Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ævilok Jóns

Úr Wikiheimild

Jón svonefndur glófaxi bjó á Galtará í Gufudalssveit, átti í óvinskap við Bjarna bónda á Klett í sömu sveit. Hann sendi eitt sinn vinnupilt sinn til Bjarna á Klett með duluvafning sem reifastranga margfjatraðan og fyrirbauð hönum að leysa bönd hans. Strákur komst að Fjarðarhorni með sending þessa. Þar var enginn heima nema bóndadóttir á hlaðinu. Þá kom forvitni að sendimanninum að vita hvað í vafningnum væri, og þá hann var búinn að leysa þennan margfjatraða bagga hljóp úr hönum svört flygsa sem undireins hljóp á stúlkuna svo hún varð strax óð, en strákur fór heim til sín sneyptur. Þennan vonda anda sem á stúlkuna hljóp útrak sá nafnfrægi prestur síra Sigurður á Brjámslæk og var afi minn þá viðstaddur í Lækjarkirkju, svo hann sá og heyrði hvað fram fór. Og hann sem aðrir sáu þá andinn yfirgaf stúlkuna að skreið sem vængbrotinn hrafn út úr kirkjunni og prestur fór á eftir og var góða stund úti. Stúlkan féll í óvit, en réttist þó við og varð jafngóð upp frá því.

Litlu síðar hittust þeir Bjarni og Jón við kirkju. Hafði þá Bjarni, sem var hetja mikil, á orði að stíga á háls á Jóni, en Jón hljóp fyrr en varði út úr kirkjunni og þeir sáust aldrei eftir það, því Jón strauk frá konu og börnum norður í Ísafjarðarsýslu og hélt sig þar um veturinn, en sókti konu og börn á náttarþeli vorið eftir og fluttist hingað í Nessveit, hvaðan hönum var þó seinna stjakað fyrir galdur og fékk hann þá hæli á Litlafelli í Kollafirði hjá sýslumanni Halldóri Jakobssyni sem keypti af hönum fyrir tóbakspund að sýna sér hvurnin hann færi að vekja upp. Jón gjörði það. Þeir fóru báðir eitt kvöld út í kirkjugarð. Jón sló á nokkur leiði með sprota þar til hann hélt sig færan um að ráða við það sem undir lá sem var hölt kerling að nafni Þuríður (og þekktu gamlir menn hana, en Halldór sagði greinilega frá öllu sem fram fór). Þessa kallaði hann upp og Halldór sá miklar eldglæringar upp koma og kellinguna á eftir og hönum heyrðist hún segja: „Hvað á ég að gjöra?“ Hann svarar: „Niður aftur!“ Þá hljóp hún á hann. Halldór varð hræddur og bauð Jóni að gefa hönum annað tóbakspund til að koma þessum ófögnuði niður aftur og hljóp sjálfur inn í stofu, tók korða sinn og gekk um gólf hræddur, horfandi í gluggann sem sneri móti garðinum. Loksins kom Jón inn þjakaður mjög, komst upp í kotið, lagðist strax og lá viku. Eftir það hann var heim kominn að Litlafelli lagðist hann og lá viku. Seinasta kvöldið dó eldur í kotinu. Fór þá konan ofan að Felli að sækja eld. Börnin lágu í rúmi á loftinu, en Jón var í rúmi á palli. Börnin sáu þá koma svartan mann upp á pallinn að rúmi Jóns, og laut ofan að honum. Þau urðu ákaflega hrædd og breiddu upp yfir höfuðið. Kom þá móðir þeirra með eldinn og var þá Jón dauður. Það þótti mönnum óvenja að mikill hrafnafjöldi settist á þak baðstofunnar og rifu þakið eins og þá þeir leita að ormum í mosajörð.