Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Annar atburður

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Heiti kafla (sögu)

Sá atburður varð á bæ þeim fyrir neðan heiði er á Mosfelli heitir þegar þar bjó sá maður er Gissur hét og var Einarsson; hann átti Þóru dóttur Gissurar jarls. Þar var prestur er Guðmundur hét. Hústrú átti hænsn. Það bar til einn morgun sem prestur lá í sæng sinni og sá í eystri dyrnar – því bærinn var tvídyraður. Hann sá hvar hænsin voru og er minnst var von fer hænan upp á þröskuldinn og gelur á þann hátt sem hani, en hljóð hafði hún miklu meira en hani. Var þetta oft og þótti öllum móti náttúru og nokkuð so fyrirsögn þeirra hluta er síðan komu fram og óheyrilegir og óviðurkvæmlegir voru þá er kóngsmenn nauðguðu herra Árna biskup á þann hátt að þeir sögðust taka skyldu frá staðnum í Skálholti og öllum hans útbúum alla vinnumenn utan hann sigldi til Noregs, og gjörðu honum slík fádæmi sem fáheyrð eru og trautt munu dæmi til finnast að með nokkrum biskup hafi so gjört verið, og er ei undarligt þó guð sýndi fáséna hluti fyrir slíkum ódæmum.

Sú bók er ég kalla Sagnamóðir – því sögur voru úr henni skrifaðar – greinir allt þetta. Hana átti Ólafur Hreinsson á Sauðafelli.