Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Suðurferðamennirnir átján

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Suðurferðamennirnir átján

Einhverju sinni bar svo við að sextán menn úr Húnavatnssýslu er fara vildu til sjóróðra á Suðurland tóku sig saman til suðurferða; voru þeir allir ungir menn og frískir og miklir oflátar. Gamall maður sá seytjándi fór í humótt á eftir þeim. Gistu þeir oft á hinum sömu bæjum; höfðu þeir þá kall í skimpi, en hann lét það ekki á sér festa. Það var á einhverjum bæ að ekkja bjó er vildi koma með þeim pilti suður til að læra þar sjó um veturinn; hann var seytján eða átján vetra. Voru þeir ófúsir á það; kváðu hann mundi ekki hafa kjark til að fylgja mönnum og gætu þeir ekki verið að hafa hann að trafali. Heyrir nú kallinn mótbárur hinna, sem var þar líka, og þagði. Segir hann þá að það sé bezt hann dragist með sér, því ekki sé um að gera að þeir geti orðið nokkrum manni samferða og sízt þessum miklu mönnum, og þó þeir verði þá úti á fjöllunum þá muni það ekki mörgum harmdauði. Semst nú svo að drengur skal fara með kalli. Leggja þeir nú upp í góðu veðri að morgni og fara Tvídægru. Er það eins og vant að kall lét hina troða brautina á undan; fór hann hægt og gætilega. Drifu hinir sig áfram með gemsi og hentu narr að seinlæti kalls; kveða þeir hann muni ekki komast bráðlega af fjöllunum með þessu áframhaldi. Ber þá nú svo í sundur að kall sér aðeins til þeirra við og við og fylgdi drengur honum. Þegar á daginn leið fór að dimma að með kafaldshríð; versnaði veðrið svo smátt og smátt að þeir vissu ógjörla hvert halda skyldi. Fara þeir þá að hægja ferðinni og bíða eftir kalli og sjá hvert hann héldi. Líður þá ekki á löngu áður þeir sjá hann kominn á bí við sig og fram hjá sér. Taka þeir þá það ráð að stefna í sömu átt og kall heldur; fara þeir þá ekki að fara á undan honum. Kall segir þeim að það sé lítilmannlegt fyrir þá að elta sig því ekki muni hann betur rata en þeir og ekki muni heldur slíkir menn sem þeir séu þurfa sig til þess. Nú fer ferðin að ganga mikið seint og bíður nú kall eftir þeim. Halda þeir þó ferðinni þar til dimmir af nótt. Vita þeir þá ekki neitt hvað þeir fara. Fer þá kall að taka af hestum sínum og gefa þeim hey sem hann hafði meðferðis og er hinn kátasti, en hinir eru mjög sinnulausir og daufir; fara þó smám saman að ráðum kalls og taka ofan af hestunum og bunka farangurinn. Nú taka kall og drengur malsekki sína og fara að borða. Kall spyr hina hvert þeir atli ekki að fá sér mat. Þeir kváðust enga lyst hafa á að borða; þeir væru annars hugar. Kall segir: „Já, ekki held ég þið verðið lengi að drepast með því móti ef þið étið ekki.“ Telur hann svo um fyrir þeim að þeir fara flestir að fá sér mat. Nú eru þeir líka fyrir löngu hættir að gera gys að kalli. Þegar þeir hafa matazt segir hann þeim að nú hjálpi ekki að hokra eða leggjast fyrir. Skipar hann þeim þá að fara að glíma. Með fylgi og fortölum fær hann talið í þá hugrekki og haldið þeim við nokkurn veginn hita um nóttina.

