Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þormóður og Bjarni í Munaðarnesi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þormóður og Bjarni í Munaðarnesi

Maður bjó á Kambi sem Árni hét. Hann varð missáttur við bóndann á Munaðarnesi sem Bjarni hét; hann var göldróttur mjög. Fékk þá Bjarni tvo galdramenn í félag með sér. Mögnuðu þeir allir upp draug einn og sendu Árna og lagðist hann í rúmið; þoldi hann hvurki við nótt né dag. Þá bjó Þormóður gamli í Gvendareyjum; var þá maður strax sendur eftir honum. Kom hann sem fljótast hann gat og var hann fluttur undir Stað á Reykjanesi og fékk hann þar rauðan hest vænan og reið hann norður að Bólstað. Þar bjó ekkja sem Þorbjörg hét og var hún sú fjórða í ættlið frá séra Ásgeiri Einarssyni sem var í Tröllatungu.[1] Bjó hún þar með börnum sínum, hét ein dóttirin Guðrún og var hún þá um tvítugs aldur. Sagði Þormóður þeim mæðgum að hann kviði mikið fyrir þessari ferð. Reið hann norður að Kambi og dvaldi þar þrjá sólarhringa; var þá Árna farið að skána. Fór þá Þormóður inn að Bólstað með drauginn um nóttina. En um nóttina vakti Guðrún á Bólstað og sá hún mann koma ofan heiðina, og teymdi eftir sér rauðan hest og fór að Selá og var hún sem svæfð og mundi ekki að Þormóður var þar fyrir norðan. Þegar hann kom að Selá skildi hann eftir hestinn og átti miklar eltingar milli fjalls og fjöru með ánni. Forundraðist Guðrún að hún sá öngvan reksturinn og lá henni við samt að hjálpa honum, en þegar hún ætlar á stað þá fór maðurinn út í á, þá vaknaði hún sem úr draumi. Snéri Þormóður á hest sinn og fór á bak. Reið hann þá tafalaust til Staðar og varð honum auðvelt að koma honum yfir ána. Rak hann hann upp undir hálsinn þar að stekk sem stíað var frá Hrófbergi; þar setti Þormóður niður drauginn. Síðan fór hann heim að Hrófbergi; var þá komin upp sól. Vakti Þormóður upp fólk og beiddi hann að lofa sér að sofa þar til að fólk færi á fætur og færi á stekkinn. Þá vaknaði Þormóður og segir konunni að þar hafi hann orðið að setja niður drauginn því að hann hafi ekki viljað setja hann niður [annars staðar] en þar sem að kindur gengi yfir, því að hann vildi að þær yrðu heldur en annað lifandi og kveðst vilja borga það sem færi. Þegar fólk kom inn voru dauðar tvær ærnar og borgaði Þormóður þær vel sem þær kostuðu, en áður en hann fór á stað þá spyr konan Þorbjörg hann að og segir hvurt að hann væri þeim mun meiri hinum að galdri en hinir, en hann sagði nei, það væri hann ekki því það skyldi hún ekki hugsa að annar djöfull út ræki hinn. „En hitt að þá munuð þið gjöra það með guðsfingri,“ segir hún „Því síður,“ segir hann, „en heldur af því að ég hafi einhvurja þekkingu framar þeim og helzt af guðs krafti ef ég gjörði það í hans nafni.“ Þaðan fór hann um daginn og segir ekki af ferðum hans fyr en hann kom heim; þá var hann heima í tvær nætur að ekkert bar til tíðinda, en þriðju nóttina gat hann ekki sofið; vakti hann þá konu sína og bað hana að koma með sér ofan því nú væru komnir þrír gestir og stæði sinn við hvurn vegg og einn upp á bæjarburstinni og treysti hann sér ekki að komast út fyrir þeim sem að var upp á bæjarburstinni. Beiddi hann konu sína að ganga út á undan og skyldi hana ekkert saka með herrans hjálp. Lagði hann höndurnar yfir höfuðið á henni, gengu so bæði út. En þegar þau vóru út komin þá sagði hann henni að fara inn og láta öngvan út fara fyr en hann kæmi heim aftur. Gjörði hún so, en Þormóður kom ekki aftur fyrri en um hádegi. En nóttina eftir urðu þeir allir veikir og lá enginn skemur en mánuð. Þó komust þeir allir á fætur og fengu allir sæmilega heilsu.

Þegar þessi tíðindi bárust sagði einhvur kunningi Þormóð[s] því hann hefði ekki látið draugana drepa þá, en hann sagðist ekki hafa viljað vera orðsök í dauða þeirra eða fordæmingar. Þeir glettust aldrei við Þormóð eða Árna. Frá Árna er að segja að hann fékk góða heilsu og vildi gefa Þormóði helming af eigum sínum, en Þormóður sagðist ekki hafa gert þetta sér til ábata. Þó þáði hann eina yfirhöfn fyrir bón Árna og vóru þeir vinir til dauðadags.


  1. Ásgeir Einarsson (1615-1702) var prestur í Tröllatungu 1633-1700.