Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Allir erum við börn hjá Boga
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Allir erum við börn hjá Boga“
„Allir erum við börn hjá Boga“
Einu sinni bjó gamall kall í koti nokkru vestra er var fjölkunnugur. Var hann orðinn ellihrumur svo hann hirti jörð sína illa. Ekki stóð hann heldur í skilum og svaraði ekki um nema illu einu svo húsbóndi hans ætlaði að bera hann út. En það var ekki auðgjört því stundum villtust þeir er til þess fóru, stundum duttu þeir og lömuðust og meiddust svo þeir urðu að hverfa frá við svo búið. Seinast var fenginn maður nokkur er Bogi hét til að færa hann burtu. Lét kall sig þá og mælti: „Allir erum við börn hjá Boga.“ Veitti hann enga mótstöðu. Sjálfur var hann borinn út úr bænum því hann mátti trautt ganga og hafði heldur ekki skap til þess. Skyrpti hann þá í bæjarkampinn og hrundi hann til grunna. Að öðru leyti gekk allt slysalaust.