Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Smalastúlkan á Rúgsstöðum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Smalastúlkan á Rúgsstöðum

Einu sinni bjó bóndi á Rúgstöðum í Eyjafirði; honum gekk illa að halda smala, því hann var mjög vandur að því við þá að aldrei vantaði og loksins fór svo fyrir honum að hann fékk öngvan smala. – Nú bar svo til að eitt vor fór til bónda ungur kvenmaður er Sigríður hét; hún var mjög fríð og lagleg og skörp til allrar vinnu. Nú fyrir það að bóndi var nú ráðalaus með smala þá biður hann Sigríði að reka saman. Hún lofar því og tókst henni vel smalamennskan. Nú leið fram á sumarið að ekkert bar til tíðinda.

Einu sinni einn morgun vantaði margt hjá Sigríði. Hún vildi ekki láta bónda vita það, fór ekki heim, heldur fór hún strax að leita; gekk allan daginn til kvölds og fann ekkert. Var þá komin dimm þoka svo hún sá ekkert frá sér. Samt heldur hún áfram leitinni þar til hún villist og veit ekkert hvað hún fer. Nú gengur hún litla stund þar til hún kemur að einum steini stórum; var hún þá orðin svo lúin að hún komst ekki lengra og búin að ganga af sér bæði skó og sokka. Hugsar hún þá með sér að hún skuli þar vera þar til þokuna birti og hún sé búin að hvíla sig; leggur hún sig þá út af undir steininum og sofnar.

Litlu síðar vaknar hún og sér hvar kemur maður ríðandi á ljósum hesti og stefnir að henni í þokunni. Hún verður hrædd, en hugsar þó að bíða hans hvör sem hann sé. Nú kemur maðurinn til hennar, stígur af baki og tekur hana þegjandi og setur hana á bak hjá sér og ríður í burt með hana og heldur áfram alla nóttina og daginn eftir allt til kvölds. Kemur hann þá í einn dal; þar sér Sigríður að stendur einn bær. Þangað ríður dalabúi með stúlku sína, stígur þar af baki, tekur Sigríði í fang sér og ber hana inn í dyrnar og leiðir hana svo með sér í baðstofu og setur hana þar á rúm. Þar sér Sigríður gamlan karl stóran og ljótan, tvo aðra unga karlmenn og tvo kvenmenn, báðar ungar og ekki ljótar og sýndist Sigríði önnur þeirra vera svo lík sveitakvenfólki. Nú gengur dalabúinn frá Sigríði og fram, kemur strax aftur með mat og færir Sigríði, sezt niður hjá henni og talar blíðlega við hana, en hún át lítið af matnum og gegndi honum öngvu. Svo fór hún að sofa.

Þegar hún vaknar aftur um morguninn situr önnur stúlkan hjá henni og fór að tala við hana mikið vinalega. Sigríður tók því vel og töluðu þær lengi saman. Sagði hún Sigríði að það væri sonur karls sem hefði fært hana hingað og hinir tveir þeir ungu menn væru bræður hans. Nú skildu þær talið. Þá kom karlsson og var mjög blíður við Sigríði, en hún gaf sig fátt að honum. Bað hann þá vinnukonuna að vera hjá henni Sigríði til skemmtunar; fylgdust þær þá ævinlega að eftir það. Aldrei undi Sigríður sér og vildi fegin komast í burtu, en hún sá sér ekkert færi á því.

Nú leið nokkur tími þar til eitt kvöld að allir vóru sofnaðir, nema þær Sigríður og vinnukonan sátu báðar úti og voru að bæta skó; var gott og bjart veður. Þá segir Sigríður: „Gaman þætti mér að vita hvar skemmst væri héðan til mannabyggða.“

