Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Björn Jónsson í Haga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Björn Jónsson í Haga

Björn Jónsson hét maður; hann ólst upp hjá föður sínum í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Vinnukona ein var þar er Marín hét; lagði hún hug á Björn er hann var vaxinn. Var það mjög móti skapi föður hans því hún var kona skapstór, en hún sókti því fastar eftir Birni. Faðir hans gjörði sér allt far um að ráða honum frá að binda hjúskaparheit við Marínu, en hún gjörði sig æ blíðari við Björn og þar kom að hún gat unnið hann til að binda fastmælum hjúskaparheit við sig þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir föður hans. Jón bóndi í Gunnarsholti hafði um mörg ár verið mjög krankur á heilsu, en ekki er þess getið með hvurjum hætti það var.

Björn var skynsamur maður og vel stilltur og lagði hann snemma hug á að nema lækningar enda bar og snemma á því að honum tókst furðanlega vel er hann fór að gjöra lækningatilraunir. Var það eitt að hann með pennaknífi sínum spretti tunguhafti málhaltrar stúlku tuttugu ára gamallar og gat hún upp frá því talað skýrt og rétt meðan hún lifði. En ekki gat hann læknað föður sinn; tók hann þá til ráðs að skrifa til Kaupmannahafnar ágætum lækni eftir meðölum og sendi læknirinn þau árið eftir með Eyrarbakkaskipi, glas með dropum. Var [það] sett á altari í Gunnarsholtskirkju, en þegar átti að fara að huga að og taka glasið var það horfið, en brotin af því lágu hér og hvar um kirkjustéttina og ilm ágætan lagði upp úr hellunum allt sumarið út í gegn, en enginn vissi hvur verkið hafði unnið nema hvað Marín var grunuð um að hafa tekið glasið til að brjóta það svo meðölin gætu ekki orðið Jóni til heilsubótar þar eð hann hafði jafnan staðið móti því að ástir tækjust með þeim Birni syni hans. Dó Jón bóndi hið sama sumar og tók Björn nú við búsráðum og gekk ári síðar að eiga Marínu; fannst þá að hann var maður spaklyndur og margvís.

Árni hét maður; hann hafði búið allan sinn búskap í Haga í Holtum; hann var nú orðinn gamall. Hafði hann farið með kukl og fjölkynngi og verið rammgöldróttur, en áður hann dó bað hann kunningja sinn að taka allar galdraskruddur sínar, fulla hálftunnu. bera út fyrir tún og brenna til ösku, en sjá svo um að reykinn legði ekki heim til bæjarins. Brenndi maðurinn hálftunnuna til ösku með öllum galdraskræðum Árna fyrir vestan Krossahús er vindur stóð af landsuðri. Síðan dó Árni og var mjög reimt eftir hann. Hafði hann átt tvær dætur; urðu þær báðar slagaveikar og lifðu skamma stund eftir dauða föður síns, Falar Björn þá Haga til ábúðar og fékk af erfingjum Árna og flutti þangað búferlum hið næsta vor, hér um 1750, og bjó þar einbýli allan sinn búskap, en byggt var þá Suðurkot og Norðurkot og Krosshús.

Eitthvurt sinn gekk Björn út eftir dagsetur á vökunni hinn fyrsta vetur er hann bjó í Haga; var dimmt mjög. Varð hann þess var að moldargusum miklum var þeytt upp úr kirkjugarðinum. Gekk það í sífellu unz gröf opnaðist og kom úr maður og hleypur burt sem hvatlegast. Gengur Björn á eftir austur á Krosssteinsbarð og sér að eldur logar inn á Ökrunum. Gengur hann nú á eldinn og gat að líta hvar draugur sat við hann og lék sér að peningum. Réði Björn þegar á drauginn. Ekki er getið um hvursu viðskipti fóru með þeim, en svo lauk að Björn yfirvann drauginn og kom honum fyrir og tók svo kút fullan af peningum þeim er draugurinn hafði átt. Keypti hann nú Hagatorfuna og tók nú mjög að eflast að fé og búsæld. Það er og sagt að þegar Björn hafði verið eitt ár í Haga þá væri þar lokið öllum reimleikum.

