Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorraþræls-bylur í Odda

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þorraþræls-bylur í Odda

Það er upphaf sögu þessarar að Gísli prófastur Þórarinsson bjó í Odda á Rangárvöllum um og eftir hin síðustu aldamót.[1] Hann var stórauðugur maður og hafði margt hjóna og fjölda kvikfénaðar svo að aldrei voru þar færri en tuttugu kýr í fjósi. Verkstjóri hans hét Jón Magnússon, smiður góður, en hniginn á efra aldur er saga þessi gjörðist. Einn af húskörlum hans hét Benóní; hann var tveggja manna maki að allri karlmennsku og það þó gildir væru. Björn hét smalamaður prófasts, en Órækja fjósakarl. Hann var við aldur, óstyrkur í meira lagi, illhryssingur í skapi og hvumleiður öllum mönnum. Djákni var þar sá er Jón hét og var Þorkelsson; hann náði síðan mikilli frægð fyrir sakir náms og fróðleiks, en lifði skamma stund og dó erlendis 1805. Katrín hét ráðskona í Odda; hún var nær því sextug að aldri og var hinn mesti verkmaður, nokkuð skapþung, en trú og dygg húsbændum sínum. Guðfinna og Solveig hétu griðkonur tvær þar á bænum. Solveig var hæg í lund, en tápmikil; Guðfinna var vel viti borin og svo kjarkmikil að menn sögðu að hún kynni ekki að hræðast. Er það eitt til merkis um kjark hennar að einhverju sinni vakti hún yfir dauðum manni í úthýsi og hafði annan kvenmann hjá sér til skemmtunar. En um miðnætti vildi svo til að líkið fékk sinardrátt og reis upp sem lifandi maður; stökk þá önnur stúlkan með óhljóðum til dyra, fór út og kom aldrei aftur. En Guðfinna réðist á hinn dauða og með dugnaði og aflsmunum gat hún lagt hann til aftur og bar síðan ofan á hann bæði borð og kistur og vakti svo einsömul yfir líkinu alla nóttina.

Gisli prófastur var kvæntur maður og hét kona hans Jórunn Sigurðardóttir. Þau áttu tvö börn; Sigurður hét sonur þeirra, en Sigríður dóttir. Hún hefur sagt frá sögu þessari og var hér um bil ellefu ára er sagan gjörðist. Svo bar til einn vetur í Odda á þorraþrælinn þegar fólk var komið á fætur að húsfreyja fékk kvenfólki sínu ull til að vinna úr sjóvettlinga því karlmenn áttu að fara í verið að fárra daga fresti. Veður var kalt og fjúkandi, snjór á jörðu og mjög dimmt í lofti og hljóð mikið í norðrinu. Karlar voru farnir út að gegna skepnum, en konur settust við ullarvinnu á palli nema Katrín; hún var að skammta mat frammi, en Guðfinna að eldhúsverkum. Litlu síðar komu þær báðar inn á baðstofupall. Settist þá hvor þeirra í sæti sitt og taka nú til vinnu. Þegar þær eru nýlega setztar niður varpar Guðfinna öndinni mæðilega og mælti: „Nú bar það fyrir mig í nótt sem ég hef aldrei fyrr orðið vör við og sem mér verður því óskiljanlegra sem ég hugsa oftar um það.“ Katrín greip þá fram í og mælti: „Nú kemur þú með einhverja vitleysuna, Guðfinna; ég vil þú talir fátt um þetta; það kom allteins að finna mig og aðra.“ Talaði Katrín þessi orð með nokkrum þjóst og þögnuðu allir um stund. Þá mælti húsfreyja: „Þú segir frá því Guðfinna hvað fyrir þig bar.“ Katrín stóð þá upp, gekk að húsmóður sinni og mælti: „Má ég ekki setja mig inn í norðurloft (það var út úr hlið baðstofunnar)?“ „Ekki veit ég það,“ mælti hin: „ég vil helzt að fólk mitt sé hjá mér með vinnu sína.“ Sigríður litla gekk þá til móður sinnar og beiddi hana að láta þetta eftir Katrínu því hún mundi eins ljúka við ætlunarverk sitt þó hún sæti þar inni. Og í annan stað beiddi hún móður sína að lofa sér að sitja þar hjá henni því bæði vildi hún vera henni til skemmtunar og líka gjörði hún sér von um sögu hjá henni. Gengu þær svo inn í norðurloft. En Katrín vildi ekki segja sögu í þetta sinn, en sat þung í skapi við verk sitt. Þegar þær nú voru gengnar inn í loftið tók Guðfinna að segja söguna þannig: „Í gærkvöldi lokaði ég bænum eins og vant var, bæði bæjardyrahurð, ganghurð og baðstofuhurðinni; eftir það fór ég að hátta og vissi ekki betur en allir færu að hátta. Lítilli stundu þar á eftir kallar Jón Magnússon fram úr rúmi sinu og spyr hvort allir séu þá ekki komnir í rekkjur og svöruðu menn að svo væri. Voru slökkt ljós og lögðust menn til svefns.“