„Það get ég sagt þér,“ segir vinnukonan; „þarna sér þú þrjár fjallanibbur, og ef þú stefnir á miðnibbuna þá kemur þú þar sem skemmst er til mannabyggða.“ Nú hættu þær tali sínu og fóru að sofa. Kvöldinu eftir fer Sigríður seinust að sofa og þegar hún veit að allir eru sofnaðir og vinnukonan sem vön var að vaka með henni var sofnuð líka tekur Sigríður tvenna skó í hönd sér og hleypur á stað og heldur nú áfram hvað hún getur alla nóttina þangað til um morguninn að hún er komin að einu gili og vóru háir hamrar ofarlega í gilinu með urð undir. Var Sigríður þá nokkuð lúin, setur sig þar niður að hvíla sig. Þá lítur hún til baka og sér á eftir sér mikinn jóreyk. Veit hún þá að þeir munu vera farnir að leita að sér úr kotinu. Hleypur hún þá á fætur og hleypur upp í urðina undir klettunum og felur sig þar. Þegar hún er búin að liggja þar litla stund sér hún hvar dalabúar koma ríðandi og karl á undan, en sonur hans, kunningi Sigríðar, ríður við þá hlið á karli sem snýr að henni og lítur upp undir klettana. Nú halda þeir áfram og eru í burtu nokkuð lengi þar til þeir koma aftur. Er þá karl á undan og sonur hans ríður enn við hlið hans, þá sem snýr að Sigríði, og lítur upp undir klettana. Er þá karl illur í skapi og er að rífast við þá sem með honum voru fyrir það að þeir hafi sleppt Sigríði. En þegar þeir voru horfnir fer Sigríður á fætur og hleypur það sem hún getur þar til hún kemur til mannabyggða. Þar vistar hún sig hjá bónda einum í sveitinni, því hann var vinnukonu þurfi. En það setti Sigríður upp við bónda að taka öngvan kaupamann ókenndan á meðan hún væri hjá honum og lofar bóndi því. Nú sezt Sigríður að hjá bónda og líkar vel við hana í allan máta.

Nú líður tíminn þar til um vorið allt fram að slætti. Um sumarið þá kemur þar ungur maður og býður bónda kaupavinnu, en hann telst undan. En komumaður leitar þess frekara á bónda og um síðir lét bóndi til leiðast. Nú settist komumaður að og fer að slá. Ævinlega var hann fáskiptinn og daufur, en þægilegur í viðtali við alla. Og svo sló hann vel og mikið að bóndi hafði aldrei haldið hans líka til vinnu og fyrir það hafði bóndi hann í mestu vináttu. En það er af Sigríði að segja að þegar hún sá kaupamann þennan þekkti hún hvör hann var, forðaðist hann á allar síður svo hann gat aldrei náð tali af henni allt sumarið, og þótti fólkinu og einna helzt bónda það undarlegt. Nú um haustið eftir heyskaparlok kemur bóndi til kaupamanns og þakkar honum fyrir góða þjónustu og þægð hans alla og fær honum um leið kaupgjald hans í smjöri. Kaupamanni líkaði það vel og þakkar bónda fyrir. Svo býr hann sig í burtu og skilur í vinsemd við bónda og alla á heimilinu nema Sigríður lofaði honum ekki að kveðja sig og þótti vænt um þá hann fór.

Nokkru þar á eftir fer bóndi að nefna við Sigríði að vera kyrra hjá sér, en hún aftekur það í alla staði og segir að hann hafi svikið sig að taka kaupamanninn. Bóndi segir: „Ekki þarftu að bera það fyrir, því hann sýndi þér ekki nema þægilegheit eins og öðrum, en sjálf varstu verri við hann en aðrir á heimili mínu.“ Þá segir Sigríður: „Hvað mikið sem þú hælir honum þá er mér það sama.“ Skildu þau svo tal sitt.

En um vorið fór Sigríður langt í burtu og til annars bónda og bað hann þess sama að taka öngvan kaupamann honum ókenndan. Bóndi lofar því og nú líður tíminn fram að slætti. Þá kemur sami maður til bónda og býður honum kaupavinnu, en bóndi taldist undan. Samt varð það úr á endanum að bóndi lét til leiðast og tók við komumanni. Nú sezt hann að hjá bónda og fer að slá og þótti bónda hann vera drjúgur í slættinum og aldrei séð hans líka að þeirri vinnu. Jafnan var hann daufur og fáskiptinn við aðra og geðjast bónda vel að kaupamanni. En Sigríður þekkti hann strax sem hún sá hann og forðaðist hann sem henni var mögulegt og aldrei gat hann náð tali af henni um sumarið.

