Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Smalastúlkan á Ábæ

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Smalastúlkan á Ábæ

Á Ábæ eður Árbæ í Skagafjarðardölum bjuggu eitt sinn hjón er vóru barnlaus; höfðu þau tekið til fósturs stúlku eina; þótti þeim vænt um hana. Vóx hún upp og þótti vænt kvenmannsefni. Hún gaf sig til að smala á sumrum; leysti hún það vel af hendi.

Eitt sumar gengu þokur miklar og vantaði margt af fé eitt kvöld og sumt hafði vantað nokkra daga. Ekki var annað fólk á bænum en hjónin, vinnumaður og stúlkan. Hún hafði að undanförnu forgefins leitað. Nú býr hún sig á stað með nýja skó og nesti því nú kvaðst hún mundi reyna að finna ærnar ef það væri unnt. Gengur hún síðan af stað og upp á fjöll og fram til jökla; villist hún um síðir í þokunni og veit ekki hvurt hún skal halda, gengur þó áfram þar til hún kemur á eina dalsbrún. Hún gengur ofan í dalinn og birti þá þokan. Gengur hún að á er rann ofan dalinn. Hún gengur ofan með ánni þar til hún sér bæi og var dalur þessi byggður. Hún gengur að þeim bænum er henni virtist reisulegastur, ber að dyrum; kom þar út ungur maður fríður og heilsaði stúlkan honum. Hann tekur því. Hún biður hann skila til húsbændanna að hún beiðist næturgistingar. Hann gengur inn og kemur að lítilli stundu og segir hún fái að vera. Hann fylgir henni í baðstofu og sá hún þar margt fólk. Hún heilsar því og var henni síðan fengið sæti. Hinn ungi maður er til dyranna kom hóf þá tal við meyjuna og sagði henni að í dal þessum væru sex bæir og fimmtíu og tveir menn og væri faðir sinn yfirmaður þeirra, dæmdi í málum þeirra og framfylgdi réttindum meðal þeirra. Nú frétti hann hvurt erindi hún hefði þangað. Hún sagði sem var. Þá mælti hann: „Ei þurfti ég um slíkt að frétta og vissi ég erindi þitt, og er þér að segja að ég hef valdið villu þinni hingað því ég hef löngum séð þig þótt ekki hafir þú mig mátt líta; hefur mér þú jafnan vel geðjazt og hef ég fyrir löngu kosið þig mér til konu. Vildi ég nú vita hvurnig þú svarar slíku máli ef ég leitaði þess við sjálfa þig. En fé þitt er hér og vantar ekkert af því.“ Hún tók þessu þunglega og barði því þó mest við að fósturforeldrar sínir vissu ekkert hvað um sig hefði orðið. Hann mælti: „Sé ég ráð til þess. Mun ég skrifa bréf, festa það milli hornanna á einni ánni og láta mann reka þær til byggða þinna.“ Hann gjörir þetta, en ekki var hún ánægð að heldur, en þorði þó ekki að láta á bera.

Hjón vóru á bænum er numin höfðu verið úr byggð. Undu þau sér illa, vildu strjúka, en gátu ekki. Höfðu þau þó erfiðað upp á leynigöng úr bænum allt upp á fjall; var það hið mesta þrekvirki. Meyjan komst í kunningsskap við þau; kenndu þau í brjósti um hana og vildu gjarnan hjálpa henni, en ekki var gott um það; sögðu ef hún slyppi mundi það kosta allra þeirra líf er í dalnum byggðu og það hefði sér hamlað frá að strjúka. Nú var hún þar hálfan mánuð og var vöktuð svo hún ekki stryki. Hjónin höfðu vísað henni á göngin og tókst henni eina nótt að komast leynilega í þau; gekk hún þá sem hún mátti mest þar til hún komst upp úr göngunum. Síðan gekk hún leiðar sinnar. Ekki vissi hún hvurt halda skyldi, komst þó um síðir ofan í Eyjafjörð að austan við ána, kom þar að bæ einum og dvaldi þar.

