Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ámundi galdramaður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ámundi galdramaður

Ámundi hét galdrasnápur nokkur á Kötlustöðum í Vatnsdal. Vissi hann lítið í kunnáttu sinni, en fór illa með til að hrekkja og hræða fólk. Einhvern tíma hitti hann mann sem var að leita að fé; skaut hann þá göngustaf sínum aftur á milli fóta sér og narraði manninn til að setja sig á stafinn fyrir aftan sig; reið hann svo á stað og fram af Kötlustaðaklettum; lá þá manninum við öngviti enda hafði Ámundi gjört þetta til að hræða hann. Af völdum Ámunda er mælt að smalamaður hafi líka orðið úti á Sauðadalsdrögum, á veginum fyrir Axlir, milli Vatnsdals og Svínadals. Þykir þar síðan vandratað í myrkri og kafaldi því draugurinn villir menn.

Um þessar mundir bjó ekkja nokkur á Guðrúnarstöðum; að henni sótti Ámundi nú með göldrum sínum; gjörði hann það af illmennsku og rælni því engar sakir átti hann við ekkjuna; hafði fólkið á þessum bæ engan frið á sér og sumir segja að maðurinn sem úti varð á Sauðadalsdrögum væri þaðan. Nágrönnum Ámunda fór nú að standa stuggur af; fengu þeir þá Jón frá Hellu að norðan (úr Svarfaðardal?) á móti honum. Jón þessi hafði numið galdur að Sigurði á Urðum er sífellt fékkst við ristingar og rúnir (rýndur mun vera af rún). Það er sagt um hann að fingur hafi kalið af honum og hélt hann þá keldusvínsfjöðrinni með töng og skrifaði svo galdrarúnir og þegar hann dó reið hann út um sveitir á líkkistu sinni. Aftur segja aðrir að Sigurður þessi og Jón hafi átzt glettur við, en hvorugur unnið á öðrum. Jón kom nú vestur að Guðrúnarstöðum að kvöldi dags. Sá hann þá hvar beljandi graðungur kom og stefndi á hann, en hann hleypti mórauðum rakka undan hempulafi sínu á graðunginn og snéri hann þá undan. Jón var um kyrrt í þrjá daga. Sendi hann þá enga sendingu frá sér, en Ámundi sendi honum þrjár, og tók Jón þær allar; hafði Ámundi þá ekki fleiri til. Seinasta sendingin var fluga; settist hún á askbarm hjá Jóni þegar hann var að drekka mjólk. Greip Jón hana og magnaði og sendi svo Ámunda aftur. Um daginn var elduð súpa á Kötlustöðum; datt hælrófubiti niður hjá konunni þegar hún ætlaði að láta hann í ask Ámunda. Bar fluguna að í þessu og skreið hún inn í bitann; greip konan upp bitann aftur og lét hann í askinn. Ámunda þótti bitinn góður, gætti sín ekki og gein yfir honum, en í sama bili flaug sendingin upp í hann. Gaus þá blóð út af nösum og munni Ámunda og var hann þegar dauður. Jón var sæmdur góðum gjöfum af Vatnsdælum og snéri svo heim aftur.