Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ástagaldur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Ástagaldur

Nálægt 1820 voru á bæ einum í Eyjafirði unglingsmenn tveir að læra galdur. Eitt kvöld í rökkrinu kemur annar þeirra inn, gengur að stúlku sem þar er og kyssir hana rembingskoss. Henni kom þetta nokkuð undarlega fyrir, einkum þar henni heyrðist eitthvað hringla uppi í manninum, og þykist líka finna einhverja breyting á sjálfri sér. Harkar hún sig þá upp og segir: „Sé hér nokkuð verið að bekkjast við mig, skal það lenda á gimbrinni á gólfinu;“ því þar var bæði lambhrútur og lambgimbur. Brá þá svo við að gimbrin varð óð-blæsma og linnti ekki látum við hrútinn allt kvöldið. Þegar stúlkan sá hvernig við brá, en af henni sjálfri hvarf strax ástríðan, gekk hún svo hart að manninum að segja sér hver brögð hann hefði ætlað að hafa að hann játaði henni að hann hefði haft blýplötu með áristum galdrastaf undir tungurótunum og þannig útbúinn kysst hana til þess að geta náð hylli hennar.

Það er frá því sagt um suðurferðamann einn að það var venja hans þar sem hann gisti á bæjum, að gefa fólki bita af nesti sínu. Eitt sinn gistir hann á einum bæ og gerir sem hann er vanur; meðal annars gefur hann laglegri stúlku sem þar er dálitla brauðköku. Hún tók feginsamlega við kökunni, en í laumi brytjar hún hana alla niður og gefur tík sem þar er á heimilinu. Nú er háttað, en um það bil sem fólk er sofnað kemur tíkin að rúmi ferðamannsins og sækir á að komast upp í rúmið til hans; gengur svo alla nóttina. Um morguninn snemma hafði hann sig á stað og segir ekki meira af honum.