Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Ausa á Stóru-Þverá

Úr Wikiheimild

Nálægt Lambeynnni gengur djúp hvilft frá ánni upp í túnið á Stóru-Þverá;[1] – kallast hvilft þessi Ausa og er í henni nokkurt graslendi. En á því eru álög þau að ekki má slá hana og eru ýms dæmi tilfærð að það hafi ógæfu ollað. Árið 1825 flutti maður sem Þorsteinn hét, sig með fé nokkurt á part af Þverá; sló hann Ausu. En um veturinn mestallan lá hann veikur og missti þá nær því allar skepnur sínar. Var það eignað slætti hans á hvamminum.

Árið 1835 fluttist að Þverá bóndi að nafni Jón Guðmundsson, og sló hann þá um sumarið lítinn part af Ausu og sagðist ekki hirða um neina álfahvamma. En ekki bar hjá honum á slysum neinum öðrum en þeim að svartblesótt kýr sem hann átti var margt einstakt mál um veturinn alveg mjólkurlaus (þurmjólkuð er það kallað), en á öðrum málum mjólkaði hún eðlilega. Þetta var einnig eignað slættinum. Síðan hefir Ausa ekki verið slegin.[2]

  1. Þ. e. í Fljótum.
  2. Víða eru álfahvammar eða þúfur eða brekkur sem ekki má slá, þó hér sé ekki tilgreint nema þetta eina dæmi. — J. N.