Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Útilegumannasögur/Upp mínir sex í Jesú nafni

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Upp mínir sex í Jesú nafni“

Eitt haust fóru menn í eftirleit. Var fyrirmaður ferðarinnar hraustmenni og fullhugi mikill. Þegar þeir voru komnir í fjarlægustu leitir hrepptu þeir byl svo þeir villtust og vissu ekki hvar þeir fóru. Eftir langan tíma fundu þeir að halla tók undan fæti. Komu þeir þá í dalverpi eitt og fundu því næst bæ fyrir sér; börðu þeir að dyrum. Karl einn kom til dyra, ljótur mjög og illilegur. Kvað hann það nýlundu að menn sæktu til byggða sinna og forvitnuðust um þær, og leit hann óhýru auga til gesta. Foringi þeirra varð fyrir svörum. Sagði hann hvernig á því stóð um ferðir þeirra. Brauzt hann inn og þeir félagar hans með honum án þess karl gjörði að leyfa það eða banna. Þegar þeir höfðu setið um stund var þeim borið kjöt á skálum; gjörði það kona ein ungleg, en döpur mjög. Stóð karl á meðan í skáladyrum. Hún sagði í hálfum hljóðum: „Borðið þið við þann barminn sem frá ykkur snýr.“ Þeir þóttust sjá að við þann barminn var sauðakjöt, en mannakjöt við hinn. Síðan bar stúlkan af borði og dró af þeim vosklæði. Sagði hún þá enn í hálfum hljóðum: „Verið þið varir um ykkur, farið ekki af nærklæðum og sofnið ekki.“

Um nóttina var tunglskin. Svaf forsprakki eftirleitarmanna í rúmi sem skugga bar á og sagði hann lagsmönnum sínum að þeir skyldu ekki bæra á sér hvað sem á gengi fyrr en hann kallaði til þeirra. Stundarkorn eftir að þeir voru lagztir niður kom karl inn. Gekk hann að rúmi eins og þreifaði á brjósti hans og sagði: „Magurt brjóst, þreklaust.“ Þannig tók hann á þeim öllum og tautaði líkt fyrir munni sér. Seinast kom hann að rúmi forsprakkans og þegar hann tók á honum mælti hann: „Feitt brjóst, hugmikið.“ Síðan brá hann sér út í horn og greip þar öxi og snéri að rúmi foringjans. Sá hann hvað verða vildi og vatt sér ofan úr rúminu, en karl hjó í rúmið og missti hans. Greip maðurinn þá öxina og náði henni af karli. Karl æpti þá og mælti: „Upp mínir tólf í andskotans nafni.“ Maðurinn færði þá öxina í höfuð karls svo í heila stóð og hann féll, og mælti: „Upp mínir sex í Jesú nafni.“ Þá opnaðist hurð í gólfi niðri og kom upp mannshöfuð, en hinn hjó það af. Banaði hann þeim þar öllum tólf í kjallaradyrunum.

Síðan fundu þeir kvenmann þann er hafði þjónað þeim til sængur um kvöldið. Var hún bóndadóttir úr Eyjafirði er karl hafði stolið og vildi neyða til að eiga elzta son sinn. En henni stóð stuggur af þeim, mest fyrir þá sök að þeir drápu alla er villtust til þeirra, og átu þá. Mikið fundu þeir þar fémætt og margt sauðfé var í dalnum. Réðist það af að foringi eftirleitarmanna varð eftir við annan mann stúlkunni til skemmtunar og til að gæta fjárins, að það félli ekki um veturinn fyrir það að það væri óhirt. Hinir eftirleitarmenn fóru heim. Um vorið flutti maðurinn stúlkuna norður og átti hana síðan að ráði föður hennar. Flutti hann síðan allt það sem í afdalnum var norður og reisti stórt bú og bjó þar vel og lengi.