Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bókin úr álfheimum

Úr Wikiheimild

Einhvorju sinni kom skip á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Meðal annars flutti hann á land brennivínsámu er á voru tvær tunnur og bauð hann hvorjum er bæri ámuna inn í sölubúð brennivínið af henni. Gengu þá margir að og vildu freista þess, en enginn gat látið renna vatn undir hana. Þá gekk að maður er Jón hét, sterkligur og fílefldur; hann tók ámuna og bar inn í sölubúð. Stýrimaður roðnaði fast og mælti að hann skyldi finna hann að sumri.

Leið veturinn og kemur stýrimaður að sumrinu; heyrir þá Jón að blámaður sé í för með stýrimanni og sé honum ætlað að glíma við hann. Segir faðir hans honum hann skuli vefja sig í gæruskinnum svo blámaðurinn fengi eigi klipið hann. Fer Jón þann veg með er faðir hans sagði fyrir, og glímdi við blámanninn og réði honum bana. Varð þá stýrimaður æfar reiður og kvaðst mundu hitta hann að sumri komanda.

Líður af annar veturinn og kemur stýrimaður að sumri og hefur hann þá víghund svo ólman að engi stóðst fyrir honum ef honum var sleppt úr viðjunum. Gengur þá Jón á tal við föður sinn og segir honum frá; hann ræður Jóni að hafa í hendi blágrýtisstein og henda honum í gin hundsins og brjóta vígtennur hans. Fer Jón svo að og fær lagt hundinn að velli. Verður nú stýrimaður þessa reiðastur og segir honum að koma út á skip með sér. Leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum. Tappar hann þá tvö anker af tunnunni og heldur með það út að Vogsósum; gefur hann Eiríki presti annað ankerið. Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“

Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“ Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað. Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu. Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.