Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorsteinn á Hæli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þorsteinn á Hæli

Þorsteinn hét maður; hann bjó á Hæli í Gnúpverjahreppi. Hann var kraftaskáld. Hann var formaður í Grindavík. Það var einn dag að veður var hvasst og þó ræði að kalla. Hafði verið tregt um fiskirí næstu daga áður. Þó fór svo að menn réru. Þorsteinn vildi ekki róa, en þótti þó illt að vera í landi ef hinir kynni að fiska, og varð honum illa við þegar hinir fóru. Hann kvað þetta þegar þeir voru komnir í sátur sem róið höfðu:

Skarpan gefðu nú skinnklæðaþerrinn, skapari minn,
svo rekkar fái fyrir róðurinn sinn
rauða lófa, en komist þó inn.

Allt í einu hvessti svo að menn fóru að flýta sér til lands. Gekk þeim það tregt. Komust þó allir til lands um síðir og voru flestir mjög sárhentir.