Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Útisetur á krossgötum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Útisetur á krossgötum

Í fornum lögum eru þeir menn taldir dræpir sem fremja „spáfarar ok útisetur, at vekja tröll upp ok fremja með því heiðni“ og þarf ekki lengra að leita til að sjá af hverjum toga það athæfi er spunnið þar sem hér er auðsjáanlega að ræða um galdur og hegning fyrir hann, enda standa fyrrtöld orð í sambandi við „fordæðuskap“ sem söm hegning lá við í lögum og er þar að auki bersýnilega hið sama og að „leita frétta af framliðnum“ sem Móiseslög banna eins og að fremja særingar. Af þessu athæfi eru nú aðeins litlar leifar eftir í munnmælum og ýmist kallað að „sitja úti á krossgötum“ sem er nær eldra málinu eða „liggja úti á krossgötum“ sem aftur bendir betur á atferli særingamannsins. Á krossgötur ætla ég ekkert sé minnzt til slíkra særinga í fornum sögum og enn síður á „krossgöng“ og að „liggja í krossgöngum“ sem sumir kalla í staðinn fyrir að „sitja eða liggja á krossgötum“ sem er langalmennast orðatiltæki um þetta, en hitt orðatiltækið hefur að líkindum komið upp – ef það er ekki helbert rangmæli – eftir að farið var að setja útiseturnar í nánara samband við álfatrúna en draugatrúna sem þó hefur verið miklu upphaflegra og þessa athæfis neytt til þess að vekja upp drauga, ekki til að senda þá, heldur til að leita frétta af þeim og fyrirsagna um óorðna hluti. Eins og tvímæli hafa orðið á um staðinn þar sem bæði er sagt að „liggja á krossgötum“ og „í krossgöngum“ þó hið síðara sé miklu sjaldheyrðara, eins er ýmist sagt að það skuli gjöra á nýjársnótt (gamlársnótt) eða á Jónsmessunótt. Hið fyrra er almennast og skyldast bæði draugatrúnni og álfatrúnni.

Nú er að víkja á athæfið sjálft og taka sem gefið krossgötur og nýjársnótt sem stað og stund. Sá sem ætlaði sér að sitja úti til frétta þurfti að búa sig út á gamlárskvöld og hafa með sér gráan kött, grátt gæruskinn, rostungshúð eða öldungshúð og öxi. Með þetta allt skyldi særingamaður fara út á krossgötur sem lægju allar hver um sig beina leið og án þess að slitna til fjögra kirkna. Á gatnamótunum sjálfum skal særingamaður liggja, breiða vel yfir sig húðina og bregða henni inn undir sig á allar hliðar svo ekkert standi út undan henni af líkamanum. Öxinni skal hann halda milli handa sér, einblína í eggina og líta hvorki til hægri né vinstri hvað sem fyrir hann ber né heldur anza einu orði þó á hann sé yrt. Í þessum stellingum skal maður liggja grafkyrr til þess dagur ljómar morguninn eftir. Þegar særingamaður var búinn að búa um sig á þenna hátt hóf hann upp særingaformála og fyrirmæli þau sem hlýddu til að særa dauða. Eftir það komu til hans ættingjar hans ef hann átti nokkra grafna við eina eða fleiri af hinum fjórum kirkjum sem krossgöturnar liggja að og sögðu þeir honum allt sem hann fýsti að vita, orðna hluti og óorðna um margar aldir fram. Ef særingamaðurinn hafði staðfestu til að horfa í axareggina og líta aldrei út af og tala ekki orð frá munni hvað sem á gekk mundi hann ekki einungis allt sem hinir framliðnu sögðu honum, heldur gat hann hvenær sem hann vildi eftir það leitað frétta af þeim að ósekju um alla hluti sem hann girnti að vita með því að sitja úti.

Frá engum kunna menn nú að segja svo ég viti sem klakklaust hafi komizt frá því að sitja eða liggja á krossgötum, og ekki var svo mikið um að hinum volduga spámanni (?!) Jóni krukk tækist það slyndrulaust. Útisetusögurnar um Jón virðast lúta miklu meir að álfatrúnni en draugatrúnni sem hér skal sýnt og þó lifði Jón öndverðlega á 16. öld. Af því það hefur verið almenn trú hér á landi að huldufólk flytti búferlum á nýjársnótt átti að velja þá nótt til að sitja á krossgötum einmitt til þess að verða á vegi fyrir því. Kemur það þá ekki ferð sinni fram fyrir þeim sem á götunum situr og býður honum mörg kostaboð, gull og gersemar, kjörgripi og kræsingar alls konar. Þegi maðurinn við öllu þessu, liggja gersemarnar og kræsingarnar eftir hjá honum og má hann eignast þær ef hann þolir við til dags.