Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Afdrif Brands

Úr Wikiheimild

En þau urðu afdrif Brands: Hann var auðigur og hélt húskarla nokkra og slógu þeir út á túni og var smali hans með þeim, ynglingur einn. Brandur gekk til þeirra og bauð þeim að glíma. Vildi það enginn þeirra. En svo kom að hann neyddi smalann til fangs við sig. En er þeir höfðu glímt um hríð féll Brandur og var þegar örendur. Var lík hans heim borið. En er um skyldi sauma, því almennur var það siður að sauma að líkblæjur og sú varhygð þá viðhöfð að jafnan skyldi bíta þá úr nálinni, en ei slíta, gekk til þess griðkona, en þegar hún ætlaði að bíta úr nálinni fyrsta nálþráðinn féll hún dauð niður. Réðist þá til önnur og tók að sauma þar hin hætti, og fór á sömu leið, að hún varð bráðdauð þegar. Vildi þá enginn ráðast til að sauma það eftir var nema dóttir Brands, gjafvaxta mey allröskleg, er sagt er að Guðrún héti. Saumaði hún allt á ristar niður og mælti: „Hvað ætla mér verði nú að sök?“ Þá mælti líkið: „Þú ert ekki búinn að bíta úr nálinni ennþá!“ Hún mælti: „Þá skal slíta, en ei bíta, helvízkur!“ og stakk þegar nálinni í iljar honum (segja það sumir að sú nál væri hert í mannsblóði). Varð henni eigi meint að afturgöngu Brands og þótti jafnan rösk kona og vitur.

Í vörðu einni skammt frá Skógi fundust margar hauskúpur manna og sögðu menn að Brandur hefði ætlað þær til fjölkynngis.