Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bænheitir menn

Úr Wikiheimild

Þó skáldskapur hafi jafnan þókt kröftugri til að framkvæma yfirnáttúrlega hluti en óbundin ræða hafa eigi að síður andríkar bænir, bæði einstakra manna (presta) og heilla safnaða, einatt þókt duga vel bæði til að bæta úr böli einstakra manna og almennum hörmungum. Stundum er varla auðið að sjá hvernig þær bænir hafi verið lagaðar sem einstakir menn hafa fram flutt í einrúmi, en þegar þær hafa verið fram fluttar í söfnuðum innan kirkju er auðvitað að þær hafa verið kristilegar eins og þær sem Espólín getur um að hafi verið gjörðar til guðs í söfnuðum vestra til að létta af galdrameininu í Selárdal sem fyrr segir.

Annað dæmi er það að í Grímsey er það trú sumra manna að það sé bænræknisleysi prestanna að kenna ef einhver ferst í Grímseyjarbjargi. Eftir því hafa flestir prestar þar verið bænræknislitlir því í tíð flestra þeirra hefir einhver maður farizt. Meiri efi leikur á því hvernig Bjarni prestur Helgason á Skarði í Landþingum[1] hafi snúið veðurstöðunni í Heklugosinu 1766 eftir því sem Landmenn hafa frá sagt. Heklugos þetta byrjaði eins og kunnugt er, bæði af ritgjörð Hannesar biskups um það og af Eldritum Jóns prófasts Steingrímssonar, tæpri eykt fyrir miðjan morgun 5. dag apr. 1766. Stefndi þá sandmökkurinn stöðugt til útnorðurs og vesturs svo að eyddust á skammri stundu þrír efstu bæir í sóknum Bjarna á Landinu, Merkihvoll, Skarfanes og Ósgröf, og nokkrir bæir í Árnesþingi, því mökkinn bar þar beina leið vestur yfir Þjórsá. Þenna sama morgun var Bjarni prestur snemma á fótum er gosið kom upp, en þegar hann sá hvert mökkinn lagði af fjallinu er sagt hann hafi hrist höfuðið, tekið kirkjulykilinn og læst að sér kirkjunni í Skarði. En um hádegi kom hann út aftur; var þá kominn steinóður hafsynningur svo sandmökkinn lagði allan norður um afréttir og jökla og er það talið víst að séra Bjarni hafi snúið vindstöðunni með andagift sinni einhverri, því hann kom ekki út fyrr en vindurinn hafði breytt sér á áttinni. Um þenna atburð fer Jón prófastur þessum orðum: „Sandi rigndi þá svo miklum að álnardjúpt varð í nánd Heklu, en hálfrar álnar þrjátíu mílur burtu eða litlu grynnra og mundi eflaust hafa eyðilagt mikinn hluta nálægra sveita hefði ekki sterkur suðlægur vindur um hádegisbil sama dag snúið sandfallinu norður til fjalla og jökla. Hagaði þá herra náttúrunnar því svo að átt sú Heklubúum (þ. e. þeim sem búa í nánd við Heklu) plagar að vera heldur sterk og ógeðfelld varnaði þeim nú auðsénum undirgangi.“

  1. Hann var prestur frá 1718 til 1773. [Hdr.]