Eitt sumar sem oftar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamanna var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólsstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réði á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Bjarnar spyr þá hvursu hann hugði þeim að umbúast, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeir síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræður síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann. Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“ Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og hví hann hafi hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég svo fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk ég aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“ Björn spyr hvursu lengi hann ætli enn framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“ „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkrum mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.

Í Arnarfelli skammt frá Krýsivík var og um þessar mundir draugur sá er Arnarfellslabbi var nefndur. Var hann svo kallaður af því að þeir er skyggnir voru gátu að líta strákhvelping með svartkollótta húfu staglaða með hvítu lopbandi koma ofan úr fellinu og á labbi þar umhverfis til og frá um Krýsivíkurmýrar, en þar er eins og kunnugt er almennur áfangastaður og liggja menn þar með lestir, flestir nálægt Arnarfelli. Labbi gjörði ferðamönnum þar ýmsar glettingar. Svipti hann stundum tjaldi ofan af mönnum eða hann þeytti farangri þeirra út í allar áttir eða fældi burt hestana úr haganum og helti suma. Fór enginn maður þann veg eða lagðist þar í áfanga svo að hann hefði ekki heyrt Labba getið. Hann hafði og helt og lamað fé og færleika fyrir Krýsivíkingum og þótti þeim hann sér ærið amasamur í nágrenni, en gátu þó ekki að gjört. Smalamaður Krýsivíkurbóndans hafði og orðið bráðdauður og var það eignað Labba.

Samkvæmt konunglegri tilskipun 1772 skar Björn sem aðrir bændur allt sitt sauðfé. Ætlaði hann nú að róa vetrarvertíðina og réði hann sér far suður í Garði. Býst hann nú í ákveðinn tíma með öðrum vermönnum; voru þeir nótt í Krýsivík. Bóndi kenndi Björn þegar því þeir voru kunningjar. „Mörg ár held ég nú liðin síðan þú hefur róið út Björn minn,“ segir bóndi; „get ég að sauðleysið valdi því að þú ferð nú að róa.“ „Rétt getur þú til,“ segir Björn, „sveltur sauðlaust bú. Ég hef ekki róið síðan ég fór að búa, enda hef ég nú orðið litla lyst til sjóróðra.“ „Kaup vilda ég eiga við þig,“ segir bóndi; „vilda ég biðja þig að fyrirkoma Arna[r]fellslabba, en ég býðst til að taka við færunum þínum og róa þér svo hlut.“ Þeir sömdu nú þetta með sér; réri bóndi honum hlut um vetrinn og fiskaði vel, en Björn varð eftir í Krýsivík. Fer hann nú að hitta Labba og er ekki sagt frá viðskiptum þeirra; hitt er ljóst að Björn kom Labba fyrir og varð aldrei framar vart við hann.

Svo segja ættingjar Bjarnar að Marín kona hans hafi gjört honum ýmsar skapraunir. Umbar hann það með stakri geðprýði og hafði ekki orð um, en ef nokkur talaði um við hann sagði hann að konur væri breyskar og reyndu á stundum þolgæði bænda sinna. Hann andaðist í góðri elli 1793; hafði hann jafnan verið vel virður fyrir sakir lækniskunnáttu sinnar og fjölvísi er hann hafði svo vel með farið. Börn þeirra Marínar voru þau Salómon prestur á Dvergasteini, Eggert bóndi í Haga († 1821) og Guðríður; hún giftist ekki, en bjó búi tvö ár. Eyddist henni arfur og varð brátt öreiga; fór hún þá millum vina sinna. Minntist hún þess jafnan er hún heimsókti vinkonur sínar hve ágætur maður faðir hennar hafði verið. Hún sagði mönnum örlög og nokkurs konar Völuspá. „Skammt er til dómsdags,“ sagði hún og taldi hún þrjár óyggjandi röksemdir því til sönnunar: Það fyrst að jörðin hækki mjög til himins, annað það að stjörnur fjölgi óðum þótt margar hrapi, og hið þriðja að nætur sé alltaf að verða meir og meir bjartari. Kvaðst hún á efri árum sínum sjá þessa mikinn mun við það sem var þá er hún var ung. Guðríður dó á hreppsframfærslu í Oddasókn 1842-43. Afkomendur Bjarnar lifa nú margir (1867), nokkur barnabörn hans og svo allt í fimmta lið.