Sumarið eftir komu þar tveir kaupamenn rétt fyrir sláttinn og buðu kaupavinnu. Bóndi vildi annan, en ekki annan. En þeir vildu báðir á einum bæ vera. Hann tók því báða aðra hvurja viku. Þóttist stúlkan þekkja unga manninn er við hana talaði, forðaðist því einveru. Þó kom það fyrir einn morgin að gestir margir vóru þar komnir og hlaut hún að mjalta féð ein. Varla var hún byrjuð að mjalta er kaupamennirnir komu báðir á kvíarnar, fóru að tala við stúlkuna. Hún var fálát. Þá mælti yngri maðurinn: „Hvað margar ær hefur þú að mjalta?“ Hún mælti: „Fimmtíu og tvær.“ Hann spur: „Hvurs væri sá maklegur sem banaði þeim öllum?“ Hún kveðst það ógjörla vita. Þá mælti hann: „Hvurs væri sá maklegur sem ollað hefði bana fimmtíu og tveim mönnum?“ „Ei mun ég það segja þurfa,“ sagði hún. Vildi þá sá eldri drepa hana, en hinn varnaði, og gengu þeir síðan burt.

Leið nú svo um hríð að ekki bar til tíðinda þar til bóndi fór í kaupstað og vóru ei eftir heima utan stúlkan og tvær vinnukonur. Þá vóru þar og báðir kaupamennirnir. Vóru þeir að slá, en þær að raka. Þoka var svört. Um kvöldið gengu vinnukonurnar heim til málaverka, en stúlkan var eftir að raka. Héldu þær að ei mundi þeir sjá hana í þokunni. En er þær eru heim komnar koma báðir kaupamennirnir til hennar. Stúlkan tekur á rás, því hún var dauðhrædd, og ofan að ánni og ætlaði í dauðans ósköpum að fleygja sér í hana, en yngri maðurinn náði henni framan í bakkanum og sagði að ekki þyrfti hún að tortýna sjálfri sér því hann ætlaði ekki að gjöra henni mein. Nú tekur hann hana tali og býður henni tvo kosti, að eiga sig, en fyrsta barnið sem hann ætti með henni kvaðst hann mundi deyða, annar var sá að hann dræpi hana þar í stað. Hún kaus heldur þann fyrri. Síðan skilja þeir við hana og fara að slá, en hún að raka. Bar ekki framar til tíðinda um sumarið þar til þeir bjuggust til brottferða. Þá mælti sá yngri: „Eins vil ég biðja þig bóndi, sem er að þú útvegir mér væna bújörð hér í grennd og allt er til bús þarf. En einn mun ég koma; á ég trúlofaða stúlkuna er hjá þér er.“ Hann lofar þessu. Skilja þeir nú og héldu kaupamennirnir sinn veg þaðan.

Bóndi útvegaði um veturinn bújörðina og allt er þar til þurfti; og er voraði kom maðurinn aftur og var nú einn. Giftist hann um vorið; var gjört brullaup mikið og boðið Ábæjarhjónunum; höfðu þau lítið til hennar frétt nema það sem bréfið sagði; varð þar fagnaðarfundur. Eftir þetta afstaðið fluttu þau á jörðina og fóru að búa. Bóndi sagðist ekki hafa mátt koma með hinn kaupamanninn, því hann hefði jafnan viljað fyrirkoma henni, og kom hann honum suðaustur á land. Ekki leið langt þar til hún ól meybarn. Tók bóndi það strax og fór í burtu með og vissi enginn hvað hann gerði af því. Þau áttu fleiri börn er lifðu; vóru þau efnileg.

Liðu nú sex ár. Eitt sinn býst bóndi að heiman og sagðist mundi burtu vera viku. En engum sagði hann hvurt hann ætlaði. Á tilteknum tíma kom hann heim aftur og var þá með stálpaða stúlku, ekki minni en níu vetra börn eru jafnast að vexti. Færði hann það konu sinni og kvað þetta vera dóttur þeirra því hann hefði ætlað sér að reyna hana, en ekki fremja það grimmdarverk að myrða afkvæmi sitt. Varð konan fegin að sjá dóttur sína lifandi svo efnilega. Eftir þetta bjuggu þau í friði og unntust hugástum til ellidaga.