Þegar dagaði taka þeir hesta sína og leggja af stað, en þó er kafaldshríðin öll hin sama og vita þeir ekkert hvað þeir halda. Að áliðnum degi fer að halla undan fæti og léttir þá nokkuð kafaldinu. Eru þeir þá komnir í dal nokkurn. Nú fara þeir ofan eftir honum til þess komið er um dagsetur; þá sjá þeir ljós í glugga. Fara þeir þá að lofa guð allir nema kallinn. Hann segir: „Lofið hann nú hægt fyrir þetta. Hér munu útilegumenn búa og verðum við nú allir drepnir.“ Fer þeim nú að fallast hugur, því þeir voru farnir að leggja nokkurn trúnað á orð kalls, og fara nú að ráðgast um við hann hvert þeir eigi að gera vart við sig eða ekki. Það segir kall að þess verði að freista því ekki muni þeir að heldur undan komast, en þess biður hann þá að láta sig í öllu ráða og láta ekki merkja á sér hræðslu og lofa þeir því fúslega. Fara þeir nú heim að bænum; eru þar stór og reisugleg húsakynni. Þeir berja að dyrum. Kemur þá bráðlega maður til dyra með kertaljós í hendi. Þótti þeim hann kurteis og fríður sýnum. Þeir spurðu hvert þeim yrði lofað að vera. Hann spyr hvað margir þeir séu; þeir segja átján. „Já, margir eruð þið nokkuð,“ segir hann, „en eitthvað verður þó séð til þess“. Þeir spyrja hvert hann geti lofað þeim að hleypa nokkrum hestum inn. Hann spyr hvað þeir hafi marga; þeir segja þrjátíu. „Það verður að reyna að kotra þeim einhverstaðar,“ segir hann og vísar þeim á hesthús út á túni; kveðst halda að þeir geti kveisað þeim þar öllum. Vísar hann þeim á hey handa hestunum og skemmu á hlaði til að láta inn farangur sinn. Ekki sjá þeir þar fleiri manna. Fara þeir nú og taka af hestum sínum og láta þá inn sem þeim var til vísað og var húsið hlauprúmt fyrir þá og stallar til að gefa í. Þegar þeir eru búnir að gefa þeim og hafa komið inn böggum sínum kemur heimamaður hinn sami til dyra aftur og vísar þeim inn. Leiðir hann þá í mikinn skála; voru þar níu rúm uppbúin, fjögur með hvorri hlið og eitt fyrir gafli, og voru þau öll mjög á lofti. Eftir miðju skálagólfi milli rúma var borð sett að endilöngu og mátti matast þar við af rúmunum. Fékk hann þeim ljós og fór síðan burtu. Fór þá kallinn að lítast um í skálanum; þóttist hann þess vís að bak við gaflþilið í skálanum mundi vera annað hús og leynidyr undir borðinu. Biður hann nú félaga sína að lofa sér að vera í gaflrúminu og játa þeir því. Var þeim nú borinn matur á borð og kom stúlka með hann; var það heit ketsúpa og þóttust þeir aldrei hafa borðað svo feitt ket. Þótti þeim stúlkan ærið daufleg og sýndist þeim hún grátþrungin. Dró hún af þeim vosklæði og fór síðan út og læsti hurðinni og sýndist þeim hún fara grátandi. Ekkert sáu þeir þar annara manna. Segir nú kallinn mönnum sínum að ekki skuli þeir fara úr neinum fötum, en niður skuli þeir leggja sig og láta ekkert á sér kræla, en látast sofa þó þeir verði einhvers varir þar til hann geri þeim aðvart. Leggjast þeir svo niður tveir og tveir í rúm og kallinn síðastur, en slökkur samt áður ljósið. Liggja þeir svo lengi að þeir verða einkis varir. Þegar liðinn er sem svarar þriðjung nætur verður kallinn þess áskynja að hljóðlega er lokið upp og gengið undir borðinu inn í hús það sem hann þóttist vita að lægi inn af skálanum. Gægðist nú kallinn inn um smugu sem hann fann á þilinu við ljósglætu er lagði fram. Sér hann þá að þar eru tveir menn með kertaljós sem þeir setja þar á kistu og er annar þeirra maðurinn sem þeir fundu um kvöldið og lýkur hann upp annari kistu er þar var hjá og tekur þar upp öxi og sezt niður á hina kistuna og fer að brýna. Þegar hann hefur brýnt hana leggur hann hana hjá sér, og sækir þá hinn maðurinn aðra í kistuna og fær honum til að brýna; sækir hann svo hverja af annari, en hinn brýnir og leggur hjá sér. Réði kallinn það á öllu að hátt mundi hafa verið í kistunni af þessum verkfærum. Þegar hann hefur brýnt svo sem átta eða níu læðist hann ofan úr rúminu að leynidyrunum. Snarast hann þá inn og var ekki seinn á sér, þrífur öxi á kistunni hjá þeim sem brýnir, og höggur af honum höfuðið með sama áður en hann nokkurs varði og vegur í sama bili að hinum áður en hann fékk svigrúm að ná sér öxi, því ekki var honum heldur langsamt að vinna á honum. Að því búnu færir hann hræ þeirra af gangvegi til síðu í húsinu, tekur síðan úr kistunni svo margar axir sem menn hans voru og slökkur að því loknu ljósið. Fær hann nú sína öxi hverjum pilta sinna og segir þeim að liggja niður sem áður og látast