Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Tómasar saga

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tómasar saga

Það var ofanverða 18. öld að maður sá bjó að Ytra-Vallholti í Vallhólmi er Jón hét Gíslason, merkur og réttorður. Hafði hann verið uppalinn á Refsstöðum á Laxárdal í Húnaþingi; réri hann um tvítugsaldur vestur undir Jökli við Hellna. Kynntist hann þar við karl einn alleinrænlegan og gjarnan á einveru, og ætluðu menn hann fróðan. Jón var fræðigjarn og kom að finna karl þenna, er Tómás hét.

Var það þá eitt sinn að Jón spurði karl hvert hann héldi útilegumenn enn til vera aðra en Fjalla-Eyvind er öllum var ljóst að úti lá. Karl kvað því ei fjarri að fleiri mundi til vera en Eyvindur og sagði honum til þess sögu þessa, að faðir sinn hefði búið að bæ þeim er Steindalur hét upp í Fagraskógarfjalli og bjó Tómás þar eftir föður sinn þegar á unga aldri, svo hann hafði sjö um tvítugt. Var það vani hans að bæla fé sitt á túni er haustaði.

Var þá um haustið að hann vaknaði um birtingu og sá lítinn snæ fallinn á glugg. Hljóp hann út, tók klofakerlingu sem kölluð er, er hann var vanur við að ganga, fór til fjárins því styggð hafði að því komið, taldi féð og var þá vant tólf sauða. Sá Tómas þá slóð sauðanna og mannsspor, líkust því á loðskóm hefði gengið verið. Tík hvít rann með Tómási. – Elti hann slóðina sem hann mátti og mundi þá nær hádegi er hann sá mann reka sauðina. Bar þá svo til að hann rak þá á hæð litla eður háls. Tómás komst til hliðar fram fyrir hálsinn og á móti þeim er sauðina rak og sendi þá tík sína á þá, og elti hún þá sömu slóð til baka. Gekk þá komumaður móti Tómási og reiddi upp staf mikinn er hann gekk við, en Tómás rann undir höggið. Glímdu þeir langa hríð áður komumaður tók að mæðast því Tómási sýndist hann við aldur. Varð Tómás þess var að kníf mundi hann hafa í ermi sinni því jafnan sótti hann að honum, en Tómás varðist knálega; sagði Tómás að þrjár gerði hann atrennur og svo ákaflega að hann froðufelldi, en svo lauk að hann féll, en eigi vildi Tómás frá segja hversu hann hefði á honum unnið, en kvaðst gengið hafa til Kolbeinsstaða og skilið þar eftir stafinn og sagði Jóni að þar væri hann þá enn, hefði og enginn getað eftir honum lýst. En er komumaður væri fallinn hefði hann hljóð mikil sem einhvern vildi hann láta til sín heyra. Gat síðan Tómás um viðburð þennan svo yfir tuttugu manns fóru að gæta hræsins. Fundu þeir traðk og blóð í traðkinu, en eigi líkið, en fimm eða sex manna spor lágu út úr traðkinu og slóð eftir nokkuð er dregið hafði verið, líkast hrossi.

Það sagði Tómás að maður sá er hann fékkst við væri á skinnfötum einum og svo var Tómás þrekaður eftir viðureign þeirra að hann lá nær rúmfastur hálfan mánuð. Var til getið að útilegumenn þessir væru austan af heiðum.