Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Átta herramannsdætur

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni herramaður; hann átti átta dætur. Hann hafði líka átta vinnumenn. Þeir voru oft að tala um það sín á milli hvað þeim fyndist að þeir vera máttvana og niðurdregnir daglega. Einn þeirra átti sér góðan kunningja þar á næsta bæ, skammt frá slotinu. Hann kemur einu sinni til þessa kunningja síns og leiðir nú þetta meðal annars í tal við hann og segist ekki vita hvörnin því sé varið hvað sér finnist hann þróttlaus til þess að gjöra nokkuð þó hann verði að þvinga sig til vinnu daglega; og svona séu þeir allir samþjónar sínir að þeir geti valla hrært sig fyrir einhvörju sleni. „Ja, það veit ég ekki heldur,“ segir hinn, „hvörnin það kemur til nema ef það væri lögð gandreið við ukkur sofandi svo þið fengjuð ekki að hafa næði á nóttunni.“ „Gandreið?“ segir vinnumaður, „hvörnin er hún?“ „Það skal ég segja þér,“ segir hinn; „það er skinnbeizli flegið af dauðum manni og hvör hlutur sem það er haft mátulegt á og maður leggur það við verður að hesti; hvört það er hrosshaus, leggir eða eitthvað annað þá má ríða því með beizlinu hvört sem maður vill. Sama er sé það lagt við sofandi mann, þá má ríða honum svo hann viti ekki af, því hann getur ekki vaknað meðan beizlið er á honum. Að sönnu má ríða vakandi manni með því líka, en hann getur smeygt fram af sér þegar hann vill.“ Þetta þókti vinnumanni minnileg saga. Kunningi hans segir að hann skuli nú ekki geta um þetta við neinn mann; en hann skuli nú einhvörja nóttina bera sig að hafa á sér andvara og sofna ekki. Vinnumaður hugsar nú eftir þessu sem kunningi hans sagði og hefur nú á sér andvara strax næstu nótt eftir. Vinnumennirnir sváfu allir í sama herbergi.

Nú þegar þeir eru allir nýsofnaðir um kvöldið þá sér hann hvar herramannsdæturnar koma inn til þeirra með sitt skinnbeizlið hvur og ganga hljóðlega sín að hvörju rúmi og fara nú að beizla vinnumenn föður síns; og ein kemur nú til hans og leggur við hann beizlið. Hann lézt vera sofandi eins og hinir og lofaði henni að beizla sig. Nú stigu þær allar á bak og þeysa nú stundarkorn þangað til þær koma að einum herramannsgarði. Þar fara þær af baki við einar prýðilegar húsdyr og skilja hestana þar eftir með beizlunum, en ganga sjálfar inn. Þessi vinnumaður sem vakandi var smeygði sem fljótast fram af sér og læddist inn á eftir þeim. Hann sér þær koma þar inn í vel um búið herbergi. Þar eru átta kallmenn hvur í sínu rúmi. Þeir heilsa herramannsdætrum vinsamlega og þær þeim. Svo fara þær allar upp í sængurnar sín hjá hvörjum þeirra og fara þar nú að sofa. Vinnumaður fer nú út aftur til stallbræðra sinna og smeygir fram af þeim öllum, vekur þá og segir þeim frá því hvört þeir séu komnir og hvörnin á öllu standi. Þeir undruðust nú yfir því að vakna þarna og þökkuðu vinnumanni fyrir. Hann segir að þeir skuli nú allir fara inn með beizlin og leggja þau við herramannsdætur þegar þær væru sofnaðar og gjalda þeim líku líkt. Já, þeir segja þetta sé vel til fundið; þær séu þess verðugar. Nú þegar allt var sofnað þá læðast þeir inn að rúmunum til herramannsdætra og beizla þær. Svo teyma þeir þær nú út og fóru þar á bak og gjörðu sér so dálítinn afkrók þaðan og til næsta bæjar, vöktu þar húsbóndann og báðu hann að selja sér nú skaflajárn undir hestahræin sín sem allir séu kvikugengnir, en eigi þó nokkuð langa leið að fara. Húsbóndinn fær þeim strax járnin og svo voru þeir nú ekki lengi að reka þau undir hestatötrin. Svo dóluðu þeir nú þaðan þarna og þangað sem kunningi vinnumanns sem fyrr er getið átti heima. Vinnumaður segir honum nú frá öllu eins og farið hafði og spyr hvört nokkuð muni verða haft á því hvað þeir hefðu nú illa farið með dætur herramannsins. Nei, það segir hinn ekki verði, af því að þær hefðu áður breytt svo skammarlega við þá, en þeir verði að segja frá öllu eins og sé. Vinnumaður segir að þeir hefðu nú ekki ætlað að þegja yfir háttalagi þeirra. Svo riðu þeir nú heim og fóru inn með klárana og lögðu þá upp í sængur þeirra; tóku svo fram af þeim og gengu út með beizlin.

Um morguninn var kominn upp ljótur kvittur: að herramannsdæturnar væru allar skaflajárnaðar, en vissu þó ekki hvörnin á því stæði. Herramaður kallar á vinnumenn sína og spyr þá hvört þeir viti ekkert til þess hvörnin dætur sínar séu illa komnar. Jú, þeir segjast vera valdir að því og segja honum nú allt eins og var fyrir hvörja sök þeir hefðu farið sona með þær. Herramaður verður hissa af þessum sögnum, en heldur þar hjá að þeir skrökvi þessum óhróðri á dætur hans. So gengur hann nú til þeirra systra og segir þeim hvað vinnumenn hafi sagt sér um þær og spyr hvört þeir hafi satt að mæla, en þær segja það allt saman bannaða lygi. En af því herramanni sýndist þeim bregða þá gekk hann harðlega á þær þangað til þær máttu gangast við breytni sinni við vinnumennina, og svo framvegis. En svo varð faðir þeirra þeim reiður að hann rak þær allar burtu frá sér og taldi þeim þetta maklega pynting fyrir lifnaðinn. En vinnumennirnir unnu slenlaust verk sín eftir þetta.