Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þjófastefna

Úr Wikiheimild

Til voru og særingar á latínu sem klerkar höfðu við ýms tækifæri og verður ein þeirra síðar sett þar sem rætt verður um kölska. Þess er áður getið að fyrri menn hafi haft ýms brögð í frammi bæði til að vita hver stolið hefði og til að láta þjófa skila aftur stolnu fé. Hér skulu nú standa að lyktum tvær stefnur sem hlýða sín til hvors.

„Það mæli ég fyrir þjófi þeim sem stolið hefur þessum hlut að hann ærist og uppþembist með ærna pínu og hann hafi hvergi frið fyrr hann kemur fram fyrir mig með þann hlut sem hann hefur frá mér stolið. Þar til hjálpi Þór og Óðinn.“ En ef þjófurinn hefur étið þá skal lesa þetta: „Upp skaltu spúa þeim hlut sem þú stalst.

Svo skal búkur þinn
blásast fullur
og innan rifinn
allur vera.
Nú skulu gaula
garnir þínar
og þær allar
innan klórast.
Felli ég á þig
svofelldum orðum
að brjóst þitt og búkur
brennandi veri
sem þig um hjartað
hundar rífandi bíti.
Brjóst þitt ruglist allt og sinni.
Banna ég þér
á bók helga líta.
Kvistur skal þér
úr hálsi koma, verstur strákur,
og skulu þau áhrínsorð
þér til meins standa.
Spú þú nú
eða springdu allur.
Þar til hjálpi
Þór og Óðinn
að þjófur afsaki sig eigi.“

Rist þessa stafi á eik og haf í hendi þér þá þjófurinn kemur:

Þjófastefna