Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Sveitarmaður og útilegumenn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það var einu sinni sveitamaður sem fór til róta. Þegar hann var búinn að fylla pokana þá sér hann hvar maður kemur og hefur birkiprik í hendinni. Hann fer til hans; þeir heilsast. Sveitamaður þekkir hann ekki og hefur ekki séð hann; hann spyr hann að nafni eða hvaðan hann sé. Hann segir hann varði ekki um hvað hann héti eða hvaðan hann væri, biður hann um annaðhvort báða eða annan hestinn. Hann segir hann megi það ekki, hann húsbóndi sinn eigi [þá]. Hann segir ef hann fái þá ekki viljuglega þá skuli hann mega láta þá nauðugt og þrífur til hans og fer að fljúgast á. Þeir eru lengi að fljúgast á þangað til að sveitamaðurinn getur sett hann undir; þá tekur hann hníf upp úr vasa sínum og segir hvað hann mundi hafa gert sér ef hann hefði orðið ofan á. Ókenndi maður segir: „Ég held drepið þig.“ Þá segir sveitamaður hann skuli gera hönum þá slíkt hið sama. Hann biður hann að gefa sér líf. Hann segir hann geri það ekki nema með því móti að hann hlaupi ekki í sig aftur. Hann lofar því. Hann spyr hann hvar hann eigi heima. Hann segir hann eigi heima innarlega á þessari fjallbrún. Hann spyr hvar sé vegurinn þangað. Hann segir það eigi að ríða lengi með fjallinu og so komi klif og eigi hann að fara það upp og so séu götur heim að einum háum garði og muni hann finna hlið og sé járngrind í. Hann segist ráðleggja hönum að fara ekki heim því annars drepi hann faðir sinn hann. Hann spyr hvað hann sé gamall. Hann segir hann eigi tvo bræður og sé annar átján ára, en annar tvítugur; þeir séu báðir í skóg, en það sé heima faðir sinn og móðir og systir sem sé sautján ára og hann sé að smala – og so skilja þeir.

Hann ríður so með fjallinu þangað til hann kemur að klifinu; hann ríður það upp og kemur so að háum garði; þar er járngrind í hliðinu; hún er í hálfri gætt. Hann tekur í hana með annari hendi og ætlar að ýta henni frá, en hún bifast ekki so hann fer af baki og lýkur upp og lætur hana standa opna og ríður so heim langar djúpar og stórar traðir og kemur so heim á hlað. Þar stendur stúlka úti. Hann biður hana að gefa sér að drekka; hún fer inn og kemur með fullan ask af mjólk, og á meðan hann er að drekka þá styður hún hendi á makkanum á hestinum og sveigir hann niðrað jörð. Hann segir hún hafi ekki valið sér það versta að drekka, það sé rjómi. Hún segir það sé áir, en ekki rjómi. Hún er fríð sýnum, með bjart hár niðrá herðar og stór og sterkleg að sjá. Hún segir hönum sé bezt að fara sem fljótast burtu því ef hann faðir sinn verði var við hann þá drepi hann hann. So fer hann og þegar hann er kominn fram í miðjar traðirnar þá kemur kallinn stökkandi og þegar hann er að skreppa út úr hliðinu þá nær kallinn í taglið og heldur öllu föstu og þrífur hann af baki og fer að fljúgast á. Og nú er þessi kall so sterkur að hann klípur hold frá beini so sveitamaðurinn hugsar að þessi kall muni hafa sig undir þá og þá. Þeir eru að fljúgast á lengi þangað til að sveitamaðurinn getur sett hann undir með því að snúa hann út um þúfu. Hann spyr hann hvað hann mundi hafa gert sér hefði hann orðið undir. Hann segir: „Drepið þig.“ Hann tekur hníf upp úr vasa sínum og atlar að bregða á barkann á kalli, en hann biður hann að gefa sér líf. Hann segist skuli gjöra það ef hann hlaupi ekki í sig aftur. Hann lofar því og í því kall er að standa upp þá kemur sonur hans og segir hann hafi gefið sér líf. Kalli þykir það mjög [gott] og býður hönum heim. Hann þiggur það og so fer hann með þá heim og gerir hönum gott og so segir hann hönum að koma með sér, hann eigi von á sonum sínum í kvöld og sé annar nasvís eins og hundur „og stekkur eins og tóa og þefar upp ef nokkrir sveitamenn eru á ferð“. So fer hann með hann í einn hellir og hleður grjóti fyrir dyrnar og fer so. Á ettir hugsar hann að eigi að svelta sig þarna inni. Þegar dálítil stund er liðin heyrir hann undirgang og hugsar það muni nú ætla að drepa sig. So sér hann hvar tveir menn koma með sína fimm hestana hvor með við; annar þeirra er biksvartur og stuttur eins og drumbur, en hinn var hár og grannur með bjart hár og mjög fríður. Sá ljóti var að þefa út í loftið og segja það væri sveitamannalykt, en hinn sagði það væri ekkert í því og so fara þeir. Þegar komin er mið nótt heyrir hann undirgang og þá kemur karlinn og dóttur hans með mat. Karlinn segir hann megi til að fara, hann atli að fylgja hönum skemmri og betri veg, hann sonur sinn hafi verið ólmur í gær að leita, en hann hafi komið hönum til að fara að sofa. En á morgun strax þegar birti fari hann að leita.

So fara þeir á stað, en stúlkan heim. Karl segir hönum að yfirgefa pokana og fylgir hönum so á veg og segir að ef hann heyri grenj á ettir, þá munu þeir vera að hindra hann. So þegar hann er lengi búinn að ríða heyrir hann þvílíkt org og grenj á ettir sér og virðist að þeir munu vera að halda hönum og grenji hann af því hann fái ekki að stökkva. Og so fer hann heim í sveit og segir frá öllu og þá voru hestarnir mjög móðir, en hann klipinn hold frá beini á handleggjunum og var so lengi so í handleggjunum að hann gat ekkert gert, en smábatnaði so. Endar so þessi saga.