Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Stúlkan frá Galtalæk

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Stúlkan frá Galtalæk

Einu sinni numu útilegumenn kvenmann frá Galtalæk í Landsveit. Fluttu þeir hana svo einn dag að bundið var fyrir augu henni. Daginn eftir sá hún þó til Heklu og þóttist hún vita á afstöðunni að hún væri flutt inn með Köldukvísl. Að þrem dögum liðnum komu þeir heim til sín. Útilegumenn voru fjórtán saman. Var einn elztur og hafði hann ráð fyrir hinum og var prestur þeirra. Menn þessir voru sumir strokmenn úr sveit, en sumir alveg fjallamenn. Þeir gjörðu stúlkunni kost á því að eiga hvern þeirra sem hún vildi; en hún hafnaði því, og neyddi þá heldur enginn hana, en þeir héldu henni hjá sér til að matreiða fyrir sig og þjóna sér. Höfðu þeir áður stolið tveim stúlkum er báðar voru dauðar. Fjórða hvert ár fóru þeir í kaupstað og þá var hinn gamli maður vanur að fara heiman, en annars ekki. Reið hann gráskjóttum hesti miklum og fljótum; voru þá ætíð tveir eða fjórir heima. Aðra ferð fóru þeir á hausti hverju eftir sláturfé; var þriggja daga leið þangað. Brugðust þar aldrei hagar, en bústað sinn höfðu þeir á öðrum stað svo þeir fyndust síður. Aldrei festi stúlkan yndi hjá þeim og leitaði þó hinn gamli maður allra bragða við að stytta henni stundir. Beiddi hann hana að eira þar meðan hann lifði og kvaðst skyldi leggja það undir að hún yrði flutt til byggða að sér látnum. Stúlkan var nú þarna hjá þeim í tólf ár. Þótti henni hinn gamli maður fara að gjörast langlífur.

Eitt haust var veður gott og fagurt mjög. Fór hinn gamli maður með hinum sér til skemmtunar og reið Grána sínum. Skildu þeir stúlkuna eina eftir, því þeir grunuðu hana ekki um nein svik. Voru þeir fulla viku í ferðinni og komu heim þrekaðir og þreyttir mjög. Meðan þeir voru burtu dró stúlkan að við mikinn og bar hann heim á hlað. En er þeir voru háttaðir og sofnaðir bar hún göngin full af við og fyrir alla glugga kesti mikla, sló síðan eldi í allt saman og gekk þar ekki frá fyrr en kviknað var í og tók að loga. Þá gekk hún að húsi því er Gráni var í, lagði við hann og teymdi hann út og settist á bak, en gat ekki komið honum úr sporunum fyrr en hún tók hatt og yfirhöfn hins gamla manns. Í því hún fór reið hún fram hjá loganum. Brutust þá tveir menn út úr eldinum. Datt annar þegar dauður niður, en hinn komst svo sem tvo eða þrjá faðma út úr loganum og hneig þar niður; var það hinn gamli maður. Kom hann auga á stúlkuna og horfði grátandi eftir henni þar sem hún fór á Grána. Létti hún ekki ferð sinni fyrr en hún kom til átthaga sinna. En illa mæltist fyrir verki hennar. Var hún hvergi vel látin og var gæfulítil til dánardægurs.