Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Suðurferða-Ásmundur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Suðurferða-Ásmundur

Ásmundur hét maður. Hann var skagfirzkur að ætt. Röskur var hann og atorkumaður mikill og þá um tvítugsaldur er þessi saga gjörðist. Ásmundur fór á vetri hverjum suður til sjóróðra og voru æ sömu menn með honum. Af þessu var hann kallaður Suðurferða-Ásmundur.

Einn vetur fór Ásmundur suður sem oftar og voru félagar hans með honum. Þeir voru um nótt á Melum í Hrútafirði og ætluðu um morguninn að leggja upp á heiðina. En um nóttina tók Ásmundur sótt mikla og biðu lagsmenn hans eftir honum þann dag. Ásmundur sagði að þeir skyldu fara leiðar sinnar og mundi hann koma á eftir. Síðan fóru þeir, en Ásmundur varð eftir. Daginn eftir var Ásmundur orðinn albata og hélt nú af stað. Var þá veður gott. En þegar hann kom suður á heiðina miðja gjörði hríð mikla og sá Ásmundur ekki hvað hann fór. Villtist hann þá og er hann sá það tók hann af hestum sínum baggana og gróf sig í snjóskafl og hafði baggana fyrir dyrunum. Hestana batt hann á streng. Síðan fór Ásmundur inn í snjóhúsið og hafði gat á því undan vindi svo hann gæti séð til veðurs. Tók hann þá nesti sitt og fór að borða. En er hann var nýfarinn að borða kom mórauður hundur að gatinu á snjóhúsinu og reif sig inn. Rakkinn var ygldur mjög og grimmilegur og versnaði þó einatt við hvern bita sem Ásmundur át. Ásmundi fór ekki að verða um hundinn og tekur upp hjá sér sauðarlanglegg einn mikinn og gefur honum. Rakkinn tók við leggnum og fór þegar út með hann.

En að litlum tíma liðnum kemur mikill maður vexti og ellilegur að dyrunum á snjóhúsinu. Hann ávarpar Ásmund og þakkar honum fyrir hvolpinn sinn. „Eða ert þú ekki Suðurferða-Ásmundur?“ segir aðkomandinn. „Svo er það kallað,“ segir Ásmundur. „Nú býð ég þér tvo kosti,“ segir aðkomandinn, „annaðhvort að fylgja mér eða hríðinni léttir ei fyrr en þú ert dauður. Því þú skalt vita það að ég er valdur að hríð þessari og því að þú sýktist; því ég vildi finna þig því engan þekki ég hraustari mann í sveit.“ Ásmundi leizt nú ekki á blikuna og sá að sér var nauðugur einn kostur. Kvaðst hann þá heldur vilja fara með honum en láta þar líf sitt í skaflinum. „Kom þú þá,“ segir aðkomandinn. Ásmundur tók sig nú upp og var þá létt upp hríðinni og komið gott veður. Fer aðkomandinn fyrir, en Ásmundur á eftir með hestana. Ekki vissi Ásmundur hvað hann fór því hann var villtur orðinn.

Þegar þeir höfðu lengi haldið áfram verður fyrir þeim dalverpi. Á rann eftir dalnum miðjum og furðaði Ásmund á því að öðrumegin árinnar var rauð jörð, en hinumegin alhvítt af snjó. Sinn bæ sá hann hvorumegin. Fara þeir nú heim að þeim bænum sem var í hinum snjóvga hluta dalsins. Fer þá karl með hestana í hús og gefur þeim hey. Síðan leiðir hann Ásmund inn í bæinn og komu í baðstofu. Þar sá Ásmundur konu eina gamla og unga stúlku rétt fallega. Ei sá hann fleira fólk. Hann heilsar þeim og því næst vísar karlinn honum til sætis. En að litlum tíma liðnum fara þau fram karlinn og stúlkan. Var þá Ásmundur einn eftir og kerlingin. Kerlingin var einatt að tauta við sjálfa sig að aumt væri að vera tóbakslaus. Ásmundur tekur þá tóbakspund úr veski sínu og kastar til kerlingar. Tók hún við og varð fegin mjög. Nú koma þau inn karlinn og stúlkan og bar hún mat fyrir Ásmund. Ásmundur borðaði og var karlinn einatt að tala við hann og var hinn kátasti.

