Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ólafur strákur

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar Þórður[1] prestur var á Grenjaðarstað var lærður maður í Múla sem Ólafur hét og tíðast kallaður strákur og var hinn rammasti galdramaður, svo hann kvað hafa sagt að hann treysti sér til að varast allan galdur nema þann sem kæmi ofan yfir höfuðið á sér.

Hjá Þórði presti var vinnumaður sem Þorvaldur hét og var giftur maður. Hann átti illdeilu við Ólaf í Múla út af hestum og vegnaði Ólafi miður, og stuttu þar eftir sendi hann Þorvaldi draug; hann kom að honum um nótt, en Þorvaldur svaf fram í skála með konu sína og eitt barn og þar óð þessi gestur að honum í rekkjuna. En er draugsi fór að taka til Þorvalds greip konan barnið og komst með það burtu og inn í baðstofu; þar leið hún í öngvit. En er hún raknaði við sagði hún, við hvern ófagnað bóndi hennar átti; var þá farið að vitja hans og var hann dauður, og eftir þetta var fátt með þeim Ólafi strák og Þórði presti. Prestur var orðsár og glettinn, en Láfi stráklyndur og þoldi litlar mótgjörðir, t. d. orkti prestur eitt sinn vísu:

Allir sátu eitt við borð
áður þar í Múla,
lystugur Jón með laukaskorð
og leppurinn hans Skúla.

Í þessari vísu kallar hann Ólaf leppinn hans Skúla, og þessu reiddist Ólafur og loksins sendi hann presti draug nálægt miðjum degi, en svo vildi til að drengur var á baðstofugólfi að berja fisk og hann sá til þegar draugsi kom inn; hann hafði hitt prest úti, er prestur flúði í bæinn og inn í svefnhús sitt og draugur á eftir og þar fyrirkom hann presti, en þegar draugsi fór út aftur sagði hann við drenginn sem hét Jón og kallaður skumpa, þá segir draugsi: „Þú ert þó stórhöggur þó þú sért eigi stór.“ En prestur var andaður og allur blár og marinn og var þá líkinu veittur umbúnaður, en sent var vestur í Otradal eftir Vernharði presti bróður prests Þórðar til að erfa bróður sinn; en þegar hann kom á Skriðuháls svo hann sá yfir að staðnum mælti hann: „Fór hann svona hann Þórður bróðir minn?“ Síðan var erfi drukkið eftir Þórð prest og Vernharður fór vestur aftur heim til sín.

Eftir þetta fór Ólafur að Skútustöðum við Mývatn og bjó þar, og eitt skipti átti hann illindi og áflog við mann að nafni Þórstein, hann átti heima á Reykjum, en Ólafur féll og þá sagði hann: „Þetta skal djöfullinn borga þér.“ Þar eftir nokkru hittust þeir Ólafur; þá mælti hann: „Ekki var von að ég ynni á þér fyrst djöfullinn gat það ekki.“ Þá mælti Þorsteinn: „Hefurðu reynt það, maður?“ – og við það skildu þeir.

Þegar Ólafur hafði nokkra stund verið á Skútustöðum var það einn morgun er hann kom út, hafði örn setið á bæjarburstinni og settist hann á höfuð Ólafi og klóraði hann í hvirfilinn og varð Ólafi meint við. Samt skreiddist hann til rúms síns, en örninn settist upp yfir rúminu úti á þekjunni og hjó þekjuna án afláts með nefinu. Síðan lá Ólafur nokkra daga við mikla pínu; á þeim tíma sendi hann eftir presti sem var merkisklerkur og sat hann hjá Ólafi þar til hann andaðist, og hefir hann svo sagt að þegar Ólafur dó hafi verið svo fullur bærinn af djöflum að það hafi verið sem að vaða þykkvan reykjarmökk, og svo var galdur þessi magnaður að ekki skildu hinir illu andar við kistuna fyr en presturinn kastaði á hana moldinni, þá forlétu þeir hana, og sýndist að logi myrkrauður gaus upp úr gröfinni er þeir fóru. Örninn átti að hafa verið sendur af Vernharði presti.

Sumir segja að Þorvaldur Magnússon hafi verið fenginn til að hreinsa bæinn á Skútustöðum frá þessum draugasæg og hann hafi loksins hreinsað þá burtu með því að gera langeld og – máske – stefna þeim. Sumir segja að þetta hafi verið á öðrum stað við Mývatn.


  1. Þórður Guðmundsson var á Grenjaðarstað 1735-1741, sbr. Dauði séra Þórðar á Grenjaðarstað