Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Systkinin

Úr Wikiheimild

Einu sinni var bóndi á bæ fyrir norðan; hann átti tvö börn, son og dóttur. Þegar börn þessi voru um tvítugsaldur misstu þau bæði föður sinn og móður og réðust þá í vist til bónda eins þar í sveitinni. Þau voru í vist þessari í nokkur ár. Eitt sinn verða menn þess varir að bóndadóttir þessi er með barni og grunar alla að bróðir hennar muni vera valdur að því. Systkinin fastsetja það með sér að fara úr byggð og strjúka. Þau áttu fjármuni nokkra sem þau höfðu erft eftir foreldra sína og þar á meðal voru þrír hestar. Eitt kvöld lögðu þau af stað og riðu tveimur hestunum, en höfðu áburð á einum. Þau héldu til fjalla alla nóttina, en undir daginn tóku þau hvíld í dalverpi nokkru. Var nú leitað að þeim úr byggðinni þenna dag, en fundust ekki. Þegar systkinin höfðu hvílt sig litla stund halda þau áfram ferð sinni sem þau geta og stefna alltaf til óbyggða. Loksins koma þau að dal nokkrum. Þeim virðist hann fagur mjög og grasgefinn og rennur á eftir dalnum. Í þessum dal fastsetja þau að taka sér bólfestu. Grafa þau jarðhús hjá ánni og búa um sig í því. Hefur bróðirinn þar starf um daga að hann veiðir silung í ánni og var mikil gnægð af honum. Hafa þau nú lítið annað að lifa á en silung, en af honum hafa þau nóg.

Nú kemur að því að bróðirinn fer kaupstaðarferð; er systirin ein í jarðhúsinu á meðan. Þá fæðir hún barn og gengur það vonum betur, og er það falleg stúlka. Nú er það af bróðurnum að segja að hann hefur litla kaupstaðarvöru, og fyrir vöru þá sem hann hefur kaupir hann ekki annað en við; kemur hann nú heim aftur og finnur systur sína heilbrigða og barnið. Býr hann nú til dálítið hús og flytja þau sig í það úr jarðhúsinu. Um sumarið starfar bróðirinn ekki annað en að veiða silung úr ánni og veiðir hann ágætlega vel, svo að þau hafa ekki einungis nóg sér til fæðis, heldur afgang mikinn af silung sem hann herðir. Um haustið gengur hann á fjöll þangað til hann finnur kindur. Hann tekur eina á, einn hrút og eitt lamb, skrifar mörkin hjá sér á kindum þessum og rekur síðan heim í dalinn og setur þær á vetur.

Nú líður veturinn og sumarið kemur. Þá fer hann í kaupstað og hefur ekki aðra vöru en hertan silung. Hann kaupir ekki annað en við eins og fyrra árið; þetta gengur nú svona nokkur ár. Hann kaupir lengi ekkert annað en við í kaupstaðnum og hýsir nú fallegan og lítinn bæ. Hann hefur þil á hverju húsi og lætur öll þilin vera í röð, en innangengt hefur hann í öll húsin að innan. Hann byggir og fjárhús mörg, væn og lagleg; þurfti hann þess nú með því undan hrútnum og ánni var hann búinn að koma upp mörgu fé sem seinna skipti hundruðum. Var honum því hægra að koma fénu upp sem hann gat látið það ganga gjafarlaust á dalnum allan veturinn. Það er mælt að þegar hann var búinn að koma upp nokkrum kindum þá tók hann úr fé sínu einn hrút, eina á og eitt lamb og markaði undir sama mark og á þeim kindum var er hann í fyrstu tók af fjallinu og rak svo kindur þessar heim undir byggð.

Líða nú mörg ár svo að ekki ber til tíðinda. Víkur nú sögunni í byggðina. Eitt haust eru heimtur svo slæmar að menn muna ekki þvílíkar og þó leitað sé víða finnst ekki féð. Maður er nefndur Sigurður; hann var vinnumaður á bæ einum í byggðinni; hann var ofláti mikill og þóttist flestum mönnum meiri. Hann kveðst nú ekki þola lengur yfir þessum slæmu heimtum manna og segist muni ganga á fjöll og leita; kveðst hann varla trúa því að hann fari ónýtisferð. Gengur hann síðan til fjalla og leitar lengi. Loksins lendir hann í kafaldi og þoku svo hann veit ekki hvert hann fer. Eftir langa göngu kemur hann að dal nokkrum; sér hann að klettabelti umgirðir dalinn svo hann kemst ekki ofan í hann; þó kemst hann loksins ofan einstig eitt. Þá sér hann bæ einn fallegan í dalnum. Hann gengur að bænum; kemur þá ung stúlka og falleg til dyra. Hann biður hana skila til húsráðanda að hann biðjist gistingar. Fer hún þá inn, en kemur jafnskjótt og segir hann fái að vera; hún vísar honum í hús sem er afsíðis í bænum; hún sækir handa honum mat og færir úr vosklæðum, vísar honum á rúm, og háttar hann þar og sofnar.

Um morguninn kemur til hans gamall maður og heilsast þeir. Gamli maðurinn segir að það sé sér að kenna að hann sé hingað kominn; segist hann hafa villt hann hingað í þokunni því sig hafi langað til að fá fréttir úr byggðinni; „vildi ég að þú yrðir nú hér í vetur,“ segir hann, „því ég treysti mér ekki að koma þér til byggða í haust“. Tekur Sigurður því nokkuð dauflega, en þó verður það úr að hann verður þarna um veturinn. Gamli maðurinn er úti alla daga um veturinn að gegna fé sínu og verður Sigurði aldrei að vegi að hjálpa honum til og ekkert handarvik gjörir hann allan veturinn.