Þegar Ásmundur hafði snætt fór stúlkan burt aftur og karlinn með henni. Hugsaði nú Ásmundur að þau mundu vera að taka saman ráð sín og mundu ætla að drepa sig. Bráðum kemur karlinn aftur og biður Ásmund að ganga til hvílu. Hann var fús á það og leiðir karlinn hann fram í skála einn. Þar var sæng uppbúin. Býður nú karlinn honum góðar nætur og gengur burt, en stúlkan dregur vosklæði af Ásmundi. Ætlar hún að taka sokka hans og skó og fara burt með þá, en Ásmundur biður hana að gjöra það ekki því hann óttaðist að svik mundi þar undir búa. Stúlkan segir að það sé óhætt því ei muni honum verða mein gjört. Fer hún svo og býður Ásmundi góðar nætur með kossi. Ásmundi þótti þetta undarlegt í útilegumannahúsum og var ekki trútt um að honum þætti undarlega góður kossinn stúlkunnar. Sofnar hann nú skjótt og vaknar við það að karlinn stendur þar hjá honum. Var þá dagur kominn. Karlinn býður honum góðan dag og segist nú undireins ætla að biðja hann þess er hann hafi sótt hann til að gjöra. „Svo stendur á,“ segir karlinn, „að fyrir tuttugu árum var ég í sveit; barnaði ég þá systur mína og flúði ég síðan og fór hingað. Er það systir mín, hin gamla kona sem þú sást í gærkveldi, en barn það sem við áttum er stúlka sú sem þjónaði þér til sængur. Þegar ég kom hér voru hér fyrir útilegumenn og bjuggu í bæ þeim sem þú hefur séð í gærkvöldi hinumegin árinnar. Þeir eru tveir og búa enn í bænum. Voru þeir jafnan féndur mínir, en ég gat varizt þeim þangað til nú. Nú bera þeir mig ofurliði og láta allan snjó sem í dalinn fellur falla mín megin árinnar. Hefur það verið vani minn að beita sauðum mínum yfir í þeirra land, en nú er ég ekki orðinn maður til þess. Ég ætla því að biðja þig nú þegar í dag að fara með sauði mína yfir ána og standa þar yfir þeim. Veit ég að þú ert maður hraustur enda mun ei af veita; því koma munu þeir báðir féndur mínir og ætla að ég sé með fénu. Þú skalt hafa hund minn þann mórauða með þér og mun hann duga þér vel.“

Rís nú Ásmundur úr rekkju og fer með sauðina, en karl fékk honum kufl sinn til að hafa yfir sér og öxi til að verja sig með. Þegar Ásmundur er kominn yfir ána hlaupa þeir báðir útilegumennirnir á móti honum og segja: „Feigur er hann nú,“ því þeir hugsuðu að karlinn væri með sauðum sínum. En er þeir koma nær Ásmundi segja þeir: „Annar er það en við ætluðum.“ Runnu þeir þá til Ásmundar og réðust á hann. Ásmundur sigar Móra á annan þeirra, en ræðst sjálfur mót hinum. Rífur Móri þann á hol sem hann átti við og hleypur síðan mót hinum og vinna þeir á honum báðir Ásmundur og rakkinn. Er nú Ásmundur hjá sauðunum til kvölds, þá fer hann heim og finnur karlinn. Hann tekur við Ásmundi vel og þakkar honum mikillega fyrir dagsverkið. Sagðist hann hafa séð til hans þá er hann hefði verið að drepa þá útilegumennina. Daginn eftir fara þeir báðir Ásmundur og karlinn yfir um ána til bæjarins. Voru þar húsakynni góð og rúmleg. Engan mann fundu þeir þar, en fé mikið. Könnuðu þeir nú bæinn allan. Verður þá fyrir þeim hurð ein og gátu þeir ekki lokið henni upp. Ásmundur hleypur þá á hurðina og brýtur hana upp. Var þetta þá afhús eitt lítið og sjá þeir þar konu eina fríða og fallega. Hún var bundin á hárinu við stólpa einn og mjög bleik og mögur orðin. Ásmundur leysir hana og spyr hvaðan hún sé. Hún segist vera bóndadóttir úr Eyjafirði og hefðu þeir rænt sér útilegumennirnir. Hefðu þeir verið að neyða sig til að eiga annan hvorn þeirra. En af því hún hefði ei viljað það hefðu þeir bundið sig hér og ætlað að láta sig svo viðurkennast. Ásmundur segir henni hvar komið er og að hún sé í góðra manna höndum. Verður hún þá glöð og hyggur sig nú sloppna úr öllum háska. Flytja þeir nú allt úr hinu kotinu í bæ þennan og sitja þar um veturinn. Líkaði Ásmundi vel við karlinn og þær stúlkurnar, einkum karlsdóttur. Nam hún ýmsar iðnir að stúlkunni þeirri eyfirzku.

Um vorið segir karlinn við Ásmund að nú skuli hann fara heim til sín, en að hausti skuli hann aftur koma í dal þennan því þá segist hann dauður verða. Segist hann þá biðja hann að taka að sér dóttur sína og systur ef hún lifi þá og eyfirzku stúlkuna. Segir hann að hann skuli taka það með þeim sem hann finni hér fémætt. Síðan fer Ásmundur burtu og fer norður í Skagafjörð. Þóttust menn þá hafa heimt hann úr helju, en ekki sagði hann neinum hvar hann hefði verið um veturinn.

Um haustið fór hann aftur burtu og kom í dalinn til stúlknanna. Urðu þær honum mjög fegnar því þá var bæði karl og kerling önduð og höfðu þær dysjað þau á hól einum þar í hlíðinni. Er nú Ásmundur þar hjá þeim um veturinn. En um vorið tekur hann sig upp og fer með allt lausafé úr kotinu norður í Skagafjörð. Þar settist hann að búi og átti karlsdóttur, en eyfirzku stúlkuna gifti hann manni þar í sveitinni. Og lýkur hér sögu Suðurferða-Ásmundar.