Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Básinn og hóllinn í Gaulverjabæ

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Básinn og hóllinn í Gaulverjabæ

Það var forn álfatrú í Gaulverjabæ að jafnan yrði einn básinn að vera auður í fjósinu og að hver sá nautgripur sem á hann væri bundinn dræpist hina næstu nótt. Þar var og hóll í túninu er aldrei mátti slá, því ella fylgdi á eftir óhamingja sú að presti hlekktist á um prestsskap. En er séra Jón Teitsson sem síðan varð biskup á Hólum kom þangað vildi hann nema burtu hjátrú þessa. Hann lét því binda kú á básinn og drapst hún og á sömu leið fór með hina aðra og þriðju. Ekki lét prestur að heldur af þessu og lét binda bola á básinn og drapst hann. Þá lét prestur binda fjórðu kúna á básinn, en hana sakaði ekki. En er hann var spurður hvort ekki ætti að slá hólinn sagði hann að engin þörf væri á því af því að nógar væru slægjur í Gaulverjabæ.