sofa þar til hann gefi þeim vísbendingu að standa upp og hafi hver sína öxi í höndum sér. Að því búnu leggur hann sig niður og liggur nokkra stund þar til þeir heyra að gengið er um frambæinn af nokkuð mörgum mönnum og eru í hálfum hljóðum að bölvast yfir hvað lengi þeir séu að brýna axirnar er fram voru komnir. Ljúka þeir með hægð upp skálanum og hlusta eftir; heyra þeir þá að flestir komumanna hrjóta. Fara þeir því óhultir undir borðinu inn í afhúsið í röð hver á eftir öðrum, en sjá þar ekkert og fundu ekki heldur svo brátt félaga sína því kall hafði sett kistu fyrir framan þá, og ekki heldur vopn sín því hann hafði hirt lykilinn að axakistunni, en tekið þær sem búið var að brýna. Þegar kall hélt að flestir þeirra væru inn komnir snarar hann sér ofan úr rúminu og kallar til hinna fremstu manna sinna að fara fyrir skáladyrnar og gæta þess að enginn komist út, en hinum skipar hann að vega úr rúmunum undir borðið, en sjálfum ætlaði hann sér að eiga við þá í afhúsinu og var hann nú ekki heldur lengi að bregða sér á eftir þeim í dyrnar, og féll þar skjótt hvor um annan þveran fyrir öxi kalls. Hopuðu þeir þá undan innar í afhúsið, en kall fylgdi þeim eftir. Leyfði hann þá nokkrum framgöngu í skálann og unnu lagsmenn hans á þeim, en hina er eftir urðu brytjaði hann alla þar til enginn stóð uppi; voru þeir sextán talsins að undanskildum þeim tveimur fyrri. Þegar þeir höfðu lokið þessu verki skipaði hann mönnum sínum að hreinsa til í skálanum og bunka saman hræjum þeirra í afhúsinu, en kvaðst sjálfur atla að svipast betur um í bænum. Gengur hann nú hljóðlega inn bæjargöng og kemur að baðstofuhurð. Þar gægist hann inn um dyragættina. Logar ljós í baðstofunni og sér hann að stúlkan sem kom til þeirra um kvöldið situr á rúmi í öðrum enda baðstofunnar með gráti, en kelling mjög hrörleg í rúmi sínu í hinum og er kelling að skipa stúlkunni að fara fram og kippa þeim fram úr rúmunum svo blóðið fari ekki í fötin. En stúlkan er að gráta og vill með engu móti fara, en kelling er því ákafari að skipa henni fram að taka þá strax fram úr rúmunum áður en blóðið fari í fötin og taka af þeim hálsklæðin. Þegar kelling sér að hún tregðast við að fara seilist hún í skálm fyrir ofan rúmið sitt og segir: „Þessi skal í þig ef þú fer ekki.“ Þegar kall sem stóð fyrir framan baðstofudyrnar heyrði nöldur kellingar og sá aðfarir hennar stóðst hann ekki lengur, heldur brá sér skjótlega í baðstofuna og stytti fljótlega aldur hennar, en stúlkan féll í ómegin er hún sá fas komumanns. Fór nú kall að stumra yfir henni þar til hún raknaði við aftur og með góðum atlotum fekk hana til að hressast svo hræðslan fór að brá af henni, og sagði kall henni að hún mætti vera óhrædd um sig og mundi hann nú geta losað hana burt frá útilegumönnum ef hún það vildi, og kvaðst hún það fegin vilja. En hann sagði henni hvernig farið væri fyrir heimamönnum og kvað hún það að maklegleikum, en hann frétti hana hvert þar væri ekkert fleira heimamanna, en hún kvað nei við því. Hún kvaðst vera bóndadóttir úr Skagafjarðardölum og hefði þeir náð sér frá öðru fólki á grasafjalli og haft með sér í dalinn nauðuga því þá hefði þótt sig vanta bústýru síðan kellingin gjörðist karlæg. Kall spyr hana hvert þar sé ekki meiri byggð í dalnum. Hún segir að hinumegin í dalnum sé annar bær og séu þeir þar fimmtán saman kallmenn, en kvenmannslausir séu þeir með öllu. Segir hún honum að oft hafi verið krytur milli bæjanna og hafi þeir tíðum elt grátt silfur og einkum þeir af hinum bænum gjört áhlaup þar á bæinn og muni þeirra nú bráðlega að vænta, en ætíð hafi heimamenn getað rekið þá af höndum sér. Hún segir að þar á búi séu fimm hundruð fjár og hestar fullir þrjátíu, en á hinu um þrjú hundruð og hestar að því skapi. Þegar karl var nú búinn að hressa af stúlkunni og hafði frétt hana um það sem hann vildi og menn hans voru búnir að skoða sig um í bænum sváfu þeir það sem eftir var nætur, því þeir vóru orðnir dasaðir og svefnþurfa þar sem þeir lágu úti nóttina fyrir. Kallinn fór með piltinn sem honum fylgdi, í baðstofuna til skemmtunar stúlkunni, en hinir sváfu í skálanum. Daginn eftir dysjuðu þeir hræ heimamanna fyrir utan vallargarð og hlynntu að peningnum; skorti þar hvorki matarforða né fóðurbirgðir. Sátu þeir nú í næði og hresstu sig eftir volkið og bar ekkert til tíðinda. Glöggt sáu þeir yfir til hins bæjarins og nær þeir beittu peningi sínum, því skammt var milli.

