Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þórður Þorkelsson

Úr Wikiheimild

Fyrir hér um bil sextíu árum var í Vestur-Skaftafellssýslu maður á betliflakki O. G:s: að heiti sem sagði hvör stolið hefði í fjærlægum sveitum með þeirri háttsemi að þegar hann var spurður um það þagði hann nokkra stund og leit út að annari hvorri öxl sér, og þókti því góður gestur.

Líka hafa sögur farið um Þ[órð] heitinn Þork[els]son. [Hann] gat snúið draugum aftur til að gjöra þeim er sendu þá öðrum til skaða það sama er þeir voru sendir til og var svo vitur frá sér að [þó] hann væri í Þórisdal í Lóni vissi hann draug sem kom upp Almannaskarð og var sendur að Stafafelli. Þ[órður] tók þá frískan hest er hann átti og var kominn í bæjardyr á Stafafelli þegar draugsi kom þar, og rak hann erindislausan til baka. Þessi Þ[órður] hefur líklega verið á dögum um aldamót sextándu og seytjándu eða fyrr.[1] Það fylgdi í sögu um hann að hann hefði ekki gjört mýflugu illt með galdri, því síður veglegri skepnu, þó hann kynni níu aðferðir hans.

Fleiri galdramenn voru nefndir er skyldu átt hafa hrafna, hrafnanef, keldusvínanef og fjaðrir þeirra til útréttinga sinna. Stundum áttu þeir að hafa þulið eitthvað í húfur sínar, en margt af þess háttar verkfærum var sagt þeir hefðu látið njóta sakramentismeðala þeirra er þeim var útdeilt.

  1. Þórður Þorkelsson Vídalín (1661-1742), rektor, læknir, fluttist um 1690 austur í Lón og hafði þar umboð konungsjarða.