Leið svo allt að hausti. Vildi þá kaupamaður fara að búa sig til burtferðar. Bóndi sér það og kemur til hans og býður kaupamanni að vera hjá sér lengur og dvelja fram eftir haustinu. Kaupamaður vill það ekki, en þakkar þó bónda fyrir boðið. Gengur bóndi frá honum og færir kaupamanni smjör fyrir sumarvinnu hans, og þótti honum það vel úti látið. Fór svo kaupamaður burtu og bóndi með honum nokkuð á leið; skildu þeir svo beztu vinir. Snýr bóndi svo heim aftur, en kaupamaður fer leið sína. Þegar hann er kominn í burtu verður Sigríður mjög glöð og óskar hann komi aldrei aftur. Nú kemur að því að bóndi biður Sigríði að vera kyrra hjá sér, en hún neitar því og segir að hann hafi svikið sig um það að taka kaupamanninn. Bóndi heldur að hana hafi ekki sakað það framar en aðra því að hann hafi verið skikkanlegur í allan máta. Nefnir þá ekki bóndi við Sigríði vistarráðin framar og skilja þau í stytti.

Nú líður þar til um vorið; þá fer Sigríður í burtu og það með lengsta móti og vistast hjá bónda einum með sama skilmála og við hina báða að taka öngvan kaupamann ókenndan. Bóndi lofar því og segist aldrei vera vanur að gjöra það. Nú líður fram að slætti og kemur þangað ókenndur maður og býður bónda kaupavinnu, Bóndi vill það ekki og segist ekki vera vanur að taka kaupamenn. Hinn biður því betur og segist ekki skuli verða kaupharður. Bóndi gáir vel að komumanni og lízt ekki illa á hann og sér hann er meinlauslegur og hann angri eitthvað, kennir í brjósti um hann, vill ekki neita komumanni og tekur við honum. Nú sezt hann að hjá bónda og fer að slá. Þykir bónda eins og hinum tveimur að kaupamaður slái mikið og enginn eins. En fyrir Sigríði fór á sömu leið og áður að hún þekkti hann og forðast að koma nálægt honum, en kaupamaður læzt ekki heldur vilja sjá hana og sneiðir sig hjá henni. Þetta fann Sigríður strax og var nú ekki eins vör um sig og áður. Ævinlega sló kaupamaður sér og jafnan daufur og fáorður sem fyr.

Einu sinni um sumarið einn sunnudag fór flest fólk til messu, og var ekki heima nema Sigríður og vinnukona og kaupamaður. Þegar fólk var riðið í burtu til messunnar fóru stúlkur upp á kvíar að mjólka. Að litlri stundu liðinni kom kaupamaður upp á kvíarnar, stóð þar þegjandi litla stund og horfði inn í kvíarnar og sagði við stúlkurnar: „Of falleg er hún ærin sú arna til þess að allar hinar skepnurnar skyldu missa lífið fyrir hana.“ Þá anzar Sigríður heldur byrst: „Þetta er viturlega talað; heldurðu að nokkur sé svo vitlaus að drepa allar skepnurnar fyrir eina á?“ Kaupamaður anzar öngvu nema gengur burt. Nú mjólka þær og reka svo féð. Þegar vinnukonur koma heim svaf kaupamaður.

Nú leið langt fram á sumar. Einu sinni bar svo til eitt kvöld að flest fólk var komið heim af engjum nema Sigríður var eftir og vinnukona hjá henni að raka og kaupamaður nokkuð frá þeim að slá; veður var gott, en dimm þoka. Þegar kominn var mjaltatími þá segir Sigríður við vinnukonuna hvört hún vilji heldur fara heim að mjólka eða sækja kýrnar. Vinnukona segir: „Ég vil heldur mjólka.“ Nú verður það að vinnukonan fer heim, en Sigríður fer eftir kúnum. Þegar hún er komin nokkuð á leið sér hún hvar kaupamaður kemur á eftir henni. Hún verður hrædd og hleypur hvað hún getur, en það dugði ekki, kaupamaður var fljótari og náði henni, greip utan um hana og setti hana niður hjá sér og segir við hana: „Ekki þarftu að vera að flýja mig, því ekki ætli ég að drepa þig; ég gat verið búinn að því hefði ég viljað svo illa gjöra, og hvar sem þú ert þar verð ég, og ver gjörir þú mér til en ég á skilið, því þegar þú flúðir frá mér úr kotinu og við faðir minn vórum að leita að þér sá ég þig undir klettunum bæði til og frá, en sagði þó ekki til þín, því hefði ég gjört það þá hefði faðir minn drepið þig, því þegar hann kom heim var hann svo reiður að hann drap alla á bænum nema mig af því að hann gat það ekki og síðan hef ég verið einn á veturnar.“ Þegar Sigríður heyrði þetta kenndi hún í brjósti um hann og varð hin blíðasta við kaupamann, hét honum öllu góðu. Töluðu þau lengi saman og að því búnu fóru þau til kúnna og ráku þær heim. Eftir þetta féll vel á með kaupamanni og Sigríði.