Þegar líður að sumarmálum fer Sigurður að hafa orð á að nú vilji hann komast heim, sér sé nú farið að leiðast hér. Gamli maðurinn segir honum að nú geti hann farið þegar hann vilji og kveðst skuli sjá um að hann komist klaklaust til byggða. Leggur Sigurður nú af stað og upp úr dalnum og á fjöllin. Hann fær þoku mikla og veit ekkert á hvaða vegi hann er. Þegar hann hefur gengið nokkra daga kemur hann þó í byggð og þar í byggðina sem hann átti heima. Héldu allir hann löngu dauðan. Menn spyrja hann tíðinda, en hann kvaðst hafa verið hjá fjallaþjófum í vetur, og fé því sem menn hafi vantað í haust eð var hafi líklegast fjallaþjófar stolið. Menn biðja hann að vísa sér til fjallaþjófanna, en það kveðst hann ómögulega geta. Er nú ekki frá sagt þangað til líður að næsta hausti, þá verða jafnslæmar heimtur ef ekki verri en hið fyrra haustið. Eru oft leitir gjörðar, en það kemur fyrir ekki.

Bóndason er nefndur til sögunnar, Jón að nafni. Hann er stilltur maður og vinsæll, fáskiptinn og þrautgóður. Hann vill nú gjöra langa leit á fjöllin, en þó ráða foreldrar hans honum frá því. Verður það þó úr að hann fær sér nesti og nýja skó og leggur af stað; leitar hann lengi um fjöll og heiðar, en finnur ekkert fé. Einn dag fær hann þoku mikla og kemur að áliðnum degi að fallegum dal; hann finnur einstig ofan í dalinn og fer hann þar ofan. Þá léttir frá þokunni og sér hann sólskin bjart í dalnum. Hann sér að dalurinn er vafinn í grasi og að á rennur eftir miðjum dalnum og að vel hýstur bær stendur við ána. Hann gengur að bænum og ber að dyrum. Þar kemur stúlka til dyra og lízt honum vel á stúlkuna. Hann biður hana skila til húsbónda að hann biðjist húsa; fer stúlkan þá inn, kemur þegar aftur og segir að hann fái að vera. Hún vísar honum inn og í hús eitt lítið og fer síðan út. Um kvöldið færir stúlkan honum mat, lætur hann hátta og tekur sokka hans og skó. Sefur nú Jón allvel um nóttina.

Um morguninn kemur til hans gamall maður; hann spyr á hvaða ferð hann sé. Jón kveðst vera að leita að fjallafé, því í haust hafi verið slæmar heimtur í sinni sveit. Gamli maðurinn segir að það sé sér að kenna að hann sé hingað kominn; segist hann hafa villt hann hingað, ekki af því að hér sé afréttarfé bænda, heldur af því að sig hafi langað til að fá til viðtals vænan mann úr sveit. „Vil ég nú helzt að þú sért hér í vetur því örðugur er nú vegur til byggða og misjafnra veðra von.“ Það kveðst Jón ekki þora því foreldrar sínir muni undrast um sig. „Það mun ég sjá um að ekki verði til muna,“ segir hinn gamli maður. Þeim talast þá svo til að Jón verður þarna um veturinn. Kann hann vel við sig og hjálpar gamla manninum allan veturinn við inni- og útistörf. Líður svo veturinn og að sumarmálum fram. Kemur þá gamli maðurinn eitt sinn að máli við Jón og mælti. „Hefurðu heyrt getið um að systkin tvö hafi nokkurn tíma horfið úr sveit þinni?“ „Jú,“ mælti Jón, „heyrt hef ég um það talað, en langt er síðan; það mun líklega hafa verið fyrir mitt minni.“ Gamli maðurinn spyr hvað menn hafi haldið að af þeim hafi orðið. „Um það eru ýmsar getur,“ mælti Jón; „halda sumir að þau hafi dáið, en sumir að þau hafi lent hjá útilegumönnum.“ Gamli maðurinn mælti: „Ég og kvenmaður sá fullorðni sem hjá mér er erum nú systkin þau er þá struku úr byggð; höfum við lifað hér síðan góðu lífi og er stúlka sú sem þú hefur hér séð dóttir okkar. Ég er nú kominn að fótum fram og mun skammt eiga eftir ólifað; skaltu nú vita að dóttir mín er þunguð af þínum völdum og vil ég að þú farir nú heim, en bið þig að koma aftur í haust og eiga þá dóttur mína og allt það fémætt, dautt og lifandi, sem hér er; kalla ég þá dóttur minni vel borgið enda hefur mig langað til að útvega henni vænan mann áður en ég dæi. En þess bið ég þig að sjá um systur mína og útvega mér góðan legstað þegar ég dey.“

Skildu þeir nú talið og fer Jón heimleiðis; segir gamli maðurinn honum vel til vegar. Finnur Jón foreldra sína og höfðu þau ekki orðið nærri eins hrædd um hann og hann hafði hugsað. Hann segir þeim ráðagjörð sína og líkar þeim allvel. Um haustið fer hann í dalinn og er honum þá einkar vel fagnað; er nú ekki öðruvísi frá sagt en að Jón flytur allt sem í dalnum var, dautt og lifandi, til byggðar. Hann heldur brúðkaup sitt til stúlkunnar, tekur sér jörð og fer að búa. Fram af þessu deyr hinn gamli maður og lætur Jón jarða hann í kirkjugarði og gjörði heiðarlega útför hans. Jón og kona hans unnu hvort öðru hugástum til elli, áttu börn mörg og bezta bú, og lúkum vér svo sögu þessari.