Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Strákurinn frá Kröggólfsstöðum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Strákurinn frá Kröggólfsstöðum

Á bæ þeim sem Kröggulsstaðir heita í Ölvesi bjó maður sá sem Gísli er nefndur. Hann átti sjálfur ábúðarjörð sína og var þar til ríkur maður af öllum þeim hlutum sem á þeim tíma voru þarfir kallaðir. Hann átti son við konu sinni; um nafn hans er ei getið. Hann ólst upp með föður sínum og var bæði stór og sterkur, en ei þókti hann sérlega liðugur til vinnu og heldur undarlegur í skapi.

Þegar hann var um tuttugu ára aldur bar það til eitt sumar að dreng þessum leiddist mjög heyvinna þegar sláttur var þó nýbyrjaður, en hugsar að miklu betri og frjálsari ævi hafi þeir menn sem á fjöllum og óbyggðum ali aldur sinn. Hann býr því leynilega ferð sína og leggur á stað eitt sinn um kvöldtíma þegar fólk er til hvílu gengið. Hann gengur á fjall upp og ferðast af kappi um nóttina og daginn eftir og aðra nótt og er nú orðinn næsta göngumóður og svefnþurfi, hvílist þó lítið og kemur í dal einn annandagsmorguninn og því næst sér hann nokkuð sauðfé. Nú þykir hönum heldur vænkast ráð sitt og greiðir heldur sporið á ný. Þessu næst sér hann bæ einn lítinn og gengur heim og hittir kvenmann við bæjardyr. Hann heilsar henni; hún tekur blíðlega kveðju hans. Hann spyr hana að heiti og hvað framorðið sé. Hún kvaðst Sólrún heita og nú sé lítið af dagmálum. Hún spyr komumann hvört hann vilji ekki koma í bæinn og taka náðir; segist hugsa hann sé langt að kominn og þurfi að taka hvíld. Hann kvað það satt vera og þiggur boðið. Hún fylgir hönum inn í baðstofu; þar voru hús heldur lítil, en þó allþokkaleg. Hún dregur af gesti vosklæði og lætur hann hátta í allvænu rúmi og ber hönum mat góðan hvörn hann borðar með góðri lyst og fer síðan að sofa.

Þegar hann vaknar kemur hin sama stúlka að rúmi hans og spyr hvörsu hönum hafi sofnazt. Hann segir: „Vel – eða hvað líður nú degi?“ Hún segir skammt af hádegi. „Þá má valla heita ég hafi lengi sofið,“ segir hann. „Heldur hefur þér sofnazt vel,“ segir hún; „þú hefur sofið rúm tvö dægur sem von er; þú varst langt að kominn og dasaður mjög.“ Nú klæðist hann, en stúlkan ber hönum mat á ný. En á meðan hann er að borða kemur til hans gamall maður hæruskotinn, en þó allkurteislegur. Hann heilsar gesti vingjarnlega og segir hann þar velkominn. Hvörki spyr hann um ætt hans né kynferði, heldur kemur þar niður ræða þeirra að sá gamli spyr komumann hvörsu vel honum lítist á stúlku þessa, en hann lét vel yfir því. Kallinn spyr hann þá aftur hvört hann mundi ekki vilja eiga hana. Komumaður svarar: „Sé hún so í öllu að reyna sem hún er að sjá þá mundi ég vel una hag mínum.“ Þá mælir kallinn: „Þá skal ég segja þér ævisögu mína og það með að ég veld nokkru með komu þína hingað.“ Og byrjaði kallinn so sögu sína á þennan hátt:

