Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sveinn Hansson og fjallbúarnir

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður er nefndur Sveinn; hann var vinnumaður hjá föður sínum er Hans hét. Eitt haust vantaði Hans mestallt fjallfé sitt og var þess víða leitað. Einn dag kom Sveinn að máli við föður sinn og mælti: „Illt þykir mér faðir að svo margt fé vanti og vil ég því fara að leita snemma á morgun.“ Hans kvaðst eigi vilja taka af honum ráðin, en sagðist þó halda að hann myndi eigi finna.

Morguninn eftir fékk Sveinn sér nesti og nýja skó og bað föður sinn að undrast eigi um sig þótt hann yrði lengi burtu. Sveinn fór nú af stað og gekk allan dag til kvelds, en fann ekki. Lagði hann sig þá fyrir, því að veður var hlýtt. En er dagaði hélt hann áfram. Gjörði þá að honum þoku mikla svo að hann vissi ekki hvert hann fór; en um kvöldið birti. Sá hann þá fyrir sér fagran dal. Hann gekk ofan í dalinn. Þar sá hann tvo hesta; var annar brúnskjóttur, en hinn leirljós; leizt honum hinn skjótti fegri; þó voru þeir báðir vænlegir. Sveinn gekk ofan eftir dalnum þangað til hann kom að koti einu. Hann gekk þangað. Hann barði að dyrum, en enginn kom út; hann barði enn aftur, og fór á sömu leið; barði hann þá í þriðja sinni allknálega. Kom þá kvenmaður til dyra og spurði hvers erindis hann væri kominn. Hann sagðist vera að leita að fé og baðst gistingar. „Ekki veit ég hvernig það fer,“ sagði hún, „því að hér koma fáir, en færri fara héðan aftur.“ Sveinn kvaðst vilja hætta á að vera þar. Stúlkan gekk inn og kom skömmu síðar aftur og bað hann ganga inn með sér. Hann þá það; leiddi hún hann inn og setti hann á kistu. Leiddist honum mjög að sitja þar því að hann sá engan mann, enda var þar nærfellt niðamyrkur. Loksins sá hann karl einn ljótan ásýndum og stórvaxinn; hann hélt á ljósi í hendi og gekk fram. Sveinn kastaði á hann kveðju sinni, en karl tók ekki undir. Síðan sá hann koma kerlingu eina ljóta er hann hugði vera konu karlsins sem fyr var nefndur. Nokkru síðar var komið með ask til hans og var í honum eitthvert volgt gutl. Sveinn vildi ekki borða því að honum leizt eigi á fæðuna; kvaðst hann heldur vilja hvíla sig þar eð hann var göngumóður; sagðist hann og hafa borðað nokkuð af nesti sínu áður en hann fór heim; hafði hann skilið það eftir fyrir utan túngarðinn er hann gekk heim því að hann hafði sprett þar af hestum sínum. Stúlka sú er til dyra hafði komið vísaði honum því næst til sængur. Gekk hann með henni ofan í hús eitt er var undir loftinu; sagði hún að hann skyldi þar sofa. Hún hélt á ljósi. Hún ætlaði að taka skó hans og sokka, en hann bað um að mega hafa þá hjá sér. Þegar hún fór út vildi hún taka ljósið með sér, en hann þreif það af henni og tók það til sín; slokknaði þá ljósið, en hann hafði eldfæri hjá sér og kveikti aftur. Hann lagðist nú niður til svefns og sofnaði brátt. Skömmu síðar vaknaði hann, en sá að hann myndi eigi fá út komizt því að hurðinni var harðlæst; þó gat hann með hníf sínum lokið henni upp. Gekk hann síðan fram og fann bæjardyrnar harðlokaðar. Gekk hann þá inn í eldhús; þar fann hann jarðhús eitt og gekk niður í það; þar fann hann mörg mannabein. Hann fann útgang úr eldhúsinu og komst þannig út. Gekk hann þá til hesta sinna, lagði á og fór af stað; en er hann var nýlega kominn á bak sá hann hvar karl kom og hafði byssu með sér. Karl skaut úr byssunni og hitti annan hest Sveins þann er aftar var og var hann þegar dauður. Karl settist niður og vildi steyta byssuna. Sveinn hljóp þá aftan að honum og fleygði honum flötum; kvaðst hann myndi drepa hann nema hann héti sér því að gjöra sér aldrei mein og borga sér hestinn. Karl hét því og sagði honum að hann mætti taka annan hestinn sem hann án efa hefði séð í dalnum. Skyldi hann taka þann leirljósa; en hinn mætti hann ekki taka, því að sonur sinn ætti hann; sagði hann að hann væri að leita að fé og mundi ugglaust drepa hann ef hann yrði var við að hann hefði tekið hest hans. Karlinn sagði að í dalinn hefði komið prestur og maður með honum; sagðist hann hafa drepið þá báða, en tekið hesta þeirra. Sveinn kvaðst vilja hætta á að taka hestinn, hvernig sem fara kynni. Karlinn latti þess, en lofaði þó að hjálpa ekki syni sínum á móti honum þótt hann gæti. Sveinn tók þá skjótta hestinn og bauð karlinum að fylgja sér á rétta leið og hét karlinn að gjöra það. Karlinn tók þá hest sinn og fylgdi honum á réttan veg, en ekki vissi Sveinn í hvaða átt hann fór; kvaddi nú karl hann og sneri heim aftur.

Skömmu síðar sá Sveinn mann einn hávaxinn; hann hafði broddstaf mikinn reiddan um öxl og rak fjárhóp mikinn á undan sér. Hann þekkti þegar hest sinn og kallaði upp ógurlega og mælti: „Þessi þrjótur hefur drepið föður minn og skal hann þegar hreppa bráðan bana.“ Reiddi hann þá stafinn um öxl og vildi þegar rota Svein er var því nær kominn að honum. Sveinn mælti: „Ekki sæmir þér að níðast á mér vopnlausum, skulum við heldur glíma.“ Tóku þeir nú glímutökum og glímdu fast og lengi. Loksins varð Sveinn undir; náði hann þá hníf upp úr vasa sínum og gat rekið mótstöðumann sinn í gegn með honum. Velti hann honum því næst ofan af sér. Hann dysjaði hann þar og fór þangað sem féð var; þekkti hann þar fé föður síns meðal annars. Hann skildi það úr og rak það heimleiðis og kom heim með heilu og höldnu.

Síðan var leitað að dalnum og fannst hann eigi. Lýkur hér svo sögu þessari.