Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bjargið hjá Hringsdal

Úr Wikiheimild

20. maí 1847 lágum við Grímseyingar veðurfastir á Svínárnesi á Látraströnd. Gengum við Guðmundur Grímseyjarhreppstjóri þá suður að Hringsdal og báðum ekkjuna Guðrúnu sem þar bjó leyfis að mega fara í bjargið þar til að ná hvannarótum. Leyfði hún okkur það, en sagði okkur jafnframt að á bjarginu væri þau álög að hvenær sem teknar væri úr því hvannarætur þá missti Hringsdalsábúandinn einhverja skepnu þar fram af. Sagðist hún nokkrum sinnum hafa leyft að fara í bjargið og allténd hafa misst skepnu fram af á eftir. Við Guðmundur vildum þá hætta við bjargferðina þegar við heyrðum þetta, en Guðrún bað okkur innilega að gjöra sér ekki þá minnkun að svo liti út sem hún hefði viljað meina okkur hvannaræturnar. Fórum við svo, mest fyrir bón hennar, ofan undir bjargið og sáum hvannstóð mikil uppi í því. Gengum við svo nokkuð til og frá undir berginu og vorum að hyggja hvar greiðust væri uppganga, og líka var meðfram hik á okkur að vinna Guðrúnu mein. Innan skamms gerði golukast innan Eyjafjörðinn: gengum við þá sem hraðast upp, kvöddum Guðrúnu og sögðum henni eins og var að byrinn var á runninn áður en við náðum neinni hvannarótinni. Sigldum við svo út að Látrum um nóttina og þókti vel orðið að við höfðum hvorki mein né minnkun unnið Guðrúnu. Á Látrum heyrðum við staðfesta frásögn Guðrúnar um álögin á bjarginu. Hvannarótunum náðum við daginn eftir í Látrakleifum. Þar voru engin álög á.