Einu sinni að kvöldi dags í góðu veðri er farið var að húma sjá þeir hvar þeir koma fimmtán saman; vita þeir þá hvað um muni vera. Ræður þá kall hvernig um skuli búast að mæta komendum. Bæjardyr voru víðar. Hann skipar mönnum sínum að standa beggja megin í dyrunum í röðum og láta lítið á sér bera, en dimmt var í dyrunum; sjálfur stóð hann við þilið öðrumegin. Hann kveðst atla að sumir muni fara í bæinn og leita þeirra, en sumir verða úti og gæta dyra; skuli þeir láta þá hlaupa viðstöðulaust í bæinn, en gæta skyldu þeir þeirra þegar þeir færu út aftur. Hann kvaðst atla að reyna við þá sem úti yrði. Fer það sem kall gerði ráð fyrir. Þegar þeir koma og sjá engan úti hlaupa þeir í bæinn átta og allt í baðstofu, en sjö voru úti og gættu dyra. Þegar þeir sem í baðstofuna fóru fundu þar engan hlupu þeir fram aftur, og tóku heimamenn þar á móti þeim, en kall hljóp út á móti þeim sem þar voru og var hann að enda við að vinna á þeim seinustu þegar hinir höfðu fellt þá sem inn fóru. Voru þeir þar allir felldir þar til enginn stóð eftir, og er ekki þess getið að neinn hinna særðist og því síður félli, og þótti þá aðgangur í kalli er hann einn felldi þá sjö saman. Nú voru þessir dysjaðir eins og hinir fyrir utan vallargarð í fönn því ekki varð öðru á komið. Eftir það skiptu menn sér á bæina til að stunda fénaðinn.

Nokkru seinna kom kall að máli við menn sína. Segir hann þeim að óþarft sé að þeir séu þar allir vetrarlangt og væri því bezt að nokkrir færu suður og réri, en kæmi aftur að vordögum í dalinn til að flytja norður búslóð dalbúa. Urðu þeir ásáttir um það og fóru átta suður; skorti þá ekki góða útgerð í keti og sméri er nægð var af á dalbúunum til að bæta upp það sem á brast að norðan. Kallinn sagði þeim hverrar leiðar þeir skyldu halda til að komast til byggða suður, en einkis skuli þeir geta um komu þeirra í dalinn eða viðureign þeirra við útilegumenn, en að vordögum skyldu þeir allir koma aftur. Fóru þeir nú leiðar sinnar suður og réru þar um veturinn og aflaðist þeim fremur lítið því fiskfátt var. Kall hafði eftir þrjá menn til að stunda fénaðinn á fimmtán manna búinu, en sjálfur var hann með piltinn og stúlkuna og tvo menn aðra á hinu. Bar nú ekkert til tíðinda til vordaga og komu þá vermennirnir að sunnan. Glöddust heimamenn við komu þeirra. Tóku þeir þá að skipta fjármunum búanna. Það áskildi kall sér, piltinum og stúlkunni að hafa helming alls fjárins; því játuðu hinir fúslega og þótti það að fullri verðungu. Fluttu þeir nú alla búslóðina norður og var það mikil lest, og allt féð; var það laglegur hópur og margur sauður fallegur svo að engir sáust í sveitum jafnvænir. Það þótti Norðlendingum er þeir komu norður hlutarbót í skárra lagi sem þeir komu með. Kallinn flutti þann helming sem honum, piltinum og stúlkunni bar, til ekkjunnar móður piltsins og fagnaði hún þeim vel. Eftir það giftust þau pilturinn og stúlkan því gott hafði orðið milli þeirra um veturinn, en kall sá fyrir fé þeirra. Keypti hann jörð í Skagafirði handa þeim til ábúðar og settust þau þar að. En kall gaf þeim próventu sína og var hjá þeim til dauðadags, en þau bjuggu vel og lengi og urðu auðsældarhjón.