Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Smalamaðurinn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Smalamaðurinn

Í fyrndinni bjó ábóti á Þykkvabæjarklaustri í Álftaveri; hann var ríkur af gangandi fénaði, einkum sauðfé; hann hélt smalamann er Árni hét. Árni var hinn frískasti maður, hugaður vel og lét sér ekki allt í augum vaxa; hann var þar að auki hinn mesti smiður.

Eitthvört sinn bar svo til að allt kvífé ábótans hvarf svo smalamaður fann það hvörgi; hafði hann þá leitað hvar sem honum kom til hugar. Þetta var snemma sumars og var nótt farin lítið að dimma. Ábóta þótti mikið fjárhvarfið, en ásakaði þó lítið smalamanninn. Smalamaður tók þá til [að] smíða sér stöng fimm álna langa; síðan fór hann í smiðju og smíðaði brodd mikinn; það var fjaðrabroddur (eða tvíeggjaður broddur) mjög beittur og svo langur að hann tók hálfa alin niður úr stönginni. Í efri endann setti hann einnin tvíeggjaðan flein, jafnlangan broddinum og mjög biturlegan. Síðan skrúfaði hann hólk með knappi á efri enda ofan fyrir fleininn svo ekki var annað að sjá en heilt væri. Ábótinn spurði hvað þetta skyldi. Árni kvaðst ætla að gjöra tilraun að leita fjárins, en sagði sig svo dreymt hafa að betra væri að vera ekki staflaus.

Á næstu nótt hvarf smalamaður að heiman og stefndi til fjalla. Á leið hans var sandur mikill og á sandinum hitti hann fjárbraut mikla og spor tveggja manna og þótti honum þau í stærra lagi. Braut þessi lá til útnorðurs. Þetta þótti honum undarlegt, en rakti þó brautina allt upp undir Mýrdals- eða Kötlujökulinn. Það þóttist hann vita að féð hefði verið rekið á jökulinn; tók hann því það ráð að ganga upp á jökul, en þar gat hann ekki haldið brautinni; því gekk hann áfram þar til jökullinn hækkaði; sá hann þá til fjalla þeirra er Huldufjöll heita; þau eru sunnan- og austanvert í Mýrdalsjökli. Þangað stefnir hann; og þegar hann kemur að fjöllum þessum sér hann að þetta er dalur nokkuð stór, fjallsbrýrnar lítið eitt hærri en jökullinn, en dalur djúpur á milli og skógi vaxnar hlíðar upp frá allt í kring, en einstigi eitt – og þó þröngt – var upp úr dal þessum. Hann gengur að einstiginu og litast þar um; sér hann þá bæ niðri á sléttunni og eitthvað af gripum, en upp við einstigið sér hann allt fé sitt í einum hóp, en þar hjá sofa tveir menn sinn hvörjumegin við uppganginn. Hann lætur sér ekki bilt verða, heldur skrúfar hann hólkinn ofan af stöng sinni, gengur síðan ofan einstigið, rekur upp fé sitt; gekk það fljótt því féð vildi halda í áttina hvaðan það var nýkomið. En þegar hann var kominn skammt austur á jökulinn sér hann hvar tveir menn koma hlaupandi á eftir honum. Þeir hafa axir í höndum og láta ófriðlega, ætla strax að ráðast á Árna, en hann varð milli þeirra og hefur ekki annað tilræði en það að hann rekur fleininn í gegnum annan, en broddinn í gegnum hinn. Síðan rekur hann féð af jöklinum og gengur það vel því það vill fara til átthaga sinna, og varð hann ekki var við aðra eftirför. En Árni kom heim lukkulega með féð, sagði frá ferð sinni og þótti mönnum mikils um vert. Ábótinn launaði Árna vel þessa ferð og þótti hann jafnan síðan hinn mesti hreystimaður.

Nú ætla menn að þessi dalur sé nær því fullur af sandi, vatni og jökli og ekki líkur því sem áður kann að hafa verið.