„Einar hét maður; hann bjó á Hornströndum vestra. Hann átti konu er Steinvör hét og tvö börn, Hjört og Sólrúnu. Einar var ríkur maður af lausafé og vel að sér um margt. Sonur hans var gáfaður vel og snemma heldur hneigður til bóknáms. So þegar hann hafði aldur til kom faðir hans hönum í Skálholtsskóla hvar hann menntaðist fljótt og varð jafn þeim er beztir voru og kannske kynnti sér fleira en almennan lærdóm snerti. Þegar hann hafði aflokið skólalærdómi sínum fýstist hann heim til foreldra sinna og var heima um tveggja ára tíma og hélt við lærdóm sínum og þeim vísindaiðkunum sem honum í þann tíma var kostur að nema; og á þessu tímabili dóu foreldrar hans. Réði hann þá búi og hafði þó í hyggju að sækja um embætti með tíðinni, en um þetta leyti féll annað fyrir, Sólrún systir Hjartar varð þunguð af hans völdum og þá varð hönum það sem flestum að reyna til að forða lífinu og seldi bráðum lausafé sitt og sló því fyrir að hann ætlaði að ráðast burt af Vestfjörðum; fór síðan burtu og leitaði víða fyrir sér að híbýli og staðfestist loksins í afdal einum eftir tilvísun eins kunningja síns og efnaði þar bæ lítinn. Hjörtur fór til næstu byggða og keypti það hann með þurfti, bæði fé og annað, en kom sér so fyrir að hann varð ei grunaður að vera dularamaður. Í afdal þessum ól systir hans stúlkubarn. Það skírði Hjörtur sjálfur þó hann ekki prestvígður væri, og ólu upp síðan og menntuðu eftir hætti. Stúlkan var látin heita Sólrún í höfuð móður sinnar. Nú er ég sá Hjörtur er ég hef um getið, en stúlkan er hér. Móður hennar er dauð fyrir fáum árum, en ég kominn á áttræðisaldur og á skammt eftir ólifað. En ég vildi ekki að dóttir mín yrði hér eftir mig látinn einmana, en þú verður gæfumaður og gamall að aldri og því vildi ég ná þér handa dóttur minni.“ Drengur tekur þessu og þakkar kalli góðvild sína. Kall tekur þá til máls aftur og segir: „Það hygg ég að dóttur mín verði þér hvergi til ósóma, og þó þú verðir einhvern tíma ráða þurfi þá skaltu fyrst leita hennar ráða fyr en annara; en nú skaltu heim fara og lát sem þú heyrir ei átölur föður þíns og vinn dyggilega verk þín um þessi missiri og þá mun batna frændsemi hans til þín. En á komandi sumri áttu að koma aftur heldur fyr á sama degi og þú komst nú. Þó ég sé hræddur um að so falli hagur þinn að það verði nokkuð síðar og mun ég þá dauður og áttu mér þá umbúð að veita og grafa hjá systur minni. Síðan skaltu fara með stúlku þína til byggða og þá fémuni sem í kotinu eru og dóttir mín af veit, og hygg ég að menjar þeirra dugi ykkar tíð og máske lengur, því þeirra er ei með rangindum aflað, því allt hvað hér er er út af arfagóssi foreldra okkar.“

Litlu síðar er búin ferð hans og kveður hann stúlku sína og var ei trútt um að þeim þækti mikið fyrir að skilja. Kallinn fylgir hönum á veg og segir til kennileita sem brúka skuli þegar hann komi aftur. Því næst heilsast þeir og biður kall hann að hafa í minni hvað þeir hafi talazt við – „en ekki munum við aftur sjást, en þess vildi ég óska að þér yrði allra heilla og hamingju auðið.“ Og að svo mæltu fór hvör sinn veg.

Nú kemur strákur heim um næturtíma og fer í rúm sitt og gengur til verka með fólkinu um morguninn og er heldur fálátur. Faðir hans veitir hönum stórar átölur og harðar, en strákur lætur sem hann heyri þær ekki. En miklu er hann vinnusamari heldur en hann hefur nokkurn tíma verið og so útséður að flesta furðar hverjum umskiptum hann hefur tekið á stuttum tíma so faðir hans þykist ekki þurfa til neins að segja annað en vísa til sonar síns; og líður nú tíminn til annars sumars. En þegar leið að sama tíma og hann fór fyrra sumarið finnur fólk og einkum faðir hans að hann muni enn nú yfir einhverju búa og hyggur að passa hann so að hann skuli nú ekki burtu komast og tekur skó hans til sín á kvöldum og eins þegar þeir sofna miðdagsdúr.

