Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ásmundur á Austur-Skálanesi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ásmundur á Austur-Skálanesi

Það er ogso sagt að þegar Björn sýslumaður var á Burstarfelli að þá hafi í Austur-Skálanesi búið bóndi að nafni Ásmundur og hafi átt að vera göldróttur. Svo er sagt að eitt vor hafi kaupskip komið inn á Vopnafjarðarlegu og heitið Bokkan. Er sagt Ásmundur hafi verið miður góðgjarn og sumir segja undirstunginn af sýslumanni – því hans og kaupmanna hafi [verið] fátt í milli – að gjöra galdraveður að skipinu. Nokkuð er það að skipið slítur upp og rekur upp á sker sem enn heitir Bokkusker, og brotnar. Skipverjar komast allir af og er sagt að þeir komist á snoðir um hvör valdið hafi óförum þeirra, nefnilega Ásmundur. En Ásmundi þykir gott brennivín. Nokkrum dögum síðar er hann í krambúð og skipverjar líka og eru í mestu kátínu að skrafa við Ásmund og gefa honum brennivín. Seinast þegar hann ætlar á stað byrla þeir honum í staupi sem hann ogso setur í sig, og fer síðan á bak og á stað, en þá standa þeir hlæjandi eftir á plátzinu og segja: „Ásmundur ríður í dag, en hann ríður ekki á morgun.“ Þetta varð og, Ásmundur komst inn á klifið og féll þar dauður af hestinum því þeir létu eitur í síðasta staupið. Sýslumaður tók til sín allt strandið og byggði úr því mikinn bæ og fríðan á Burstarfelli er síðan brann.