Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Um útilegumenn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Um útilegumenn

Ég spurði að því í blaðinu í fyrra hvort nokkrir útilegumenn mundu vera til eða ekki og því hefur aldrei svarað verið. Ég ætla því nú að rita um það álit mitt því betra er seint en ekki.

Sögur þær er ganga um allt land um útilegumenn eru hin helzta sönnun fyrir því að þeir séu til. Menn hafa þótzt komast í tæri við þá og farið um það mörgum orðum hvernig háttsemi þeirra væri, geðslag og aðbúnaður. En þó hafa allar útilegumannasögur einn blæ á sér og er það hugmyndin um það hvernig þeir mundu vera ef þeir væru til sem skapað hefur blæ þenna. Ég ætla nú ekki að hrekja sögur þessar því engi hefur enn sannað að þær væru í raun og veru sannar. Önnur ástæða fyrir því að útilegumenn séu til er sú að svo mikið af miðju landinu er ókunnugt og óskoðað að mestu. Hin þriðja ástæða er sú að sveitamenn heimta oft illa á haustum og þykir þá líkast að fjallabúar muni hafa stolið fé því er vantar. Þetta eru nú helztu ástæður manna fyrir því að útilegumenn séu til og má hver rengja þær sem vill fyrir mér. En það ætla ég að fleiri hlyti að verða varir við útilegumenn en er ef þeir væru til og að eigi sé mikið land í óbyggðum byggilegt og hvergi er það nema ef það væri í Vatnajökli eystra. Það ætla ég og að svo mikið land sé enn dulið milli jöklanna að fé bænda gæti villzt þangað og drepizt þar á vetrum. Það er því ætlan mín að engi útilegumaður sé nú til á Íslandi og engi útilegumaður geti verið þar til. En vissasta ráðið til að ganga úr skugga um þetta væri það að kanna allar óbyggðir og það vildi ég að gjört væri hið fyrsta.