Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þórshamar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þórshamar

Ef maður hefur Þórshamar getur maður vitað hver stolið hefur frá manni ef maður hefur misst nokkuð. Í hamar þenna skal hafa klukkukopar og skal hann vera þrístolinn. Maður skal herða hann í mannsblóði á hvítasunnudag á milli pistils og guðspjalls. Brodd skal maður og smíða úr sama efni. Þessum broddi pjakkar maður í hamarskallann og segir: „Rek ég í augu Vígföðurs, rek ég í augu Valföðurs, rek ég í augu Ásaþórs.“ Fær þá þjófurinn verk í augun; ef hann skilar ekki aftur því þjófstolna er þessi aðferð aftur viðhöfð og missir þjófurinn þá annað augað, en verði að beita við hann sömu aðferð í þriðja sinn, missir hann og hitt augað.

Önnur aðferð er það að maður stelur klukkukopar úr kirkju milli pistils og guðspjalls og býr sér til úr honum hamar. Þegar maður vill vita hver stolið hefur skal maður taka pappírsblað og draga þar upp á að minnsta kosti mannsauga, en bezt er að draga upp allt höfuðið með báðum augum úr blóði sínu, en hinumegin á blaðið skal maður draga upp galdrastaf þann á blaðið sem þar á við. Síðan skal taka stíl úr stáli og setja enda hans í annað augað, en slá á hinn endann með Þórshamrinum og mæla um leið fyrir munni sér: „Ég geri honum illt í auganu (eða: set úr honum augað) sem stal frá mér.“ Missir þá þjófurinn auga sitt annað eða bæði ef hann gefur sig ekki fram áður.[1]

Dr. Maurer sá Þórshamar hér á landi 1858 hjá húsfrú Björgu ekkju Havsteins kaupmanns í Hofsós. Þann hamar hafði gömul kona í Húsavík gefið manni hennar í ungdæmi hans. Þessi gamla kona hafði verið mjög grunuð um galdur eins og forfeður hennar hver fram af öðrum í gegnum marga ættliði. Hamarinn var úr kopar og ekki vel gerður, en æði gamall að sjá, hér um bil þriggja þumlunga á lengd, með lausu skafti í styttra lagi er stinga mátti í hamarsaugað.


  1. Auk Þórshamars er til önnur aðferð að sýna þjófinn og verður hennar síðar getið í særingum.