Nú kemur sú ákveðna nótt og þá passar kall hann so vandlega að hann ómögulega kemst á burt og líður nú nóttin og fram á daginn þangað til að fólk fer að sofa um daginn. Þá verður þess að geta að kallinn verður so þyrstur að hann verður að fara á fætur að finna sér að drekka, en gleymir að taka skó sonar síns og man ei eftir hönum fyr en hann vaknar aftur. Þá er strákur horfinn, en myrkaþoka komin so eftir hönum varð ei leitað. En það er frá dreng að segja að þokan varð hönum ei til meins. Hann hélt áfram það sem af tók og kemur loks að dalbænum, og er þá stúlkan við bæjarkampinn, styður hönd undir kinn og er að gráta. Hann kveður hana. Hún tekur hönum vel, en segir nú hafi hann komið heldur seint; nú sé komið undir hádegi og faðir sinn sé nýdáinn; hún sé búin að veita hönum nábjargir. Nú fer hann að búa útför kallsins og grefur hann þar sem hönum var til vísað. Því næst fara þau að búa ferð sína til byggða. Þar voru fimm hross og á annað hundrað fjár, nautkind engin. Þau binda á þrjá hesta og flytja á þeim hvað þeim sýnist, en skilja hitt eftir. Þar var margt fémætt og peningar miklir, en það sem þau komust ei með skildu þau eftir í bænum og sauðfé allt til haust[s] sem þá gekk með dilkum. Hún sagðist hyggja það mundi kyrrt á stöðvum sínum. Því næst hélt hann heim.

En þegar heim kom varð kall æfur mjög og vildi ekki fjölga fólki og kvaðst hyggja að fjallafála þessi yrði heimili sínu til lítillar nytsemi. Samt urðu þau þar um sumarið hvað sem kall sagði. Þó leit hann ónotalegum hornaugum til farangurs þeirra, en þókti þó ei allt óeigulegt. Þegar hún fór að kynnast við var Sólrún hvörs manns hugljúfi á heimilinu. Á áliðnu sumri fer þessi ungi maður með stúlku sína til kirkju og finnur prest og talar við hann lengi og biður hann að kaupa með sér og stúlku þessari. Það kvaðst prestur ei gjöra nema hann yfirheyrði hana fyrst í sínum kristindómi og segir að láta hana koma. En þegar kallinn verður þessa áskynja fyrirbýður hann presti allar aðgjörðir. „Yfirheyra má ég hana,“ segir prestur, „og vita hvört hún kann að gjöra grein á trú sinni.“ Því næst spyr prestur hana eins og annars kristninni viðvíkjandi, en hún leysir úr viðstöðulaust og les vel á bók sem þá fáir gjörðu. Nú segir prestur henni að byrja fræðin. Hún gjörir so og byrjar þau á latínumáli. Prestur spyr hvört hún kunni þau ei öðruvísi, en hún var jafnvel heima í þeim á móðurmálinu. En so lauk yfirheyrslunni að prestur þóktist ei hafa við, kallar á Gísla og segist veita persónum þessum þær prestlegu aðgjörðir hvað sem hann segi og fór það fram vel og sómalega – en ekki var tengdafaðir hennar að boðinu. Um haustið fékk ungi bóndinn sér menn og hesta og sókti alla fémuni sína í dalinn og flutti heim, og þá varð Gísli kallinn fyrst léttbrýnn þegar hann sá fjárhópinn. Þessi hjón bjuggu á Kröggulsstöðum eftir föður hans til elli og þóktu þau hinir frægustu menn. Þau áttu einn son sem Gísli hét og bjó sá Gísli á sama bæ eftir föður sinn og er sagt að sá ættleggur hafi þar lengi verið, en muni þó fyrir nokkru úrdauður – Og lýkur so sögu þessari.