af og sofna og þegar þú kemur kallaðu til mín.“ Þegar vinnumaður heyrir þetta fer hann ofan úr rúminu og undir það og lætur ekkert á sér bera. Nú fer komumaður inn um gatið og leggur sig upp í rúm og sofnar fljótt. En þegar vinnumaður veit það þá fer hann undan rúminu og hleypur á hann. Komumaður vaknar og tekur á móti og urðu hans áþrif mikil og hörð á móti vinnumanni. En fyrir það að hann var undir, en vinnumaður vel sterkur, þá mátti hann betur og batt hann komumann með ólarvaðnum.

Nú er að yfirgefa þá og minnast á þann sem heim fór. Nú heldur hann heim að staðnum og þegar hann er kominn heim á hlaðið sér hann að bær er opinn. Svo hleypur sendimaður inn göng og inn í búr. Sér hann þá að biskupsfrúin er að skammta. Hann grípur hana í fang sér og hleypur með hana, en þegar hann er kominn fram í mið göngin kemur vinnumaður á móti honum og segir við hann: „Þú ert lengi, lagsmaður; mér var farið að leiðast eftir þér og fór ég að vitja um þig.“ Nú hugsar sendimaður að þetta sé félagi sinn og segir: „Ég gat ekki verið fljótari.“ Þá segir vinnumaður við hann: „Farðu ekki fram í dyrnar, því biskup er í stofu; hann kann að verða var við þig. Hér á bænum eru aðrar dyr; ég skal fylgja þér þangað.“ Og nú tekur vinnumaður í hönd á sendimanni og leiðir hann inn í baðstofu. Þá segir vinnumaður að menn skulu taka þrælinn. Hlupu þá vinnumenn á fætur og tóku hann höndum og bundu hann, en frúin slapp og fann biskup og sagði honum frá öllu. Kom þá biskup og þakkar vinnumanni fyrir. Svo fer hann að tala við bandingjann og segir við hann: „Nú skaltu kjósa um tvo kosti: annaðhvört að láta drepa þig strax eða þiggja líf og segja mér rétt og satt hvörnin á þér stendur og hvör þig sendi eftir konu minni.“ Bandinginn segir: „Ég mun heldur þiggja lífið og segja eins og er“ – og hefur hann upp sögu sína á þessa leið: „Fyrir skála einum langt frá mannabyggðum ræður húsbóndi minn og erum tólf saman og lifum ekki á öðru en því sem við stelum og rænum, og hefur það gengið í mörg ár. Nú vorum við sendir tveir á stað af húsbónda okkar að sækja biskupsfrúna og ætlaði hann sér að eiga hana. Og þegar við fórum í burtu þá fóru hinir tíu í kaupstað að taka út í veizluna og sammæltustum við að vera allir komnir heim á sama dag. Og svo eru þeir sterkir og hraustir skálabúar þessir að ekki veitir af þremur á móti einum þeirra og líka áttum við að drepa bóndann í kotinu. Og svo er á enda saga mín.“ Þá segir biskup við bandingjann: „Nú skaltu mega til strax á morgun að fylgja mér og mönnum mínum að skálanum.“ Hann lofar því.

Daginn eftir fer biskup með alla vinnumenn sína og fleiri þar í kring svo þeir urðu alls þrjátíu saman og fór skálabúinn á undan þeim og vísaði þeim leiðina. Á leiðinni segir skálabúinn við biskup: „Nú verðum við að flýta okkur svo við verðum komnir á morgun að skálanum, því það er sá dagur sem við sammæltustum á.“ Nú er ekki getið um ferðir þeirra fyrri en þeir að kvöldi daginn eftir koma að skálanum. Þá segir skálabúi: „Nú skulum við fara af baki á bak við skálann og flytja hesta nokkuð í burtu.“ Svo var það gjört. Að því búnu fara þeir heim til skálans og inn í hann; þar bíða þeir þar til dimmt er orðið. Þá heyra þeir að skálabúarnir koma og stíga af baki. Þá segir skálabúinn sem inni var: „Nú treysti ég mér ekki að tala við þá sem úti eru.“ Þá segir vinnumaður biskups sem fyr var um getið: „Ég skal vera fyrir svörum og tala við þá.“ Gengur hann þá fram í dyrnar á skálanum. Aðkomumenn sjá hann og hugsa að það sé maður þeirra. Þá segir foringi skálabúanna: „Eru þið komnir?“ Vinnumaður segir já. „Eru þið komnir með hana?“ segir skálabúinn. „Já,“ segir vinnumaður, „en við erum svo lúnir að við nennum ekki að hjálpa ykkur til að taka ofan og flytja hestana.“ Þá segir skálabúinn: „Það kærist ekki; við getum gjört það sjálfir, en hvílið ykkur því nú er ég ánægður að þið komuð ekki svo búnir.“ Skilja þeir svo talið. Gengur vinnumaður svo inn í skálann, en hinir taka ofan klyfjarnar, spretta af hestum og flytja þá. Að því búnu hlaupa þeir heim að skálanum og hlakka til veizlunnar og einna mest foringi þeirra að finna konuefni sitt. En það fór öðruvísi, því þegar þeir komu inn í skálann þá vóru þeir allir handteknir og bundnir af biskupi og mönnum hans, Nú fer biskup að tala við þá og vill að þeir lofi bót og betrun, en það var ekki um kost af neinum þeirra. Lét svo biskup drepa alla skálabúana og kastaði svo eign sinni á allt það sem var í skálanum. Fór svo biskup heim og menn hans. Strax þar á eftir lét biskup sækja allt það sem var í skálanum.

Nú er að segja frá þeim sem lá bundinn í kotinu að nú var farið að vitja um hann. Var hann þá lifandi, en illur í skapi svo ekkert varð við hann tjónkað; lét svo biskup drepa hann. En þessi eini sem var hjá biskup, hann lifði og var þægur og trúr alla ævi sína biskupi og fór aldrei frá honum á meðan hann lifði. En vinnumanni sínum útvegaði biskup væna giftingu og gaf honum væna jörð. Svo fór hann að búa og varð vænn bóndi og mesti vinur biskups á meðan þeir lifðu. Og er svo á enda saga þessi.