Rekkjum manna var svo háttað að Katrín svaf inn í norðurlofti og kvenmaður hjá henni er Gróa hét. Guðfinna og Solveig sváfu í rúmi rétt fyrir framan loftsdyr Katrínar, Björn smali í rúmi þar á móti, og varð ekki gengið inn í norðurloftið ef komið var upp vesturloftsstigann nema farið væri milli rúma Bjarnar og Guðfinnu. Þegar búið var að slökkva ljósið heyrði bæði Guðfinna og aðrir að hrikti í ganghurðinni og því næst var komið inn á baðstofugólfið og þotið upp vesturloftsstigann. Þá kallar Guðfinna: „Hver fer þar?“ en ekki var svarað. Heyrir hún þá að þetta fer fram hjá rúmi hennar og inn í norðurloftið þar sem Katrín svaf. Þá rís upp Björn smali og seilist upp undir sperru, tekur þar ofan hníf og brýnir og segir: „Þetta skal í þig.“ En Guðfinna fer fram úr rúminu svo hægt að enginn heyrir og fetar sig þvert á pallinn fyrir dyrnar þar sem gengið var fram til stigans að eigi yrði farið yfir um hana eða hún yrði þess ekki vör; liggur hún þar um hríð og lætur ekki til sín heyra. En þegar lítil stund er liðin heyra þau að þotið er fram loftið, ofan stigann og baðstofuhurðin hreyfð á járnum og ruðzt út um dyr. Þetta heyrði allt fólkið í rúmunum og þótti undarlegur viðburður. Eftir það sofnuðu menn í bænum, en svo sagði Gróa frá síðan að þessa nótt hefði Katrín látið hræðilega illa í svefni. En það hefur enginn frétt hvað fyrir hana bar.

En nú er að víkja til þess sem fyrr var frá horfið að kvenfólk sat allt við vinnu sína inni í baðstofu, en karlar voru úti. Veður fór versnandi og þegar leið fram um hádegi gjörði ófært veður, grenjandi norðanstorm með mjög dimmu kafaldi. Hér um bil einni stundu eftir hádegi heyra menn að lokið er upp bænum og kemur Benóní inn á baðstofugólfið, kallar til þeirra er uppi sátu og segir: „Það mun ráðlegast að mjólka kýr nú þegar því veðrinu slotar heldur lítið eitt, en seinna í dag verður það engum kvenmanni fært.“ Húsfreyja varð fyrir svörum og mælti: „Hvað á að segja?“ Guðfinna mælti: „Ég fer ekki hálft fet í fjósið á þessum degi.“ Þá anzar Solveig og kvaðst skyldi fara. Hún og Guðfinna voru mjaltakonur. „Ekki vil ég að þú farir, Solveig,“ segir húsfreyja. „og skipa ég það engum.“ Þetta heyrir Katrín, kallar fram úr loftinu og segir: „Ekki læt ég það viðgangast að kýrnar missi máls, ég skal mjólka með Solveigu, ég mun vera yngri en Guðfinna.“ En Katrín var þá um sextugt eins og fyrr segir og eldri en Guðfinna. „Það tekur engu tali að þú mjólkir, Katrín,“ segir húsfreyja. Benóní biður þær þá fá sér strokkinn; var hann ákaflega stór eins og nærri má geta á jafnstóru heimili og sagðist hann mundi bera heim mjólkina í honum, en Órækja karlinn mjólki, „og komist fólkið ekki heim úr fjósinu. getur það drukkið mjólk og látið þar fyrirberast.“ en hann segist þá skuli koma heim í strokknum því sem það leifi af mjólkinni. Katrín þeytir í þessu frá sér prjónunum og segir: „Það skal aldrei ske,“ og með það fer hún ofan, breytir þó í engu búningi sínum eða klæddi sig betur; einungis batt hún þunnum léreftsklút um höfuð sér innan undir húfuna. Þegar hún kemur móts við búrdyrnar fleygir hún búrlyklunum frá sér innar í göngin með þessum orðum: „Þarna eru lyklarnir; það er ei víst að ég komi aftur.“ Síðan fóru þær Solveig út með Benóní; en þegar lokið var upp bæjardyrahurðinni var eins og bærinn léki á þræði og hríðina lagði þá inn um öll göng. Þau áttu undan bylnum ofan í fjósið, en það var nokkuð langt frá bænum, hér um bil hundrað faðma tólfrætt og ofan hlaðbrekku að fara ærið bratta. Svo var veðrið mikið að það sleit konurnar frá Benóní á leiðinni í fjósið og feyktust þær einhvern veginn þangað sín í hvoru lagi. Þó komust þær þangað slysalaust.

