Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Birkihríslan

Úr Wikiheimild

Austur hjá Hörgsdal í Skaftafellssýslu vex birkihrísla einstök, há og fögur, í gilbarmi einum. Ekki má höggva hana upp eða skerða til neinna nauðsynja enda er hún eini skógarviðurinn sem til er í þeirri landareign. Einu sinni var kvenmaður að reka kýr þar nálægt sem hríslan var. Kýrnar rákust illa og vildu tvístrast, en stúlkan hafði hvorki hund með sér né neitt í hendinni sem baulur gætu haft beyg af. Þegar stúlkan fór fram hjá birkihríslunni verður henni það fyrir að hún brýtur anga af henni eða grein til að hafa í hendinni og slær svo með greininni í einhverja beljuna sem verst rakst þar sem hún gekk í halla. En í sama vetfangi og höggið kemur á hana skellist kýrin niður kylliflöt og lærbrotnar, og var það kennt því að stúlkan hefði barið hana með grein af þessari hríslu sem ekki má skerða með neinu móti.