Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Að mjólka fjarlægar kýr

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Að mjólka fjarlægar kýr

Á bæ einum á Hornströndum bjuggu hjón sem mjög vóru grunuð um galdur. Hjá þeim uppólst dóttir þeirra. Þegar hún var orðin hér um bil hálf fullorðin fór sýslumaður að taka rannsókn um þetta mál. Ekki er þess getið hvað foreldrarnir meðgengu. En þegar til dótturinnar kom kvaðst hún ekkert kunna nema að mjólka kýr. Bað sýslumaður hana að sýna sér það og tiltók sjálfur á hvaða bæ kýrin skyldi vera. Tók hún þá puntstrá og rak í holu sem boruð var í stoð, fór svo með tíu marka fötu undir puntstráið og mjólkaði fötuna fulla með nýmjólk. Sýslumaður bað hana að mjólka meira, en hún sagðist ekki mega það, því kýrin skemmdist. Herti þá sýslumaður á henni og mjólkaði hún enn nokkuð unz það fór að koma blóðkorgur. Nú sagði hún kýrin væri farin að skemmast. Herti þá sýslumaður enn að henni að mjólka þar til það fór að koma blóð. Hætti hún þá allt í einu og sagði að nú væri kýrin dauð. Reyndist það og svo að á enni sömu stund hafði sú tiltekna kýr dottið steindauð niður.