Nú leið og beið að enginn kemur aftur heim úr fjósinu og þykir þeim er heima voru það fara að dragast. Þegar kominn er miðaftann heyra menn að bænum er hrundið upp og Benóní kemur inn með strokkinn; var hann þá allur fannbarinn og trölli líkari en manni. Hann mælti: „Er ei allt fólkið komið?“ En þar var enginn kominn heim aftur. Hann sagðist hafa lagt á stað úr fjósinu fyrir hér um bil tveimur tímum, undireins og hitt fólkið, Jón Magnússon, Órækja, Björn, Katrín og Solveig. Í þessu kemur Jón Magnússon inn í bæinn; hann vissi ei hvað hann fór fyrr en hann var kominn upp á smiðjuna og datt ofan af henni, þá áttaði hann sig fyrst, en þegar hann var að klifrast upp á smiðjuna þá heyrði hann í bylnum skammt frá sér að Katrín kallar upp og segir: „Datt ég enn.“ Litlu þar á eftir kom Björn smali, hann hafði rekið sig á brunnausuna og kannaðist þar við hvar hann var kominn. Nú vantaði Órækju og konurnar báðar. Fer þá Benóní út aftur í hríðinni, en fleiri treystust þá eigi að fara, gengur hann í öll húsin og í næstu kot og kemur heim aftur í vökulok jafnnær. Prófastur lét kveikja ljós í loftsgluggum öllum og hringja kirkjuklukkunum, en allt kom fyrir ekki.

Leið svo nóttin að þau komu ekki heim. Morguninn eftir var veður miklu minna, en þó töluvert harðviðri. Þá kemur maður heim að Odda frá Vindási sem er nyrzt og fjærst allra kotanna er liggja undir Oddastað. Hann segir að þar hafi fundizt tveir menn í fjósinu hjá sér, karl og kona, bæði kalin; það var Solveig og Órækja. Þeim hafði jafnan lent saman í hríðinni aftur þó veðrið sliti þau sundur. Fyrst höfðu þau komizt að öðru koti nær Odda sem Kumli heitir. Þar vildi Solveig láta fyrirberast, en Órækja vildi ekki enda átti hann þar ekki friðland og vildi komast heim, en það fór svo að þau hröktust lengra burtu og komust undir dag að Vindási og síðan þar í fjósið. Var Solveig þá svo máttfarin að hún gat ekki á annan veg náð fjóshurðarhespunni fram af kengnum en leggja tennur að járninu; fylgdi þá hespunni skinn allt af vörum hennar og voru það ekki lítil örkuml.

Katrín fannst ei þann dag og ekki fyrr en daginn þar á eftir. Hafði hún hrakizt austur á rima einn langt frá bænum og var þar örend og freðin og hræðileg ásýndum. Var hún því næst borin heim og með því hún var svo mikil fyrirferðar þar sem fötin á henni stóðu sem stokkur komst hún inn um engar dyr nema inn í reiðingaskemmuna. Þorði þá enginn að þíða þar fötin utan af henni nema Guðfinna ein. Hún sat þar ein yfir líkinu næstu nótt og þíddi það, en vildi engan hafa hjá sér. Er það eitt til merkis um það hve hugprúð Guðfinna sú hefur verið að hún þorði alein að sitja yfir hræðilegu líki næturlangt í úthýsi langt frá öllum mönnum, og það líki þeirrar konu er litlu áður var voveiflega farin úr heimi þessum með þungu skapi, ef ekki haturshuga, til Guðfinnu.

  1. [Prestur þar 1784-1807.]