Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Þorvaldur á Sauðanesi

Úr Wikiheimild

Þorvaldur skáld á Sauðanesi á Upsaströnd átti að vera ákvæðinn.[1] (Það eru annars margar sagnir um hann er því miður fást ekki). Einu sinni var Þorvaldur inn á Akureyri. Var hann þá beðinn að sýna list sína og skyldi fá í staupinu í staðinn ef hann kvæði kaupskip upp af höfninni. Hann kvað:

Kristur minn fyrir kraftinn sinn,
kóngur í himnahöllu,
gjöri þann vind á græðis hind
svo gangi úr lagi öllu.

Þetta varð og báðu þeir hann að snúa við blaðinu. Hann kvað:

Kristur minn fyrir kraftinn sinn,
kóngur himnaláða,
gjöri þann vind á græðis hind
svo gott sé við að ráða.

(Þetta held ég sé honum rangt eignað eftir því sem mig minnir.)

Þorvaldur kom einu sinni til kaupmanns á Akureyri, bað hann að gefa sér í staupinu, en kaupmaður gaf fjandanum það brennivín að hann ætti, og gæti það því ekki. Þá kvað Þorvaldur:

Ég krefst þess af þér sem kaupmaður gaf þér,
kölski fjandi.
Í ámuna farðu óstillandi
og af henni sviptu hverju bandi.

Þá fór að braka í einni tunnunni og varð kaupmaður hræddur við það og kvað Þorvaldur skyldi hafa nóg brennivín ef hann gerði bragarbót, en hana hef ég ei heyrt.

Einu sinni sáu menn að skip ókennilegt sigldi inn á Eyjafjörð hjá Hrísey (sumir segja með svörtum seglum). Það fóru nokkrir fram að skipinu og spurðu um kaptein og réðu það af máli hans að það væri ófriðarskip og hann héti Upprikkt. Þeir réru strax upp að Sauðanesi og fundu Þorvald og sögðu tíðindin. Hann kvað:

Upptrekkt (rella) inn á fjörðinn Eyja renndi;
margbölvaður myrkrafjandi
manndjöful þann reki úr landi.

Í þessu kom ofsasunnanveður svo skipið dreif á haf út og hefir ei sézt síðan.

  1. Hann hefir kveðið kvæðið Æviraun og fl. [Hdr.] Þorvaldur var Rögnvaldsson, d. 1679.