Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorskafjörður og Nesvogur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Þorskafjörður og Nesvogur

Maður er nefndur Bárður; hann fór á skipi yfir Þorskafjörð með fimm öðrum mönnum, deildi illdeilum við þá og drap þá alla. Tveir þeirra voru bræður, synir galdrakonu einnar, og varð hún svo heiftarfull af drápi sona sinna að hún lagði það á fjörðinn að aldrei skyldi þar fást fiskur úr sjó fyrr en tuttugu manns hefði týnt í honum lífi sínu. Sagt er að séra Friðrik prófastur Jónsson hafi verið sá tuttugasti sem drukknaði í firði þessum 1840 af því fyrr féll að en varði, en hann var ríðandi.

Sagt er og að Nesvogur hjá Stykkishólmi sé undir álögum. Sonur gamallar seiðkonu drukknaði í þeim vogi; þá lagði hún það á voginn að tuttugu menn skyldi í honum drukkna. Það er mælt að nú (1858) séu nítján búnir að drukkna í honum og hver maður er hræddur við voginn því enginn vill verða fyrir því að verða hinn tuttugasti.