Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Óskastundin (1)

Úr Wikiheimild

Sæmundur hinn fróði sagði að óskastund væri á hverjum degi, en ekki nema eina sekúndu (augnabragð) og tækist mönnum því varla að hitta hana. Aðrir segja að aldrei sé óskastund nema á laugardögum einungis.

Einu sinni var Sæmundur í baðstofu þar sem vinnukonur hans sátu. Þá segir hann: „Hana nú stúlkur, nú er óskastundin, óskið þið nú hvers sem þið vilið.“ Þá gellur ein þeirra við og segir:

„Eina vildi ég eiga mér
óskina svo góða:
að ég ætti synina sjö
með Sæmundi hinum fróða.“

„Og dæir þegar þú fæðir hinn seinasta,“ segir Sæmundur því hann reiddist stúlkunni fyrir óskina. Þessi stúlka hét Guðrún og varð hún seinna kona Sæmundar prests. Áttu þau saman sjö sonu eins og hún hafði óskað, en að hinum seinasta dó hún af barnsförum.

Sæmundur geymdi jafnan klæði þau sem Guðrún hafði átt á meðan hún var vinnukona og sýndi henni þau iðulega til þess að lægja í henni rostann því hún var drambsöm mjög af vegi þeim sem hún var komin í. Það er eitt sagt til merkis um drambsemi hennar að einu sinni kom til hennar fátækur maður og bað hana að gefa sér að drekka. Þá segir hún:

„Gakktu í ána, góðurinn minn,
það gjörir biskupshesturinn.“