Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Atburður gamall

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Atburður gamall

Þá virðuligur herra Árni biskup Þorláksson stýrði staðnum í Skálaholti dreymdi eina konu í Borg í Borgarfirði að henni þótti sem hún gengi út undir vegg þar heima á bænum. Og sem hún hafði staðið þar um hríð kom til hennar einn ungur maður mikill vexti og nokkuð vasmikill og mælti til hennar: „Þú skalt fara með mér.“ „Nei,“ segir hún. „Fyrir víst skaltu fara.“ sagði hann og tekur í hönd henni. en hún lætur leiðast eftir þar til er þau koma að hóli einum að því er henni sýndist. Henni þykir sem hóll sá opnaðist fyrir þeim. Þar leiðir hann hana inn. Því næst komu þau inn í eina stofu vel búna. Þar var inni fjöldi manna. Þar sér hún sitja mann í öndvegi, meiri á vöxt en aðra er þar voru. Og er þau komu inn lætur sá maður hana lausa er hana leiddi þangað. Hún keikist niður við dyrnar og er mjög óttafengin; hún þegir enda mælir engi við hana. Sá hinn ungi maður er hana hafði leitt gengur fyrir hinn mikla mann er í öndvegi sat og henni þótti sem vera mundi yfirmaður allra þeirra og mælti so: „Hví eru þér, faðir minn, so hljóðir og hafið ekki til gamans?“ Hann svarar: „Mér er ekki um læðu þá sem liggur við dyrnar.“ Ungi maður mælti: „Ekki mein mun yður að henni verða, faðir minn, en allir bíða þess er þér hafið nokkuð til gamans.“ Hann kvað þá vísu þessa:

„Þykkt blóð, þreytast rekkar,
þjóðmörg vos öld bjóða,
grand heitt, gumnar andast,
glatast auður, firrast snauðir;
hætt grand hræðast dróttir,
hríð mörg, vesöld kvíða,
angur vært, ærnar skerur,
illur sveimur nú er í heimi.“

Eftir þetta tekur ungi maður í hönd henni og leiðir hana út aftur úr hólnum og þangað sem þau fundust. Varð hún ekki fleira vís því hún þorði einkis að spyrja. Hún vaknaði og mundi vísuna.

Kona þessi var að langfeðgatali af ætt Egils Skallagrímssonar. Vísa þessi var rituð til bróður Árna Illugasonar sem þá var haldinn vísasti maður og bezta skáld. Hann kvað vísuna fyrir Árna biskupi Þorlákssyni og kvaðst kenna skáldskaparhátt Egils á vísunni. Gjörðu þeir sér af gaman og kenndu Egli vísuna, en þetta var í þann tíma er þeir Hrafn Oddsson og Loðinn ónáðuðu Árna biskup um staðamál og heilagra kirkna rétt sem hans saga vottar.