Nú leið sumarið og fram á haust að kaupamaður fór ekki. Þegar bóndi sér það kemur hann til kaupamanns og segir við hann: „Þú munt vilja fá kaup þitt hjá mér; ég sé þú bíður eftir því.“ Kaupamaður segir: „Ekki bíð ég eftir því; ég sagði þér það í vor að ég mundi ekki setja upp mikið kaup.“ Þá segir bóndi: „Þess vandara er mér við þig þegar þú setur lítið upp fyrir vinnu þína, en hefur þjónað mér af trú og dyggð.“ Svo gengur bóndi í burt. Daginn eftir fer kaupamaður að búa sig til ferðar. Þá kemur bóndi til hans og færir honum kaupið sem var smjör og peningar. Kaupamaður tekur við glaðlega og þakkar bónda fyrir og segir um leið við bónda: „Ég ætli að biðja þig að fylgja mér lítið á leið.“ Bóndi lofar því. Þegar kaupamaður er ferðbúinn kveður hann heimafólkið og svo Sigríði; skildu þau með mestu blíðu; fer svo á stað og bóndi fylgir honum. Þegar þeir eru búnir að ganga tímakorn þá segir kaupamaður við bónda: „Nú skaltu ekki fara lengra.“ Settust þeir þá niður. Þá segir kaupamaður við bónda: „Nú ætli ég að biðja þig bónar.“ „Hvör er hún?“ segir bóndi. Þá segir kaupamaður: „Ef svo kann að fara að Sigríður vinnukona þín verður ólétt þá bið ég þig fyrir hana og vera henni innan handar, því það er af mínum völdum ef svo fer, og ef hún verður búin að fæða barnið áður en ég kem til þín aftur þá bið ég þig að sjá vel um það og þau bæði. Ég skal borga þér það.“ Bóndi lofar góðu um þetta. Svo kveður kaupamaður bónda og skildu þeir með vináttu. Hélt svo kaupamaður leið sína, en bóndi heim.

Nú leið fram á vetur. Þá sér bóndi að Sigríður er með barni. Veit hann þá að það muni vera eftir kaupamann; segir hann konu sinni frá því. Nú líður veturinn. En á sumardagsmorguninn fyrsta kemur bóndi fyrstur út. Þá sér hann að tíu sauðir standa á hlaðinu fyrir framan bæjardyrnar og er blað í horninu á einum þeirra. Hann rekur sauðina inn í hús og skoðar þá, tekur blaðið og les á það. Það er þá á blaðinu að kaupamaður segist senda bónda sauðina og skuli hann eiga þá fyrir alla umsjón á Sigríði. Aldrei hafði bóndi séð eins stóra og feita sauði.

Nokkru eftir þetta fæddi Sigríður barnið og fórst bónda vel við hana í allan máta og eins við barnið. En ekki kom kaupamaður fyrri en um mitt sumar; þá tók bóndi honum vel og þakkaði honum fyrir sauðina. Líka tók Sigríður honum mæta vel og sýndi honum barn þeirra, og gladdist kaupamaður mjög við það og þótti vænt um barnið. Var hann svo kaupamaður hjá bónda um sumarið það sem eftir var. En strax um haustið fór hann í dalinn og sókti það sem hann átti þar, sem var margt af fé, fjórir hestar og nokkuð af búshlutum. Eftir það settist hann að hjá bónda og átti Sigríði. En um vorið fékk hann sér jörð þar í sveitinni og fór að búa. Varð hann ríkur bóndi og vinsæll. Unntust þau hjón vel og áttu mörg börn. – Og lýkur svo sögu þessari.